Fréttir - 

04. Maí 2017

Hugmyndafræðileg afstaða til trafala?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hugmyndafræðileg afstaða til trafala?

Á Íslandi hefur val sjúklinga verið takmarkað og heilbrigðiskerfið hefur ekki í nægjanlegum mæli verið byggt upp til að mæta þörfum sjúklinga. Hið opinbera er ráðandi í veitingu heilbrigðisþjónustu og hefur algjöra yfirburðarstöðu og aukinnar miðstýringar hefur gætt.

Á Íslandi hefur val sjúklinga verið takmarkað og heilbrigðiskerfið hefur ekki í nægjanlegum mæli verið byggt upp til að mæta þörfum sjúklinga. Hið opinbera er ráðandi í veitingu heilbrigðisþjónustu og hefur algjöra yfirburðarstöðu og aukinnar miðstýringar hefur gætt.

Það er full ástæða til að taka undir með forsætisráðherra sem sagði á ársfundi SA fyrir mánuði að hugarfarsbreyting á þessu sviði nauðsynlega og að einkaaðilar geti sinnt margs konar þjónustu fyrir ríkið. Annars er hætta á að opinbert fé nýtist ekki nægilega vel.

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu hefur aðeins verið nýttur að takmörkuðu leyti á Íslandi. Fjölmörg dæmi er þó að finna um jákvætt framlag einkarekinna íslenskra heilbrigðisfyrirtækja sem hafa sýnt fram á að þau geti veitt jafngóða eða betri þjónustu en hið opinbera með hagkvæmari rekstri fyrir þjóðfélagið.

Breytinga er þörf. Bið sjúklinga eftir brýnum aðgerðum eins og liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum – svo dæmi séu tekin – lengist frekar en styttist með tilheyrandi óþægindum.

Góð reynsla af einkareknum heilbrigðisstofnunum
Hugmyndafræðileg afstaða á ekki að koma í veg fyrir að gerðir verði samningar við einkareknar heilbrigðisstofnanir, sem geta stytt biðlista eftir aðgerðum. Mun betur mætti gera ef krafa um hagkvæmni og árangur væri höfð að leiðarljósi og  ríkjandi stefna um einokun opinberrar heilbrigðisþjónustu verði endurskoðuð.

Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu byggist á því að ríkið greiði sömu framlög til einkaaðila til að framkvæma sömu aðgerðir fyrir jafnmikil eða meiri gæði. Það er ekki einkavæðing heldur stefna um að bæta nýtingu skattfjár og auka þjónustu og bæta lífsgæði sjúklinga.

Útgjöld ríkisins til opinberrar heilsugæslu hafa hækkað umtalsvert meira en til einkarekinnar. Mikil hækkun á framlagi ríkisins til sérfræðiþjónustu skýrist einkum af ákvörðun ráðherra um að hækka greiðsluþátttöku ríkisins vegna sérfræðilækna og greiðsluþátttöku ríkisins í tannlæknaþjónustu á árunum 2013 og 2014.

Aukin hagkvæmni og betri þjónusta
Útgjöld ríkissjóðs til einkarekinnar heilbrigðisstarfsemi eru á grundvelli samninga og auðvelt er að meta umfang og framleiðni þeirrar þjónustu. Einkarekstur fjármagnaður af ríkinu hefur ekki þróast „nánast stjórnlaust“ eins og nefnt hefur verið í umræðunni. Þvert á móti eru mörg merki þess að um löngu tímabæra þróun sé að ræða.

OECD komst að þeirri niðurstöðu árið 2008 að hagræðing í heilbrigðiskerfinu geti skilað tugprósentustiga lækkun kostnaðar. Þar starfi of margt fólk í samanburði við önnur lönd, hlutur einkaaðila sé of lítill, þjónusta sé í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum og samkeppni sé ekki nægjanleg.

Laun hækka og biðlistar lengjast
Umfang og framleiðni opinberrar heilbrigðisstarfsemi er ekki jafn gagnsæ og á við um einkarekstur. Landspítalinn hefur fengið milljarða króna í auknar fjárveitingar á síðustu árum. Engu að síður birtast reglulega fréttir af alvarlegu ástandi á Landspítalanum sem er yfirfullur af sjúklingum sem ættu að dvelja í ódýrari úrræðum. Svo virðist sem ríkið og viðsemjendur þess hafi ákveðið að langstærstur hluti þessa fjár skuli renna til launahækkana starfsfólks en ekki til þess að bæta þjónustu við sjúklinga.

Breytinga er þörf. Bið sjúklinga eftir brýnum aðgerðum eins og liðskiptaaðgerðum, hjartaþræðingum og augasteinsaðgerðum – svo dæmi séu tekin – lengist frekar en styttist með tilheyrandi óþægindum. Þrátt fyrir sérgreind framlög úr ríkissjóði til Landspítalans til að stytta biðlista virðist árangurinn takmarkaður.

Tölurnar tala sínu máli: Í október 2015 voru um 2.700 sjúklingar á biðlista eftir framangreindum aðgerðum á Landspítalanum. Af þeim höfðu um 2.000 sjúklingar beðið lengur en þrjá mánuði eða 75%. Ári síðar voru 2.500 sjúklingar á biðlista eftir framangreindum aðgerðum á Landspítalanum. Af þeim höfðu 2.040 beðið lengur en þrjá mánuði eða 82%. Hugmyndafræðilegur ágreiningur má ekki standa þjónustu við sjúklinga fyrir þrifum.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Greinin birtist í Viðskiptablaðinu 4. maí 2017.

 

Samtök atvinnulífsins