Efnahagsmál - 

20. Apríl 2006

Hvað er að frumvarpi um RÚV?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvað er að frumvarpi um RÚV?

Morgunblaðsgrein Guðlaugs Stefánssonar, hagfræðings hjá Samtökum atvinnulífsins, um samkeppnismál í útvarps- og sjónvarpsrekstri:

Morgunblaðsgrein Guðlaugs Stefánssonar, hagfræðings hjá Samtökum atvinnulífsins,  um samkeppnismál í útvarps- og sjónvarpsrekstri:

Frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið hf. felur í sér að stofnað verði hlutafélag um rekstur RÚV í 100% eigu ríkisins. Brýnt er að með lögunum verði staðfest að útvarps- og sjónvarpsrekstur er ekki lögvarin einokunarstarfsemi ríkisins, eins og áður var, heldur atvinnustarfsemi sem hverjum og einum er frjálst að stunda sem hefur til þess tilskilin leyfi.

Samræmist ekki EES samningi

Í umsögn Samtaka atvinnulífsins til Alþingis var komist að þeirri niðurstöðu að frumvarpið samræmdist ekki ákvæðum EES samningsins um ríkisstyrki og tryggði ekki viðunandi jafnræði milli aðila í útvarps- og sjónvarpsrekstri. Nú liggur fyrir álit meiri hluta menntamálanefndar Alþingis. Er þar lítið horft til þessa sjónarmiðs og aðeins lagðar til óverulegar breytingar á upphaflegu frumvarpi.

Fjármögnun RÚV felur í sér ríkisstyrk. Er þetta staðfest í bréfaskiptum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) við íslensk stjórnvöld. Reglur EES samningsins um ríkisstyrki gilda um frumvarpið. Stjórnvöldum ber því að tilkynna efni þess til ESA og er óheimilt að hrinda nýrri ríkisaðstoð í framkvæmd fyrr en samþykki liggur fyrir.

Meginregla 61. gr. EES samningsins er sú að ríkisstyrkir eru bannaðir, enda raska þeir samkeppni á markaðnum. Undanþágur frá banninu getur aðeins ESA veitt, en EFTA dómstóllinn getur þó ógilt þær. Túlkunarreglur ESA um ríkisaðstoð vegna útvarpsreksturs í almannaþágu miða að því að skapa jafnræði milli einkaaðila og aðila sem hljóta ríkisstyrk. Vandamálið er stærst á markaði eins og þeim íslenska þar sem ríkisstyrktri stöð er einnig heimiluð tekjuöflun með sölu auglýsinga. Kjarninn í reglunum er sá að aðstoð fær því aðeins staðist að hún sé nauðsynleg til að greiða kostnað af þjónustu í almannaþágu. Styrkur umfram þetta mark er óheimill.

Skyldur RÚV ótilgreindar

Í reglunum felst að litið er á RÚV hf. sem verktaka sem uppfylla skal tilteknar skyldur. Forsenda undanþágu er að kröfur um almannaþjónustu RÚV séu vel skilgreindar. Í frumvarpinu er skilgreiningin sett fram í 3. gr. í 14 töluliðum. Þar eru ýmis viðmið um starfsemi RÚV, s.s. að leggja skuli rækt við íslenska tungu og að lýðræðislegar grundvallarreglur skuli halda í heiðri. Sum þessara ákvæða kunna að eiga rétt á sér. Í heild felur greinin hins vegar ekki í sér nothæfa skilgreiningu. Engar mælanlegar kröfur eru þar um skyldur RÚV. Frumvarpið jafngildir því að ríkið tryggði verktaka árlega 2.500 milljónir króna þar sem verklýsingin hljóðaði upp á að byggð skyldu blámáluð hús í þjóðlegum stíl en engar kröfur gerðar um magn, umfang eða verkskil. Skilgreiningin er arfur gamalla lagaákvæða um RÚV. Hún miðast ekki við afurðir RÚV heldur að það tryggi sjálfkrafa góðan árangur að leggja RÚV til fjármuni og tryggja þar fólki vinnu. Þessi viðhorf eru tímaskekkja sem horfið hefur verið frá á öðrum sviðum, t.d. varðandi opinber framlög til kvikmyndagerðar og rannsókna- og þróunarmála. Slík framlög eru síður tengd ákveðnum stofnunum en í vaxandi mæli verkefnabundin miðað við skilgreind markmið.

Vegna gagnrýni leggur meiri hluti menntamálanefndar til að lappað verði upp á skilgreininguna með því að færa til 13. og 14. tölulið 3. greinar. Þetta eru ekki ásættanleg viðbrögð. Skilgreiningin í heild á ekki við í nútímalegri löggjöf. Þessi í stað þurfa að koma mælanlegar kröfur um það hvaða þjónustu skattgreiðendur eiga að fá frá RÚV fyrir þann styrk sem hlutafélaginu er ætlaður.

Ekkert eftirlit

Í frumvarpinu er engin ákvæði að finna um að óháður aðili skuli annast eftirlit með því að RÚV sinni í raun þeim skyldum sem opinber fjármögnun þess gerir ráð fyrir. Þessu má jafna við að í samningi ríkisins við verktaka væri öllu verkeftirliti sleppt. Slíkt er auðvitað fráleitt. Breyting á RÚV í hlutafélag felur í sér stóraukið sjálfstæði þess, sem fjarlægist þar með afskipti pólitísks framkvæmdavalds. Það er jákvætt en gerir um leið kröfu til þess að hlutverkið sé vel skilgreint og eftirlit virkt. Ýmis erlend fordæmi eru um eftirlit með ríkisstyrktum útvarpsrekstri. Má þar t.d. benda á breska fjarskiptaeftirlitið OFCOM, sem annast eftirlit með því að BBC uppfylli skyldur um þjónustu í almannaþágu.

Víti til varnaðar

Á dögunum ógilti EFTA dómstóllinn ákvörðun ESA um lánastarfsemi Íbúðalánasjóðs (ÍLS). Málefni ÍLS og RÚV eru sambærileg að því leyti að í báðum tilvikum reynir á undanþágu skv. 2. mgr. 59. gr. EES samningsins. Íslensk stjórnvöld lögðu hart að ESA að veita undanþágu í máli ÍLS. EFTA dómstóllinn taldi hins vegar vafa leika á því að fyrirkomulagið stæðist og hefði ESA borið skylda til að opna formlega rannsókn. Málið staðfestir aukna festu í túlkun EES löggjafar á þessu sviði og kröfu um að ríkisstyrkir raski ekki samkeppni. Hliðstæða þróun má greina í dómaframkvæmd dómstóla ESB. Dómurinn ætti að verða víti til varnaðar. Í frumvarpi um RÚV skortir nothæfa skilgreiningu á því hvað RÚV á að gera sem og eftirlit með því hvað það gerir í raun. Alþingi væri sómi að því að ráða bót á þessu með nútímalegri ákvæðum og forðast nýleg mistök í hliðstæðu máli.

Umsagnir SA um stjórnarfrumvörp um Ríkisútvarpið.

Samtök atvinnulífsins