09. janúar 2026

Hugleiðingar á nýju ári

Jón Ólafur Halldórsson

1 MIN

Hugleiðingar á nýju ári

Hvað boðar nýárs blessuð sól? spurði þjóðskáldið okkar, Matthías Jochumsson, í sálmi sínum sem var prentaður í sálmabók fyrir 140 árum síðan. Sálmurinn er sprottinn upp úr samfélagi sem er gjörólíkt því samfélagi sem við eigum í dag. Við megum vera þakklát og stolt af því samfélagi sem kynslóðirnar síðan hafa byggt upp með dugnaði og af framsýni. Það er skylda okkar sem búum á þessu fallega landi að læra af fyrri kynslóðum og þá ekki síður að byggja upp samfélag fyrir afkomendur okkar sem jafnast á við það sem við fengum í arf.

Grundvöllur samfélaganna

Í upphafi sumars naut ég þess heiðurs að taka þátt í Hringferð Samtaka atvinnulífsins, í fyrsta sinn í hlutverki formanns samtakanna. Á þessu ferðalagi hugsa ég að við höfum hitt á fjórða hundrað forsvarsmenn og fulltrúa fyrirtækja vítt og breitt um landið, fólk sem hefur byggt upp og rekið fyrirtæki sem eru mikilvægar stoðir fyrir samfélögin. Á svona ferðalögum er það svo áþreifanlegt hversu mikilvægt atvinnulífið er fyrir samfélagið. Ef fyrirtækin blómstra þá blómstra samfélögin.

Hringferðin markaði upphaf starfsárs Samtaka atvinnulífsins sem helgað er útflutningsgreinunum. Sjávarútvegur, orkusækinn iðnaður, ferðaþjónusta og hugverkaiðnaður eru ekki aðeins grundvöllurinn að lífskjörum Íslendinga heldur eru þessar greinar ástæða þess að landið allt er í byggð. Því án fyrirtækjanna er engin atvinna og án atvinnu er ekki grundvöllur fyrir samfélagi.

Standa verður vörð um íslenska hagsmuni

Síðasta ár hafa stjórnendur íslenskra fyrirtækja tekist á við krefjandi aðstæður. Ófriður á alþjóðasviðinu, stríð í Úkraínu og tollastríð hafa haft mikil áhrif á íslensk útflutningsfyrirtæki. Ákvörðun Evrópusambandsins um að leggja verndartolla á innflutning á kísilmálmi frá Íslandi í trássi við EES-samninginn var mikið áfall og undirstrikar mikilvægi öflugrar hagsmunagæslu fyrir hönd landsins. Á síðasta ári urðum við vitni að áföllum í öllum okkar útflutningsgreinum. Allt hefur þetta mikil áhrif á samfélagið, ekki aðeins starfsfólk og eigendur, heldur samfélagið allt. Hlutverk stjórnvalda við þessar aðstæður er að standa vörð um íslenska hagsmuni og síðast en ekki síst búa til skilyrði til að íslensk fyrirtæki geti fjárfest, geti vaxið – þá vex hagur allra sem á Íslandi búa.

„Leiðréttingarnar“

Ég hef haft af því áhyggjur að skilningur á rekstri fyrirtækja hafi minnkað á síðustu árum. Að sú skoðun hafi orðið almennari að atvinnulífið sé óþrjótandi uppspretta sem sjálfsagt sé að sækja í til að rétta halla hins opinbera. Skattheimta á Íslandi er ein sú mesta sem þekkist en um það bil helmingur allra verðmæta sem verða til í íslensku samfélagi renna til hins opinbera í formi ýmiss konar skatta og gjalda. Sé ástæða til að leiðrétta eitthvað, eins og núverandi stjórnvöldum er tamt að tala um, þá ætti sú leiðrétting að fela í sér að atvinnulíf og almenningur héldu meira eftir af sjálfsaflafé sínu til að ráðstafa að eigin vild. Það er eðli atvinnulífsins að nýta arðinn í fjárfestingu í framtíðinni. Það eðli hefur skilað okkur Íslendingum í efstu sæti yfir lífskjör í heiminum síðustu árin. Hagnaður fyrirtækja skilar sér alltaf út í samfélagið í einni eða annarri mynd.

