Efnahagsmál - 

21. febrúar 2003

Húsfyllir á opnum fundi SA um áhrif hágengis

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Húsfyllir á opnum fundi SA um áhrif hágengis

Raungengi á mælikvarða launa er 10% yfir meðaltali síðustu 10 ára. Raunveruleg launaþróun síðustu ára er vanmetin í launavísitölu Hagstofunnar, sem Seðlabankinn byggir á. Framleiðslufyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni hafa fá úrræði önnur en að flytja starfsemi úr landi, og þau sem flytja starfsemi sína úr landi vegna slæmrar samkeppnisskilyrða koma yfirleitt ekki aftur. Ef gengi krónunnar gefur ekki eftir mun landvinnsla á fiski víða gefa eftir. Ferðaþjónustan er að tapa viðskiptum til annarra landa vegna hás gengis krónunnar. Greinin er efnilegt óskabarn en án framtíðar ef fram heldur sem horfir með gengi krónunnar. ASÍ kallar eftir formlegu samráði stjórnvalda, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins. Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um áhrif hágengis á þjóðarhag.

Raungengi á mælikvarða launa er 10% yfir meðaltali síðustu 10 ára. Raunveruleg launaþróun síðustu ára er vanmetin í launavísitölu Hagstofunnar, sem Seðlabankinn byggir á. Framleiðslufyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni hafa fá úrræði önnur en að flytja starfsemi úr landi, og þau sem flytja starfsemi sína úr landi vegna slæmrar samkeppnisskilyrða koma yfirleitt ekki aftur. Ef gengi krónunnar gefur ekki eftir mun landvinnsla á fiski víða gefa eftir. Ferðaþjónustan er að tapa viðskiptum til annarra landa vegna hás gengis krónunnar. Greinin er efnilegt óskabarn en án framtíðar ef fram heldur sem horfir með gengi krónunnar. ASÍ kallar eftir formlegu samráði stjórnvalda, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins. Þetta er meðal þess sem fram kom á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um áhrif hágengis á þjóðarhag.

Húsfyllir var á opnum fundi Samtaka atvinnulífsins um Áhrif hágengis á þjóðarhag. Á fundinum fjölluðu stjórnendur úr iðnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, ásamt með talsmönnum SA og ASÍ, m.a. um það hvort hagstjórn gæti komið í veg fyrir ofris krónunnar, hverjir væru valkostir íslenskra fyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni og hver gætu orðið varanleg áhrif hágengis á lífskjör og atvinnustig.

Frummælendur á fundinum voru þeir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Hörður Arnarson, forstjóri Marel, Guðbrandur Sigurðsson, framkvæmdastjóri Brims og Útgerðarfélags Akureyringa, Gunnar Rafn Birgisson, framkvæmdastjóri Ferðaskrifstofunnar Atlantik og Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ. Fundinum stýrði Ari Edwald, framkvæmdastjóri SA.

Raungengi á mælikvarða launa 10% yfir meðaltali síðustu 10 ára
Hannes G. Sigurðsson sagði lækkun stýrivaxta um 0,5% þann 10. febrúar sl. hafa valdið mönnum í atvinnulífinu miklum vonbrigðum, í ljósi þess að talsvert svigrúm væri til slökunar peningastefnunnar enda 2,5% vaxtamunur við evrusvæðið. Þá sagði hann það enn auka vonbrigðin að bankarnir túlkuðu aðstæður þannig að að þetta hefði verið síðasta vaxtalækkun bankans á árinu. Ljóst væri því að margboðuð barátta Seðlabankans við hugsanlega þenslu af völdum byggingaframkvæmda á Austurlandi eftir 2-3 ár væri komin inn í vaxtamyndunina, í því formi að vextir hefðu lækkað minna en ella.

