Vinnumarkaður - 

02. Desember 2004

Hreyfing á vinnumarkaði (1)

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hreyfing á vinnumarkaði (1)

Þó nokkur fjölgun starfa virðist framundan á vinnumarkaði, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins á ráðningaráformum fyrirtækja sem gerð var í nóvember. 19% fyrirtækja hyggjast fjölga hjá sér starfsfólki næstu 3-4 mánuði en 7% hyggjast fækka því. Sem fyrr hyggjast þó langflest fyrirtæki halda óbreyttum fjölda starfsfólks, eða 74%. Þetta eru nánast sömu tölur og í sams konar könnun SA sem gerð var í júní sl., en þá hugðust 18% fjölga hjá sér fólki en 10% fækka því.

Þó nokkur fjölgun starfa virðist framundan á vinnumarkaði, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins á ráðningaráformum fyrirtækja sem gerð var í nóvember. 19% fyrirtækja hyggjast fjölga hjá sér starfsfólki næstu 3-4 mánuði en 7% hyggjast fækka því. Sem fyrr hyggjast þó langflest fyrirtæki halda óbreyttum fjölda starfsfólks, eða 74%. Þetta eru nánast sömu tölur og í sams konar könnun SA sem gerð var í júní sl., en þá hugðust 18% fjölga hjá sér fólki en 10% fækka því.

Fyrir um ári síðan (í desember sl.) hugðust hins vegar 15% fyrirtækja fjölga starfsfólki en 14% hugðust fækka því. Þetta er því veruleg breyting frá því fyrir ári síðan. Hins vegar bendir þessi könnun SA ekki til jafn mikilla fjölgunaráforma og nýleg könnun IMG Gallup sem gerð var fyrir fjármálaráðuneytið og Seðlabanka Íslands, en samkvæmt henni hyggjast 31% stærstu fyrirtækja landsins fjölga fólki á næstu sex mánuðum, á meðan 9% reikna með að fækka hjá sér fólki.

Takmarkaður hluti svarenda gaf upp tölur um fjölda starfsfólks sem fyrirtækin hyggjast fjölga eða fækka um og ekki er hægt að draga mjög sterkar ályktanir út frá þeim tölum. Þó eru það mun fleiri sem boða fjölgun starfsfólks um tíu eða fleiri,  heldur en hinir sem boða samsvarandi fækkun. Dæmi eru um að fyrirtæki boði jafnt fjölgun sem fækkun um yfir 50 manns.

Fækkun í útgerð
Áform um fjölgun starfsfólks eru áberandi algengust meðal rafverktaka (SART), en einnig virðist einhver fjölgun starfsfólks vera framundan í iðnaði (SI), fiskvinnslu (SF), ferðaþjónustu (SAF), verslun og þjónustu (SVÞ) og meðal fjármálafyrirtækja (SFF). Í útgerð (LÍÚ) virðist hins vegar lítils háttar fækkun starfsfólks framundan. Í júní sl. mældust einnig áform um fækkun starfsfólks í útgerð, sem og í verslun og þjónustu.

Meiri fjölgun á höfuðborgarsvæðinu
All nokkur munur er á svörum eftir starfssvæði fyrirtækja og virðist meiri fjölgun framundan á höfuðborgarsvæðinu og meðal fyrirtækja með starfssvæði á landinu öllu, heldur en meðal fyrirtækja með starfssvæði á landsbyggðinni, samanber eftirfarandi töflu.

Starfssvæði

Fjölga

Fækka

Höfuðborgarsvæðið

23%

7%

Landsbyggðin

14%

9%

Landið allt

20%

5%
Um könnunina
Könnunin var gerð í nóvember. Spurningar voru sendar til 847 aðildarfyrirtækja SA og svör bárust frá 465, eða 55%.

Samtök atvinnulífsins