Það er ekki síst áhyggjuefni hvernig fólk í nágrenni við ríkisstjórnina hefur lagt umræðuna um „leiðréttingarnar“ upp. Hagnaður fyrirtækja er í mörgum tilfellum gerður tortryggilegur og fyrirtækin vænd um græðgi. Það er skammgóður vermir að etja fólki saman til að réttlæta umdeildar ákvarðanir. Við þekkjum það úr sögunni að það ristir sár í þjóðarsálina, sár sem er erfitt að græða.

Hækkun veiðigjalda, hækkun kolefnisgjalda, hækkun vörugjalda og á sama tíma aukning ríkisútgjalda eru aðgerðir sem munu koma illa niður á atvinnulífinu og munu draga þróttinn úr hagkerfinu, ekki síst þegar verðbólga og vextir herja á fyrirtækin. Við þessar aðstæður ætti ríkið að draga saman seglin, selja eignir og lækka álögur á fyrirtækin. Ákvarðanir stjórnvalda um hækkanir grafa undan stöðugleikasamningnum og gætu fellt hann þegar kemur til endurskoðunar nú í haust.

Við þessar aðstæður ætti ríkið að draga saman seglin, selja eignir og lækka álögur á fyrirtækin. Ákvarðanir stjórnvalda um hækkanir grafa undan stöðugleikasamningnum og gætu fellt hann þegar kemur til endurskoðunar nú í haust.

Sársaukanum hliðrað

Við sjáum í könnunum meðal stjórnenda fyrirtækja að bjartsýni er af skornum skammti. Á þetta ekki síst við um útflutningsfyrirtækin sem eru krafturinn sem knýr samfélagið. Þegar fólk horfir fram á erfiða tíma þá breytist takturinn í rekstrinum. Lægri tekjur og hærri skattar minnka þrótt fyrirtækja til að fjárfesta, hvort sem það er í nýjum tækjum, nýrri tækni eða nýju starfsfólki. Við sjáum nú þegar afleiðingarnar af hækkun veiðigjalda í formi minni fjárfestinga og fækkunar starfsfólks. Þegar ríkið þarf að stoppa í fjárlagagötin með illa ígrunduðum skattahækkunum þurfa stjórnendur fyrirtækjanna að taka sársaukafullar ákvarðanir. Það býr mikill kraftur í atvinnulífinu og mikil tækifæri eru innan seilingar ef við höldum rétt á málum. Nú þegar er töluverð uppsöfnuð fjárfestingaþörf í atvinnulífinu um allt land og mikilvægt að tryggðar verði forsendur til lækkunar vaxta. Verðbólga hefur reynst þrálát og ósjálfbær aukning ríkisútgjalda ógnar efnahagslegum stöðugleika sem getur haft alvarlegar afleiðingar á vinnumarkaði. Við þurfum að skapa þær forsendur að atvinnulífið vaxi og dafni, fyrirtækin haldi áfram að fjárfesta í rannsóknum, þróun og nýsköpun. Við þurfum einfaldlega að tryggja að hér ríki efnahagslegur stöðugleiki þar sem ríkissjóður er rekinn með afgangi og velferð okkar byggi á auknum hagvexti og framleiðni.

Fjárfest í framtíðinni

Ísland er í einstöku sóknarfæri á heimsvísu, við erum rík af auðlindum, hugviti og grænni orku. Við erum vel staðsett að teknu tilliti til alþjóðaviðskipta við öflugustu hagkerfi heimsins. Menning okkar styður við hvort tveggja jöfn tækifæri og framþróun. Á hundrað árum fórum við frá fátækt til forystu og við getum vel varðveitt þau lífsgæði, þá vinnu, sem fyrri kynslóðir lögðu á sig til að tryggja hagsæld og tækifæri íslensku þjóðarinnar. Tryggja að förinni til forystu verði haldið áfram.

Við hjá Samtökum atvinnulífsins erum ávallt tilbúin í vinnu með stjórnvöldum og fulltrúum launafólks til að vinna að því að bæta samfélagið okkar. Hagsmunir okkar fara saman. Ég tel mikilvægt að aðilar vinnumarkaðarins eigi samtal við stjórnvöld um að móta leiðina fram á við, leiðina til minni verðbólgu, lægri vaxta og aukins hagvaxtar og lífsgæða. Tækifærið til að skapa skilyrði þar sem útflutningsgreinarnar eru í forgrunni, fyrirtækin taka forystu og fjárfesta í framtíðinni.

Ég óska landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.

Jón Ólafur Halldórsson

Formaður Samtaka atvinnulífsins