Launaþróun á markaði vanmetin í forsendum Seðlabanka
Hannes andmælti þeirri yfirlýstu skoðun talsmanna Seðlabankans að núverandi rekstrarskilyrði væru þokkaleg fyrir útflutningsgreinar og greinar í samkeppni við innfluttar vörur og þjónustu. Hann færði rök fyrir því að raunveruleg launaþróun á markaði hafi verið vanmetin í launavísitölu Hagstofunnar og að það endurspeglaðist í raungengisvísitölu Seðlabankans. Hannes hélt því fram að raungengi á mælikvarða launa væri a.m.k. 4,5% hærra nú en fram kæmi í vísitölu Seðlabankans. Ef þróun launa væri leiðrétt fengist sú niðurstaða að raungengi á mælikvarða launa yrði um 10% hærra en að meðaltali síðustu 10 ár, en sá tímarammi hefur mjög verið í umræðunni. Hannes lagði hins vegar áherslu á að viðmiðun við síðustu 10 ár væri í raun ekki viðeigandi þar sem þetta tíu ára meðaltal væri engan veginn mælikvarði á jafnvægisástand. Þetta tímabil einkenndist af miklum viðskiptahalla og erlendri skuldasöfnun, að jafngildi 230 milljörðum króna.

Áhrif hágengis á byggðamynstur
Hannes sagði óhjákvæmilegt að áhrif langvarandi hágengis á sjávarútveg yrðu þau að fiskvinnsla flyttist frekar út á sjó, með tilheyrandi keðjuverkandi samdráttaráhrifum í þeim byggðum sem byggðu tilveru sína að verulegu leyti á fiskvinnslu í landi. Í því ljósi væru áhrif hágengis á búsetumynstur í landinu verðugt rannsóknarefni.

Loks sagði Hannes atvinnulífið kalla eftir því að Seðlabankinn endurskoðaði jákvæða afstöðu sína til hins of háa gengis krónunnar sem myndast hefur á markaðnum.

Flytja starfsemi úr landi
Hörður Arnarson sagði vissulega margt jákvætt hafa gerst í starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja undanfarin ár, einkum uppbygging fjármagnsmarkaða og skattabreytingar. Þrjú atriði sagði hann hins vegar hafa skert samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja á síðustu misserum, raungengi krónunnar, vexti og launahækkanir. Hann skoðaði áhrif þessara breytinga á dæmigert útflutningsfyrirtæki þar sem áhrif 5% gengishækkunar væru sambærileg við 16% launahækkun. Áhrif 15% gengishækkunar væru sambærileg við 47% launahækkun og 15% gengishækkun breytti 50 milljóna króna hagnaði í 69 milljóna króna tap.

Hörður sagði fyrirtæki í samkeppni við erlenda aðila ekki hafa mörg úrræði vegna skertra samkeppnisskilyrða. Þau gætu t.d. ekki hækkað verð. Framvirkir samningar væru skammtímalausn. Það sem þau geta gert er að færa innlendan kostnað í erlenda gjaldmiðla, og hreinlega flytja starfsemi úr landi. Hann benti á að þau fyrirtæki sem draga úr íslenskum kostnaði vegna slakrar samkeppnisstöðu kæmu yfirleitt ekki aftur.

Hörður kvartaði undan þröngri túlkun Seðlabankas á verðbólgumarkmiðum og miklu ósamræmi í stöðumati bankans annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Hann sagði Seðlabankann lækka vexti alltof seint og alltof hægt. Áhrif hágengis á útflutningsfyrirtæki og fyrirtæki í samkeppnisiðnaði væru mjög mikil og oft vanmetin í umræðunni. Þá lýsti Hörður sérstökum áhyggjum af hverfandi áhuga fjárfesta á sprotafyrirtækjum við þessar aðstæður, þar sem arðsemiskrafa á hlutabréfamarkaði hækkaði.

Landvinnslan mun víða gefa eftir
Guðbrandur Sigurðsson fjallaði um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja í ljósi gengisþróunar undanfarinna ára og horfa framundan. Í máli hans kom m.a. fram að áhrif gengisbreytinga undanfarinna ára, miðað við meðalgengi 2001 og 2003, væru 9% lækkun tekna á sama tíma og áætla mætti að hráefniskostnaður frá útgerð hefði aukist um 6%, laun hækkað um 7% skv. kjarasamningum og umbúðir og annað hækkað um 7% sömuleiðis (sbr. neysluvísitölu).

