Samkeppnishæfni - 

01. desember 2009

Hvað verður um Kyoto-bókunina?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvað verður um Kyoto-bókunina?

Viðræður um framhald Kyoto-bókunarinnar hafa verið í sjálfheldu allt þetta ár og engin augljós leið virðist fær til að breyta því. Árið 2005 hófust á vegum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna umræður um framhald Kyoto-bókunarinnar en skuldbindingartímabil hennar nær til tímabilsins 2008-12. Þótt ýmsu hafi þokað í samkomulagsátt eru nær öll ágreiningsmál í tengslum við bókunina enn óleyst.

Viðræður um framhald Kyoto-bókunarinnar hafa verið í sjálfheldu allt þetta ár og engin augljós leið virðist fær til að breyta því. Árið 2005 hófust á vegum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna umræður um framhald Kyoto-bókunarinnar en skuldbindingartímabil hennar nær til tímabilsins 2008-12. Þótt ýmsu hafi þokað í samkomulagsátt eru nær öll ágreiningsmál í tengslum við bókunina enn óleyst.

Árið 2005 hófust á vegum loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna umræður um framhald Kyoto-bókunarinnar en skuldbindingartímabil hennar nær til tímabilsins 2008-12. Í bókuninni var ákveðið að ríki tilgreind í viðauka 1 skyldu draga úr útstreymi í heild um 5% frá 1990 til 2008-12. Ríkin í viðaukanum sem eru um 40 talsins (ESB-ríkin, Bandaríkin, Ástralía, Noregur, Kanada, Rússland, Noregur, Ísland og fleiri) staðfestu öll bókunina nema Bandaríkin.

Því hafa staðið yfir viðræður í 4 ár um frekari skuldbindingar þessara ríkja í heild frá 2013 og einnig um skuldbindingar einstakra ríkja. Rætt hefur verið um viðmiðunarár, lengd skuldbindingartímabila, hversu mörg tímabilin skuli vera og við útstreymi hvaða árs skuli miða upphaf næsta tímabils. Eins hefur verið rætt um svokölluð sveigjanleikaákvæði þ.e. möguleika þessara ríkja til að eiga viðskipti með útstreymisheimildir sín á milli, reglur um hvernig skuli meta útstreymi vegna landnotkunar (skógræktar, landgræðslu, endurheimt votlendis), hvaða reglur skuli gilda um verkefni í þróunarríkjum sem skapað geta útstreymisheimildir, hvaða lofttegundir skuli taldar með og um eiginleika þeirra.

Nánast öll ágreiningsmál í tengslum við Kyoto-bókunina eru enn óleyst. Í fyrsta lagi má nefna að erfitt er að ákveða markmið fyrir ríkin í viðauka 1 í heild m.a. af því að Bandaríkin eiga ekki aðild að bókuninni. Annað er að þau ríki í viðauka 1 sem staðfest hafa bókunina eru einungis með um 30% af heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Þau hafa því bent á að þótt þau taki myndarlega á í þessum málum hafi það nánast enga þýðingu ef önnur ríki geri ekki eitthvað svipað en þar er einkum átt við Bandaríkin og stór þróunarríki. Í þriðja lagi má nefna að mörg ríki sem enn teljast þróunarríki í skilningi loftslagssamningsins, búa við mun betri efnahag en sum þeirra sem falla undir viðauka 1. Þar má nefna auðug olíuríki, Singapúr, Mexíkó, Chile og Argentínu.

Það er þó þannig að ríkin í viðauka 1 hafa lagt fram eigin vilyrði um samdrátt útstreymis eins og sýnt er hér í töflunni:

Smelltu á töfluna til að stækka

Misjafnt er hvernig ríkin ætla að ná þessum markmiðum. Norðmenn hafa til dæmis sagt að þeir muni kaupa útstreymisheimildir til að uppfylla sín markmið en Íslendingar virðast fyrst og fremst ætla að byggja á aðgerðum heima fyrir. ESB mun stefna að 30% markinu ef alþjóðlegt samkomulag næst með þátttöku allra ríkja þar sem útstreymi er hvað mest.

Þróunarríkin telja þessi vilyrði alls ófullnægjandi og hafa lagt fram tillögur um miklu meiri samdrátt. Síðasta viðræðusyrpa um framhald Kyoto-bókunarinnar stöðvaðist í tvo daga vegna þess að þróunarríkin telja samningana ganga allt of hægt.

Út úr sjálfheldunni
Það er erfitt að sjá fyrir hvernig samningsaðilar geta brotist út úr þeirri sjálfheldu sem Kyoto-viðræðurnar hafa verið í allt þetta ár og jafnvel lengur. Það eru engar líkur til þess að Bandaríkin muni taka á sig lagalegar skuldbindingar eins og Kyoto-bókunin byggir á. Það virðist andstætt grundvallaratriðum þar í landi að framselja vald um framþróun efnahagsmála  í hendur alþjóðastofnunar með því eftirliti og þeim viðurlögum sem slíkt getur haft í för með sér (en loftslagsskuldbindingar hafa augljós áhrif á efnahagsmál). Eins er erfitt að sjá fyrir sér að önnur Kyoto-ríki muni fallast á frekari skuldbindingar án þess að Bandaríkin verði með. Einnig verða stór þróunarríki eins og Kína að taka þátt en þar er nú útstreymi mest í öllum heiminum og árleg aukning útstreymis er þar meiri en heildarútstreymi Bretlands svo dæmi sé tekið.

ESB hefur reynt að brjóta ísinn og lagt til að stefnt verði að einu samkomulagi í Kaupmannahöfn þar sem öll helstu ríki taka á sig skuldbindingar eftir efnum og aðstæðum og að mikilvægir hlutar Kyoto-bókunarinnar verði felldir þar inn. Undir þetta hafa önnur iðnríki tekið en þróunarríkin rekið upp ramakvein og sakað ESB um að vilja drepa Kyoto-bókunina ("Kill-Kyoto").

Pétur Reimarsson

Sjá nánar:

Yfirlit yfir pistla Péturs

Samtök atvinnulífsins