Hverjir eru atvinnulausir?
Með versnandi atvinnuástandi og vaxandi atvinnuleysi eykst þörf fyrir tölulegar upplýsingar um atvinnuleysi og samsetningu þess. Spurt er úr hvaða störfum þeir koma sem bætast í raðir atvinnulausra um þessar mundir og hvaða menntun þeir hafa.
Samtök atvinnulífsins hafa fengið í hendur gögn frá Vinnumiðlun
höfuðborgarsvæðisins sem sýna skiptingu atvinnulausra eftir
menntun. Þar kemur í ljós að rúmur helmingur atvinnulausra,
57%, eru eingöngu með grunnskólapróf (eða minna).
Fjórðungur er með framhaldsskólamenntun og 10% með
háskólamenntun. Fyrri athuganir á skiptingu atvinnuleysis
eftir menntun hafa einnig sýnt að 10% atvinnulausra eru með
háskólagráðu.
Skipting atvinnulausra
á höfuðborgarsvæðinu
um miðjan janúar 2003 eftir
menntun
Hlutf.
Menntun Karlar Konur Alls skipting
Grunnskólamenntun 1.039 943 1.982 57%
Starfsnámskeið 49 93 142 4%
Framhaldssk.menntun 522 368 890 25%
Sérskólamenntun 107 38 145 4%
Háskólamenntun 190 144 334 10%
Samtals 1.907 1.586 3.493 100%
Þegar þessir yfirflokkar eru skoðaðir nánar þá kemur í ljós að yfirgnæfandi fjöldi þeirra sem eru atvinnulausir og með framhaldsmenntun hafa stúdentspróf, eða rúmlega 500 manns. Á skrá voru 76 trésmiðir og rúmlega 30 með iðnmenntun í hverri greinanna prent-, raf- og málmiðn. Þá voru allmargir atvinnulausir í með menntun í veitingagreinum, eða 20 kokkar og 25 þjónar og loks má nefna að 25 hársnyrtar voru án atvinnu.
Háskólamenntaðir á atvinnuleysisskrá voru 334 á þessum
tíma. Þar af voru 86 með menntun í viðskiptum og rekstri, 47
með verk- eða tæknifræðimenntun og 35 með tölvunar- eða
kerfisfræðimenntun. Stærsti hópurinn, eða 127
manns, flokkast í "önnur hugvísindi" en á bak við hann standa 28
mismunandi tegundir háskólamenntunar.