Hvatningarverðlaun jafnréttismála 2019

Óskað er eftir tilnefningum til Hvatningarverðlauna jafnréttismála 2019 en hægt er að skila inn tilnefningum til og með 12. nóvember. Markmiðið með Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er að vekja athygli á fyrirtækjum, sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til þess að gera slíkt hið sama.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð, Háskóli Íslands, Samtök atvinnulífsins og UN Women á Íslandi standa að verðlaununum.

Tilnefningar sendist í tölvupósti á verdlaun@sa.is til og með 12. nóvember merkt: Hvatningarverðlaun jafnréttismála - tilnefning

Verðlaunin eru nú veitt í sjötta sinn, en árið 2018 var það Sagafilm sem hlaut verðlaunin. Í áliti dómnefndar kom m.a. eftirfarandi fram:

„Árangur fyrirtæksins í jafnréttismálum ber þess merki að stjórnendur hafa sett skýr markmið og óhikað hrundið þeim í framkvæmd. Sagafilm starfar í geira þar sem karlar hafa verið ráðandi og því nauðsynlegt að hafa einbeittan vilja til að breyta því“.

Stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja sem skapað hafa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggur til grundvallar eru hvattir til að senda inn tilnefningu.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunaráðherra, mun afhenda Hvatningarverðlaun jafnréttismála við hátíðlega athöfn í Hátíðasal Háskóla Íslands en dagsetning verður kynnt eftir að tilnefningafrestur er liðinn.

Viðmið dómnefndar 2019


Leitað er eftir tilnefningum fyrirtækja sem leggja áherslu á neðangreinda þætti í sinni starfsemi:

 • Tekið er mið af jafnréttismálum í allri stefnumótun fyrirtækisins.
 • Unnið hefur verið að því að skapa góða fyrirtækjamenningu þar sem jafnrétti og virðing fyrir fjölbreytileika samfélagsins liggja til grundvallar.
 • Horft er til jafnréttis í víðum skilningi, m.a. tækifæra innflytjenda, fatlaðs fólks og hinsegin fólks á vettvangi fyrirtækis.
 • Jöfn hlutföll kynjanna í stjórn, stjórnendastöðum og öðrum lykilstöðum.
 • Jöfnum möguleikum kynjanna til starfsframa, m.a. að starfsfólk af öllum kynjum sé hvatt til að nýta sér rétt sinn til fæðingarorlofs.
 • Jöfnum launum kynjanna.
 • Aukinni vitund um þann ávinning sem jafnrétti hefur fyrir fyrirtækið og samfélagið.

Sérstaklega er leitað að fyrirtækjum sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:  

 • Stefna fyrirtækis í jafnréttismálum hefur skýran tilgang og markmið.
 • Jafnréttismál eru sýnileg í heildarstefnu fyrirtækis, og koma skýrt fram í innleiðingu hennar.
 • Jafnrétti hefur fest rætur og sýnt er fram á varanleika.
 • Sýnt hefur verið fram á mælanlegan árangur af þeim markmiðum og aðgerðum sem fyrirtæki hefur sett sér.
 • Vakin er athygli á rekstrarlegum ávinningi af jafnrétti.
 • Leggja áherslu á góðan aðbúnað og vinnuskilyrði starfsfólks
 • Jafnréttissýnin er hvetjandi fyrir önnur fyrirtæki.
 • Sýnt frumkvæði og nýsköpun sem stuðlar að auknu jafnrétti kynjanna.
 • Leggja áherslu á samfélagsábyrgð og takast á við áskoranir nútímans, m.a. mannréttindi, loftslagsmál og fátækt.