11. desember 2025

Horfurnar ekki verri frá heimsfaraldri 

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Horfurnar ekki verri frá heimsfaraldri 

Vísitala efnahagslífsins, sem endurspeglar mun á fjölda stjórnenda sem metur aðstæður góðar eða slæmar, hríðfellur frá síðustu könnun í september. Þetta er meðal þess sem kemur fram í reglubundinni könnun á stöðu og horfum í efnahagslífinu meðal stærstu fyrirtækja landsins. Könnunin var unnin á tímabilinu 11. nóvember til 3. desember af Gallup fyrir Seðlabanka Íslands og Samtök atvinnulífsins.

Hefur vísitalan aldrei mælst lægri fyrir utan árin eftir fjármálaáfallið og í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru 2020. Áfram eru útflutningsfyrirtækin neikvæðari en fyrirtæki sem starfa á innanlandsmarkaði. Um 3% útflutningsfyrirtækja telja aðstæður í efnahagslífinu frekar góðar á móti 62% sem telja þær frekar- eða mjög slæmar. Í miðju könnunartímabili voru stýrivextir lækkaðir um 0,25 prósentur, en þrátt fyrir það mælast horfurnar mjög slæmar.

Sé litið til aðstæðna eftir hálft ár fellur vísitalan minna milli mánaða, en hún hafði fallið verulega í síðustu könnun. Talsvert fleiri telja aðstæður eftir sex mánuði þar af leiðandi slæmar fremur en góðar. Í fyrsta skipti á árinu telja fleiri nú horfurnar eftir sex mánuði betri en horfurnar nú um mundir. Ólíkt niðurstöðum undanfarinna mánaða telja stjórnendur þvert á landið horfurnar slæmar. Þannig er lítill munur á sýn stjórnenda eftir staðsetningu fyrirtækis, hvort sem það er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Þá telja stærri fyrirtæki almennt stöðuna verri til framtíðar en stjórnendur smærri fyrirtækja, sem er ólíkt fyrri könnunum. Verstar eru horfurnar í sjávarútvegi þar sem 77% telja stöðuna verða verri eftir hálft ár, meðan enginn telur hana verða betri. Þá eru blikur á lofti í verslun, bygginga- og veitustarfsemi ásamt ferðaþjónustu, en mikill meirihluti fyrirtækja í þessum geirum telja stöðuna talsvert verri til framtíðar en hún er nú.

Enn minnkar skortur á starfsfólki

Samhliða minnkandi spennu í efnahagslífinu og dræmari horfum minnkar skortur á starfsfólki milli mánaða. Mældist hann um 20% í síðustu könnun en fellur nú niður í 10%. Líkt og með efnahagshorfurnar hefur skorturinn ekki verið minni frá því í heimsfaraldrinum.

Færri stjórnendur fyrirtækja telja að fjölga eigi starfsfólki á næsta hálfa árinu. Eftir viðvarandi spennu undanfarin ár telja fleiri stjórnendur að starfsfólki muni fækka næsta hálfa en fjölga. Stjórnendur á landsbyggðinni telja fremur að starfsfólki muni fækka en miðað við höfuðborgarsvæðið. Sömuleiðis telja stjórnendur fyrirtækja í útflutningi starfsfólki muni fækka talsvert meira en stjórnendur fyrirtækja á innlendum markaði.

Innlend eftirspurn fellur

Horfur hafa verið á sterkri eftirspurn undanfarin misseri, þrátt fyrir að efnahagshorfur hafi farið versnandi. Í nýjustu niðurstöðum verður þó stór breyting á og í fyrsta skipti síðan 2020 telja fleiri fyrirtæki að innlend eftirspurn muni minnka frekar en aukast næsta hálfa árið. Á móti telja stjórnendur erlenda eftirspurn áfram þokkalega sterka og eykst hún á milli kannana.

Aðstæður hafa breyst hratt

Aðstæður í efnahagslífinu hafa breyst nokkuð snarlega til hins verra eins og niðurstöður könnunarinnar bera glögglega með sér. Næsta vaxtaákvörðun Seðlabankans verður 4. febrúar og líklegt má telja að peningastefnunefnd horfi til þessara niðurstaðna samhliða öðrum gögnum sem berast þangað til.

Samtök atvinnulífsins