Vinnumarkaður - 

19. maí 2008

Hringsjá skilar árangri

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hringsjá skilar árangri

Af þeim sem sótt hafa þriggja anna náms- og starfsendurhæfingu á vegum Hringsjár, starfsþjálfunar fatlaðra, höfðu 1,4% framfærslu af atvinnutekjum þegar þeir komu þangað, en um 10% þeirra hafa framfærslu af atvinnutekjum nú. Þetta er mikill og góður árangur. Fyrir náms- og endurhæfingu voru 86,6% hópsins sem lifðu eingöngu á örorku- og endurhæfingarlífeyri, en þeir eru nú tæp 48%. Fyrir námið í Hringsjá höfðu 2,8% hópsins framfæri af blöndu af örorkulífeyri og atvinnutekjum en eftir að hafa lokið náminu eru það 32,4%. Þetta kom fram á kynningardegi Hringsjár.

Af þeim sem sótt hafa þriggja anna náms- og starfsendurhæfingu á vegum Hringsjár, starfsþjálfunar fatlaðra, höfðu 1,4% framfærslu af atvinnutekjum þegar þeir komu þangað, en um 10% þeirra hafa framfærslu af atvinnutekjum nú. Þetta er mikill og góður árangur. Fyrir náms- og endurhæfingu voru 86,6% hópsins sem lifðu eingöngu á örorku- og endurhæfingarlífeyri, en þeir eru nú tæp 48%. Fyrir námið í Hringsjá höfðu 2,8% hópsins framfæri af blöndu af örorkulífeyri og atvinnutekjum en eftir að hafa lokið náminu eru það 32,4%. Þetta kom fram á kynningardegi Hringsjár.

Á kynningardeginum kynnti Guðrún Hannesdóttur rannsókn sína á því hverju starfsendurhæfing Hringsjár hefur skilað hvað varðar virka þátttöku öryrkja í samfélaginu, frekara nám og vinnu. Könnunin tók til 257 nemenda sem lokið höfðu að minnsta kosti tveimur önnum í Hringsjá frá 1988 og var svarhlutfall 57%. Stærstu hóparnir sem sækja náms- og starfsendurhæfingu til Hringsjár eiga við stoðkerfisvandamál, geðræna vanda eða gigt að stríða, en þar er einnig fólk sem býr við þverlömun, spastíska lömun, sjónskerðingu, útlimamissi, heilaskaða og ýmsa aðra sjúkdóma. Í hópi karla hafði tæpur þriðjungur lokið iðnskólaprófi, en rúmur þriðjungur skemmra námi en lokaprófi úr framhaldsskóla. Í hópi kvennanna höfðu átta af hverjum tíu lokið skemmra námi en framhaldsskólaprófi. Eftir útskrift úr Hringsjá hafa tveir þriðju hlutar nemendanna stundað eitthvað nám, helmingur hefur lokið einhverju námi og 18% til viðbótar voru í námi þegar könnunin var gerð, flestir þeirra voru að taka framhaldsskólaáfanga eða voru í námi til stúdentsprófs eða háskólanámi.

Alls hafa tveir þriðju hlutar hópsins stundað vinnu eftir að námi Hringsjá lauk. Þegar könnunin var gerð voru rúm 57% í vinnu þar af tæp 18% í fullu starfi og rúm 27% í hlutastarfi. Þegar Guðrún Hannesdóttir skoðaði virkni nú kom í ljós að 57% eru í vinnu, 18% í námi, rúm 4% eru í atvinnuleit og tæp 9% í virkri endurhæfingu. Sumir teljast tvisvar, en þegar búið er að leiðrétta fyrir því kemur í ljós að þrír af hverjum fjórum eru virkir. Almenn markmið með starfi Hringsjár er að nemendur öðlist færni til að finna og takast á við störf við hæfi á almennum vinnumarkaði, færni til að takast á við nám í almennum framhaldskólum, öðlist raunhæft sjálfsmat og aukið sjálfstraust, sjálfstæði og þor og þar með aukin lífsgæði. Flest af þessu verður ekki metið til fjár. Hins vegar freistaði Linda Skúladóttir forstöðumaður Hringsjár þess að skoða hver væri hagnaðurinn af hverjum einum á önn í Hringsjá sem fer á vinnumarkað fremur en örorkubætur. Niðurstaðan var að velferðarkerfið spari tæpar 38 milljónir króna, og til viðbótar skili skattgreiðslur þess sem fer að vinna milli 12 og 13 milljónum króna. Hagnaðurinn við hvern einn sé þannig rúmar 60 milljónir króna.

Í kjarasamningunum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands í febrúar síðastliðnum er kveðið á um nýjan endurhæfingar og sjúkrasjóð. Að baki lágu áhyggjur vegna gífurlegrar fjölgunar örorkulífeyrisþega. Sjóðurinn hefur það að markmiði að veita þjónustu og úrræði fyrir þá starfsmenn sem veikjast til lengri tíma og slasast þannig að vinnugeta skerðist. Markmiðið er að koma að málum eins snemma og kostur er til að stuðla að því að hver einstaklingur verði eins virkur á vinnumarkaði og vinnugeta hans leyfir. Frá og með 1. júní 2008 leggst sérstakt 0,13% launatengt gjald á atvinnurekendur, endurhæfingargjald, sem lífeyrissjóðir innheimta. Ríkissjóður mun leggja sjóðnum til sömu upphæð frá og með árinu 2009 og ríkisstjórnin beita sér fyrir nauðsynlegum skattalagabreytingum til að styðja við þetta starf. Miklu skiptir fyrir íslenskt samfélag að þessi áform komi til framkvæmda sem fyrst. Upplýsingarnar sem birtar voru á kynningardegi Hringsjár eru vitnisburður um til hvers er að vinna.

Samtök atvinnulífsins