Efnahagsmál - 

15. febrúar 2003

Huga verður að samkeppnishæfni

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Huga verður að samkeppnishæfni

Brýnast er að lækka og afnema skatta sem skekkja samkeppnishæfni gagnvart viðskiptalöndum eins og eignaskatta og stimpilgjöld, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið.

Brýnast er að lækka og afnema skatta sem skekkja samkeppnishæfni gagnvart viðskiptalöndum eins og eignaskatta og stimpilgjöld, segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Fréttablaðið.

"Hins vegar er neysluhvetjandi skattalækkun á tímabili einhverrar þenslu mjög slæm efnahagsaðgerð og ber að vara við því," segir Hannes. "Skattar eru tæki í efnahagspólitík stjórnvalda og það verður að nota þá sem slíka."

Hannes segir að frá sjónarhóli atvinnulífsins sé langmikilvægast að huga að hlutverki skatta með tilliti til sveiflujöfnunar í efnahagsstjórn. Forgangsraða verði skattalækkunum þannig að þeir skattar sem skekki samkeppnishæfnina séu efst á forgangslistanum. Hann segir að í þessu sambandi megi ekki gleyma ýmsum vörugjöldum sem séu algjörlega óþekkt alþjóðlega.

"Það er náttúrulega búið að taka áfanga í að afnema eignaskattinn en seinni áfanginn er eftir í því afnámi. Það er mjög brýnt að fjarlægja þennan skatt, sem er tímaskekkja og var í raun og veru ígildi fjármagnstekjuskatts." Auk þess að leggja niður eignaskatt segir Hannes að mjög brýnt sé að lækka stimpilgjöld á einstaklinga og fyrirtæki, því þau hafi hamlandi áhrif á viðskipti. Þá segir hann að tekjuskatturinn sé hár hérlendis miðað við ýmis nágrannalönd og virðisaukaskatturinn með því hæsta sem gerist. Það hamli m.a. vexti í ferðaþjónustu.

Samtök atvinnulífsins