Hann sagði framlegð fara hratt lækkandi í landvinnslunni, eða um 13,5 milljarða milli áranna 2001 og 2003. Guðbrandur sagði fiskveiðar geta aðlagað sig að breyttu gengi þar sem 2/3 af kostnaði væru tengdir gengi. Landvinnslan hefði hins vegar litla sem enga gengisaðlögun á kostnaðarliðum. Því kæmi hágengi mjög illa niður á landvinnslu. Sterkt gengi krónunnar stuðlaði að sjóvinnslu og útflutningi á hráefni og framhaldsvinnsla, virðisaukningin, yrði illmöguleg hér á landi. Guðbrandur sagði að ef gengið gæfi ekki eftir myndi landvinnslan víða gefa eftir, og ekki væri hægt að vinna upp það tap sem þarna yrði.

Ferðaþjónustan efnilegt óskabarn, en án framtíðar
Gunnar Rafn Birgisson fjallaði m.a. um hvernig samningar við erlenda aðila væru gjarnan gerðir með sex til átján mánaða fyrirvara, og þá í erlendri mynt. Mikil hækkun gengisins hefði því mjög alvarleg áhrif á ferðaþjónustufyrirtæki sem yrðu að verulegu leyti að taka á sig gengisbreytingarnar. Gunnar sagði að gera mætti ráð fyrir að Íslandsferð kostaði um 25-30% meira í erlendri mynt árið 2003 en árið 2002 og sagði hann viðskipti vera að tapast til annarra landa, svo sem Írlands og Finnlands, vegna hás gengis krónunnar.

Gunnar líkti gengisþróun krónunnar undanfarin ár við rússíbanaferð og sagði þessar miklu sveiflur ótvírætt hafa mjög slæm áhrif á stöðu, rekstur og framtíðaráætlanir þeirra fyrirtækja í ferðaþjónustu sem byggðu á tekjum í erlendri mynt. Hann lýsti eftir stöðugleika í íslensku efnahagslífi. Án hans yrði ferðaþjónustan áfram efnilegt óskabarn, en án framtíðar ef svo færi sem horfði með gengi krónunnar.

ASÍ kallar eftir þríhliða samráði
Gylfi Arnbjörnsson spurði hvort munur væri á "stöðugu verðlagi" og "stöðugleika í efnahagslífinu." Hann benti á að um sex til sjö þúsund manns væru á atvinnuleysisskrá og sagði efnahagsstjórnina eiga að miðast við það ástand sem ríkti núna. Gylfi fagnaði því að stjórnvöld skyldu hafa ákveðið að flýta opinberum framkvæmdum, þótt hann gerði ákveðnar athugasemdir við útfærsluna. Hins vegar lagði hann áherslu á að Seðlabankinn ætti að lækka stýrivexti sína verulega, til að tryggja stöðugra gengi og treysta þannig stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina og koma í veg fyrir frekari uppsagnir og tekjubrest.

Gylfi sagði stjórnvöld með stefnu um að hafa hvetjandi áhrif á atvinnulífið en Seðlabanka Íslands með stefnu um að hafa letjandi áhrif á það með vaxtastefnu sinni.  Hann sagði þessa vaxtastefnu geta orðið til að festa atvinnulífið í einhæfri auðlindanýtingu. Gylfi minnti á að miðstjórn hefði nýlega ályktað þess efnis að nauðsynlegt væri að efna til formlegs samstarfs stjórnvalda, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins til að samræma viðbrögð hagstjórnar næstu missera. Náið samráð hefði alltaf reynst okkar sterkasta vopn til að bregðast við óheillavænlegri þróun.


 

Ræða Hannesar G. Sigurðssonar (pdf-skjal)

Glærur  Hannesar G. Sigurðssonar

Glærur Harðar Arnarsonar

Glærur Guðbrands Sigurðssonar

Glærur Gunnars Rafns Birgissonar

Glærur Gylfa Arnbjörnssonar

Samtök atvinnulífsins