Efnahagsmál - 

09. júlí 2009

Hvatt til innlendrar og erlendrar fjárfestingar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvatt til innlendrar og erlendrar fjárfestingar

Í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum hefur ríkisstjórnin ákveðið að skera niður opinberar framkvæmdir um 4,4 milljarðar króna frá fjárlögum 2009 og um 10 milljarða til viðbótar á næsta ári. Ríkissjóður hefur ekki bolmagn til þess að standa fyrir jafn miklum framkvæmdum og undanfarin ár vegna gríðarlegs hallareksturs og ört vaxandi vaxtabyrði.

Í samræmi við áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum hefur ríkisstjórnin ákveðið að skera niður opinberar framkvæmdir um 4,4 milljarðar króna frá fjárlögum 2009 og um 10 milljarða til viðbótar á næsta ári. Ríkissjóður hefur ekki bolmagn til þess að standa fyrir jafn miklum framkvæmdum og undanfarin ár vegna gríðarlegs hallareksturs og ört vaxandi vaxtabyrði.

Í atvinnulífinu dragast fjárfestingar og íbúðafjárfestingar saman um 40-45% á þessu ári, eða á annað hundrað milljarða króna að mati Seðlabankans. Á næsta og þarnæsta ári gera Seðlabankinn og fjármálaráðuneytið ráð fyrir aukningu framkvæmda en það er einvörðungu byggt á því að álver rísi í Helguvík, álverið í Straumsvík verði stækkað og ráðist verði í nauðsynlegar orkuframkvæmdir til þess að af þessum fjárfestingum geti orðið. Önnur atvinnuvegafjárfesting og fjárfestingar í íbúðarhúsnæði verða hins vegar í lágmarki á næstu árum.

Við undirbúning stöðugleikasáttmálans sem undirritaður var þann 25. júní síðastliðinn af aðilum vinnumarkaðarins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og ríkisstjórninni var ítarlega fjallað um nauðsyn þess að unnið yrði sem mest og best að nýjum framkvæmdum sem aukið geta atvinnu og stuðlað að hagvexti. Fulltrúar fjölmargra stofnana og fyrirtækja gerðu grein fyrir áformum sínum og hvernig efnahagsástandið hefur valdið frestun á fjölmörgum fyrirhuguðum verkefnum. Kemur þar bæði til að lokast hefur fyrir  erlendra fjármögnun, gjaldeyrishöft, háir vextir, samdráttur í viðskiptum og almennt  vantraust.

Eftir því sem lengra líður draga háir vextir, gjaldeyrishöft og ófullburða bankakerfi sífellt meira úr getu og vilja fyrirtækja til þess að ráðast í nýja fjárfestingu. Því  lengri tíma sem það tekur að greiða úr þessum vandamálum þeim mun lengri tíma mun endurreisnin taka. Augljóst er að ríkisvaldið er mjög vanbúið til fjárfestinga í innviðum samfélagsins á næstu árum og sama á við um sveitarfélögin. Fyrirtæki sem tapað hafa gríðarlegum fjármunum munu vart heldur í stakk búin að hefja uppbyggingu að nýju og sama á við um einstaklinga. Fyrirtæki og einstaklingar berjast við að halda í horfinu og svigrúm til viðhalds eigna og framkvæmda er lítið. Því er spáð að í byggingariðnaði muni einungis starfa 3 - 4 þúsund manns á næsta ári. Á fyrri hluta áratugarins störfuðu 10-12 þúsund starfsmenn í þessari atvinnugrein en sú tala fór hæst í 17.500 árið 2007. Það var því sameiginlegt mat þeirra sem að stöðugleikasáttmálanum komu að nauðsyn beri til þess að greiða fyrir auknum framkvæmdum til að stuðla að aukinni atvinnu:

"Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda, sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009.

Einnig verði unnið skipulega að úrvinnslu áforma um aðrar stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra. Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir sbr. minnisblað vegna verklegra framkvæmda, dags. 16.06.2009, o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009. Aðkoma lífeyrissjóða að slíkum verkefnum útilokar ekki þátttöku annarra fjárfesta eða lánveitenda, innlendra sem erlendra. Sveitarfélög og önnur stjórnvöld tryggi að farið verði að tímafrestum við gerð skipulags og allar leyfisveitingar og greitt verði fyrir nýjum fjárfestingum eins og kostur er."

Lykilatriði er að hvatt verði til þátttöku erlendra og innlendra fjárfesta í innlendum verkefnum. Um það má nefna nokkur dæmi:

Framkvæmdir við álver í Helguvík eru þegar hafnar og nauðsynlegt að leysa úr þeim hnökrum sem kunna að vera til staðar til að hraða þeim. Þar verða allir aðilar að hjálpast að; orkufyrirtækin, Landsnet, sveitarfélögin og ríkið. Enginn getur skorist úr leik.

Fyrir nokkru var lögum breytt þannig að auðveldara er fyrir ríki og sveitarfélög að leigja afnotarétt orkulindanna til fjárfesta án þess að eignarhald á auðlindum fylgi með. Mikilvægt er að kannað verði á kerfisbundinn hátt hvort einkaaðilar, erlendir sem innlendir, hafi áhuga á þátttöku í fjárfestingarverkefnum á þessu sviði. Í ljós hefur komið áhugi kanadísks fyrirtækis á því að eignast hlut í fyrirtæki sem fer með orkuvinnslu á Suðurnesjum og vonandi tekst þar vel til. Á sama hátt mætti ráðast í frekari framkvæmdir með þátttöku fjárfesta án þess að ríki og/eða sveitarfélög þurfi að axla á þeim alla ábyrgð.

Nauðsynlegt er að kanna frekar hvernig unnt er að koma fyrir notendagjöldum til þess að greiða fyrir samgöngubótum á næstu árum. Með slíkum gjöldum á að vera unnt að flýta því að ráðist verði í framkvæmdir við breikkun Suðurlandsvegar, Sundabraut og veginn á Kjalarnesi ásamt tvöföldun Hvalfjarðarganga. Arðsemi myndi þá ráða úrslitum um forgangsröðun framkvæmda ásamt þátttöku óháðra fjárfesta, þ.m.t. lífeyrissjóða. Slíkar framkvæmdir myndu ekki flokkast til opinberra framkvæmda og þar af leiðandi ekki hafa áhrif á áætlun stjórnvalda og AGS um jöfnuð í ríkisfjármálum á komandi árum.

Við gerð sáttmálans var einnig fjallað ítarlega um hvort unnt væri að fjármagna nýbyggingu Landspítalans með því að stofna sérstakt fasteignafélag um verkefnið. Þetta félag kaupi fasteignir á spítalalóðinni við Hringbraut, fjármagni byggingarframkvæmdir og leigi síðan ríkinu. Ríkið hafi síðan kauprétt að eignunum að nýju þegar henta þykir. Afar ólíklegt að ráðist verði í þessa framkvæmd á næstu árum með framlagi af fjárlögum en eftir miklu er að slægjast í aukinni rekstrarhagkvæmni með því að starfsemin færist í eina byggingu.

Til þess að unnt sé að hefja endurreisnina, skapa ný og arðbær störf og um leið forsendur fyrir bættri afkomu einstaklinga, fyrirtækja, sveitarfélaga og ríkissjóðs er nauðsynlegt að hafa allar klær úti til þess að unnt verði að ráðast í arðbærar fjárfestingar með þátttöku fjárfesta á almennum markaði, hvort sem það eru lífeyrissjóðir eða aðrir aðilar, innlendir eða erlendir.

Sjá einnig:

Minnisblað vegna verklegra framkvæmda

Samtök atvinnulífsins