Fréttir - 

10. Janúar 2020

Hvað ber árið 2020 í skauti sér?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hvað ber árið 2020 í skauti sér?

Uppsveiflu í tæpan áratug lauk árið 2019 en ef réttar ákvarðanir verða teknar á nýju ári munu þær grynnka niðursveifluna og flýta viðsnúningi í efnahagslífinu. Framundan eru krefjandi áskoranir á vinnumarkaði og í efnahagslífinu. Það hvernig okkur gengur að kljást við þær mun ráða miklu um lífskjör landsmanna á næstu árum.

Uppsveiflu í tæpan áratug lauk árið 2019 en ef réttar ákvarðanir verða teknar á nýju ári munu þær grynnka niðursveifluna og flýta viðsnúningi í efnahagslífinu. Framundan eru krefjandi áskoranir á vinnumarkaði og í efnahagslífinu. Það hvernig okkur gengur að kljást við þær mun ráða miklu um lífskjör landsmanna á næstu árum.  

Þetta kom fram í máli Halldórs Benjamín Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, á árlegum fundi SA með fjölmiðlum þar sem rýnt er í árið framundan og það sem hefur áunnist.

Kynning framkvæmdastjóra SA (PDF)

Allir á sama báti
Í kjölfar Lífskjarasamningsins, sem undirritaður var 3. apríl 2019 og gildir til 1. nóvember 2022, hefur verið gengið frá kjarasamningum fyrir u.þ.b. 95% launafólks á almennum vinnumarkaði.

Lífskjarasamningurinn er yfirskrift þeirra fjölmörgu samninga og yfirgripsmiklu aðgerða sem aðilar vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafa sammælst um næstu árin. Samningurinn snýst um fjórþætta lausn. Hærri laun, einkum lágtekjuhópa, aukinn sveigjanleika samhliða styttri vinnutíma, lækkun tekjuskatts og leiðir til að skapa jarðveg fyrir lægri vexti á Íslandi til framtíðar. Það er til hagsbóta fyrir bæði heimilin og fyrirtækin í landinu. Árangur hefur þegar náðst en fjölmörg verkefni bíða.

Kjarasamningar stéttarfélaga við ríki og sveitarfélög standa yfir og hafa dregist úr hófi. Nauðsynlegt er að þeir verði innan þess ramma sem samið var um síðastliðið vor. Langþráður stöðugleiki í íslensku efnahagslífi blasir við ef rétt er á málum haldið. Vextir hafa lækkað, verðbólga verið lítil og gengi krónunnar stöðugt. Kaupmáttur launa hefur aukist meira en dæmi eru um á þessum áratug.

Atvinnulífið vantar súrefni
Það er efnahagslægð yfir landinu eftir langvarandi góðæri og atvinnulífið bregst við breyttum aðstæðum með hagræðingu sem óhjákvæmilega felur í sér fækkun starfsmanna. Atvinnulífið skortir súrefni en hægt er að bregðast við með því að minnka álögur á fyrirtæki. Verði það gert styrkjast þau, færra fólki verður sagt upp störfum og hvati myndast til að ný störf verði til og nýsköpun blómstri.

Aukin innviðafjárfesting skynsamleg
Við núverandi aðstæður er hagkvæmt og skynsamlegt að opinberir aðilar auki fjárfestingar í innviðum Íslands. Auknar opinberar framkvæmdir grynna efnahagslægðina og það er beinlínis fjárhagslega hagkvæmt fyrir ríki og sveitarfélög að nýta vannýtta framleiðslugetu framkvæmdaaðila og lága vexti.

Samtök atvinnulífsins