Hver á að kosta vinnustaðakennslu?

Mörg fyrirtæki bera mikinn kostnað af vinnustaðanámi en önnur taka ekki nema, og skekkir þetta samkeppnisstöðuna. Í greinargerð starfshóps Samtaka iðnaðarins, sem unnin er í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, er fjallað um hvort jafna þurfi þennan mun og þá hvernig.

 

Fjárhagsleg ábyrgð á vinnustaðakennslu er heiti greinargerðar starfshópsins. Þar er fjallað um þann vanda sem fólginn er í skekktri samkeppnisstöðu fyrirtækja sem bera mikinn kostnað af vinnustaðanámi á meðan önnur taka ekki nema. Gerð var könnun meðal 49 fyrirtækja í iðnaði og veitingaþjónustu þar sem 28 fyrirtæki svöruðu. Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram vilji fyrirtækja til að jafna fjárhagslega ábyrgð á vinnustaðakennslu. Jafnframt kemur fram áhersla á að stjórnvöld beri fjárhagslega ábyrgð á vinnustaðanámi með sama hætti og þau bera ábyrgð á skólanámi, en í framhaldsskólalögunum kemur fram að vinnustaðanám sé hluti iðnnáms. Telur starfshópurinn rétt að atvinnurekendur leiti samninga við stjórnvöld um að taka þátt í fjármögnun vinnustaðakennslu.

Starfshópurinn ræddi hvernig jafna mætti fjárhagslega ábyrgð stjórnvalda og fyrirtækja á vinnustaðakennslu. Fjórar leiðir eru taldar koma til greina við fyrirkomulag greiðslu til fyrirtækja vegna vinnustaðanáms og telur starfshópurinn raunhæfustu leiðina fólgna í því að útgjöld vegna vinnustaðanáms verði á fjárlögum. Aðrar leiðir sem koma þykja til greina eru þær að starfsþjálfunargjald sé tekið af tryggingagjaldi, að stofnaður verði starfsþjálfunarsjóður ("Nemasjóður") eða að fyrirtæki sem taki nema í vinnustaðaþjálfun geti sótt um skattaívilnun sem nemi launakostnaði iðnnema, í heild eða að tilteknu hlutfalli. Greinargerðina, sem kynnt hefur verið framkvæmdastjórum aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins, er að finna á heimasíðu Samtaka iðnaðarins.