Hreyfing á vinnumarkaði

Nokkur fjölgun starfa virðist framundan á vinnumarkaði, samkvæmt niðurstöðum könnunar Samtaka atvinnulífsins á ráðningaráformum fyrirtækja. 18% fyrirtækja hyggjast fjölga hjá sér starfsfólki næstu 3-4 mánuði en 10% hyggjast fækka því. Sem fyrr hyggjast þó langflest fyrirtæki halda óbreyttum fjölda starfsfólks, eða 72%. Þetta er þó nokkur breyting frá könnun SA í desember sl., en þá hugðust 15% fyrirtækja fjölga starfsfólki á meðan 14% hugðust fækka því. Þessi könnun mælir hins vegar minni fjölgun starfa en sumar aðrar nýlegar mælingar og spár. Sá munur var enn meiri þegar SA birtu niðurstöður könnunar sinnar sem gerð var í desember sl., en þróunin á vinnumarkaði hefur verið í fullu samræmi við þær niðurstöður.

Einungis hluti svarenda gaf upp tölur um þann fjölda starfs-fólks sem þau hygðust fjölga eða fækka um og ekki er hægt að draga mjög sterkar ályktanir út frá þeim tölum. Nokkur fyrirtæki boða hópuppsagnir (tíu manns eða fleiri), en önnur fyrirtæki boða verulega fjölgun starfsfólks og er nokkurt jafnvægi þar á milli.

Fjölgun í iðnaði og ferðaþjónustu
Mest fjölgun starfa virðist framundan í iðnaði (SI), ferða- þjónustu (SAF) og fiskvinnslu (SF), en minni hjá fjármála- fyrirtækjum (SFF) og rafverktökum (SART). Hins vegar virðist eilítil fækkun framundan í útgerð (LÍÚ) og í verslun og þjónustu (SVÞ). Að einhverju leyti mun þarna um árstíðabundnar sveiflur að ræða, a.m.k. í fiskvinnslu. Svipað gæti átt við um ferða-þjónustuna, en reyndar var tekið fram í könnuninni að lausráðningar væru ekki meðtaldar.

Ekki er mikill munur á svörum fyrirtækja eftir starfssvæði, utan að fyrirtæki með starfssvæði á landinu öllu virðast öðrum fremur hyggja á fjölgun starfsfólks. Ef svörin eru skoðuð eftir stærð fyrirtækja virðast það einkum verða fyrirtæki með 20 til 60 starfsmenn sem hyggjast fjölga starfsfólki, en einkum stærstu fyrirtækin - með fleiri en 200 starfsmenn - sem hyggjast fækka því.

Um könnunina
Könnunin var gerð í júní. Spurningar voru sendar til 828 aðildarfyrirtækja SA og svör bárust frá 437, eða 53%.