Vinnumarkaður - 

19. Oktober 2005

Hræðsla við erlent starfsfólk ástæðulaus

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hræðsla við erlent starfsfólk ástæðulaus

Rótgróinn ótti Evrópubúa við erlent starfsfólk er gerður að umtalsefni í tölublaði Newsweek International frá 17. október 2005. Þar kemur fram að við inngöngu tíu nýrra þjóða í ESB og EES þann 1.maí árið 2004, hafi nær öll ríki sem voru fyrir aðilar að EES ákveðið að takmarka frjálsa för starfsfólks frá þessum nýju ríkjum í allt að sjö ár, vegna hræðslu við að fólk frá þessum þjóðum gæti haft störf af fólki á EES svæðinu. Ísland ákvað að takmarka frjálsa för þessa fólks til 1. maí árið 2006, en aðeins þrjú ríki ákváðu að gera engar takmarkanir, Bretland, Írland og Svíþjóð.

Rótgróinn ótti Evrópubúa við erlent starfsfólk er gerður að umtalsefni í tölublaði Newsweek International frá 17. október 2005. Þar kemur fram að við inngöngu tíu nýrra þjóða í ESB og EES þann 1.maí árið 2004, hafi nær öll ríki sem voru fyrir aðilar að EES ákveðið að takmarka frjálsa för starfsfólks frá þessum nýju ríkjum í allt að sjö ár, vegna hræðslu við að fólk frá þessum þjóðum gæti haft störf af fólki á EES svæðinu. Ísland ákvað að takmarka frjálsa för þessa fólks til 1. maí árið 2006, en aðeins þrjú ríki ákváðu að gera engar takmarkanir, Bretland, Írland og Svíþjóð.

Jákvæð áhrif án takmarkana

Í ljósi þess að endurskoðun á ofangreindum takmörkunum nálgast brátt, ákvað Newsweek að skoða áhrif þeirra á evrópskan vinnumarkað. Skemmst er frá því að segja að þau lönd sem engar takmarkanir gerðu, nutu þess ríkulega, en þau lönd sem óttuðust krafta starfsfólks frá nýju löndum ESB, farnaðist ekki eins vel.

Frá 1. maí árið 2004 hefur t.d. fjöldi pólskra lækna í Bretlandi átjánfaldast og fjöldi tannlækna frá Tékklandi hefur áttfaldast. Á Bretlandi vantar nú starfsfólk í meira en 600 þúsund störf, en erlent starfsfólk frá hinum nýju aðildarlöndum ESB hefur aðeins náð að svara þessari miklu eftirspurn að hluta. Þrátt fyrir að þetta virðist vera háar tölur, er erlent starfsfólk einungis lítið brot af þeim 30 milljónum sem eru á vinnumarkaði í Bretlandi og hefur innkoma þessa fólks ekki haft áhrif á launaþróun í landinu.

Vel menntað fólk

Sá tími sem ódýrt og ófaglært starfsfólk streymdi til Evrópu er löngu liðinn segir Newsweek. Þeir starfsmenn sem nú koma frá hinum nýju aðildarríkjum ESB, uppfylla aðallega þörf fyrir faglært og vel menntað starfsfólk. Þannig er t.a.m. meira en helmingur nýrra innflytjenda til Írlands með háskólapróf. Þá sýnir reynslan að erlendir starfsmenn streyma ekki þangað þar sem ekki er fyrir þá þörf. Í Svíþjóð hefur erlendum starfsmönnum frá löndunum hinum megin við Eystrasaltið einungis fjölgað um nokkur þúsund, jafnvel þótt engar hömlur séu á för þeirra. Líklegasta skýringin er væntanlega sú að í Svíþjóð er 8% atvinnuleysi.

Örva efnahagslífið

Reynslan sýnir einnig að flestir hinna erlendu starfsmanna ætla sér ekki að setjast að í hinu nýja ríki og njóta þar ellilífeyris, heldur reyna þeir að safna saman fé í hinu erlenda ríki í stuttan tíma og halda síðan til baka til heimalands síns. Minna en 1% eða nánast enginn þessara erlendu starfsmanna fer á bætur í hinu nýja ríki. Þessir erlendu starfsmenn eru því ekki dragbítar á efnahagslífið, heldur þvert á móti örva þeir hagkerfið með auknum skatttekjum og neyslu.

Hræðsla við frjálsa för starfsfólks frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins var einnig uppi á borðum þegar Spánn og Portúgal gerðust aðilar að Evrópusambandinu. Slík hræðsla reyndist ástæðulaus þar sem aðildin færði þessum löndum aukna hagsæld sem aftur gerði flutning frá þessum löndum ekki eins eftirsóknarverðan og áður. Til hvers að fara frá landinu þegar í boði eru vel borguð störf heima fyrir? Í raun eru almennt einungis 2-3% íbúa í hverju landi tilbúin að flytja af landi brott.


Frakka vantar pípara en vilja ekki pólska pípara - hvað þá tyrkneska!

Þrátt fyrir  jákvæð efnahagsleg áhrif af vinnu erlends starfsfólks, eru ekki öll lönd Evrópu sem vilja nýta sér krafta þess. Hagkerfi sem er ósveigjanlegt getur ekki notið ávaxtanna af vinnuframlagi erlends starfsfólks. Þannig munu pólskir pípulagningarmenn ekki fara til Frakklands á meðan það tekur þá yfir 8 mánuði að fá viðurkennd réttindi sín og ganga frá nauðsynlegum pappírum. Á meðan svo er verður áfram skortur á pípulagningarmönnum í Frakklandi - lagnir þeirra munu halda áfram að leka.

Newsweek bendir á að pólsku pípararnir séu komnir til Evrópu án þess að heimar hafi hrunið, og spyr hvort ekki sé rétt að njóta krafta tyrkneskra pípara líka - en þar gætu fordómar og hræðsla Evrópubúa sett strik í reikninginn. Þrátt fyrir að aðildarviðræður Evrópusambandsins við Tyrkland séu hafnar eru enn margar hindranir á veginum fyrir fullri aðild Tyrklands að Evrópusambandinu. Að mati Newsweek er ein af þeim rótgróin hræðsla Evrópuþjóða við að starfsfólk frá Tyrklandi muni flæða yfir Evrópu og skaða þannig hagkerfi álfunnar. Sá ótti er ástæðulaus.

Grein Newsweek

Samtök atvinnulífsins