Efnahagsmál - 

10. október 2008

Horfum til framtíðar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Horfum til framtíðar

Starfsemi Samtaka atvinnulífsins hefur á undanförnum dögum snúist um að leita leiða til þess að koma atvinnulífinu og þjóðinni allri í gegnum þá gríðarlegu erfiðleika sem hafa verið að magnast dag frá degi. SA beittu sér fyrir stofnun sérstakrar aðgerðanefndar aðila vinnumarkaðarins sem hefur hist daglega og farið yfir stöðu mála og komið þeim í vinnslu eftir því sem við hefur átt.

Starfsemi Samtaka atvinnulífsins hefur á undanförnum dögum snúist um að leita leiða til þess að koma atvinnulífinu og þjóðinni allri í gegnum þá gríðarlegu erfiðleika sem hafa verið að magnast dag frá degi. SA beittu sér fyrir stofnun sérstakrar aðgerðanefndar aðila vinnumarkaðarins sem hefur hist daglega og farið yfir stöðu mála og komið þeim í vinnslu eftir því sem við hefur átt.

Nauðsynlegt er að nýta alla krafta samtakanna til þess að bregðast við núverandi vanda og horfa til framtíðar en geyma í bili að horfa aftur á bak og leita að sökudólgum. Helstu viðfangsefnin eru að koma gjaldeyrisviðskiptum í samt lag og ná fram hækkun gengis krónunnar og meiri stöðugleika. Lækka verður vexti verulega í því skyni að afstýra verðhruni eigna með tilheyrandi framleiðslutapi og fjöldaatvinnuleysi. Endurreisa verður fjármálaþjónustuna þannig að fyrirtæki og heimili geti farið að starfa og stunda eðlileg viðskipti.

Aðkoma Alþjóða gjaldeyrissjóðsins að erfiðleikum Íslands er orðin afar brýn. Sjóðurinn hefur það sem aðalhlutverk að veita ríkjum aðstoð við skilyrði sem þessi. Meginverkefni sjóðsins yrði að ná saman nægilega öflugum gjaldeyrisvarasjóði til þess að leysa gjaldeyriskreppuna þannig að  gengi krónunnar geti hækkað á nýjan leik. Enn fremur yrði sjóðurinn til leiðbeiningar við endurreisn fjármálakerfisins. Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kemur að málum með samningum við ríkisstjórn Íslands og að frumkvæði hennar.

Mörg atriði brenna á íslenskum fyrirtækjum og starfsfólki þeirra. Í aðgerðanefndinni er reynt að ráða fram úr því sem upp kemur. Mikilvægt er að fyrirtæki láti atvinnulífssamtökin vita af þeim vandamálum sem upp koma þannig að hægt sé að bregðast sem allra hraðast við. Hjól atvinnulífsins verða að snúast, það má ekki koma til lokunar fyrirtækja vegna þessara aðstæðna og óþarfa rýrnunar á verðmætasköpun.

Á tímum sem þessum verður að gæta þess vandlega að hætta ekki að treysta fólki þrátt fyrir að allar forsendur bresti og fátt standi eftir af því sem sagt hefur verið eða gert. Það eru allir á sama báti og saman munum við komast út úr erfiðleikunum. Hvað fjármálakerfið varðar hafa þessi mál snúist alveg við frá því sem við höfum átt að venjast. Við höfum oft upplifað það að skuldunautar fjármálafyrirtækja hafa ekki getað staðið í skilum af margvíslegum og oft óviðráðanlegum ástæðum og þurft að ávinna sér traust á nýjan leik eftir afskriftir og verðmætatap.

Nú er staðan sú að fé hefur tapast hjá þeim sem tóku að sér að ávaxta það í fjármálafyrirtækjunum og annars staðar í atvinnulífinu. Þetta fé hefur líka í mjög mörgum tilvikum tapast vegna aðstæðna sem ekki voru á valdi þeirra einstaklinga sem með það fóru. Því er mikilvægt að skilja að við þurfum áfram hvert á öðru að halda og allir geta lagt sitt af mörkum og við verðum að gefa svigrúm til þess að byggja upp innbyrðis traust á nýjan leik.

Á tímum sem þessum er líka rétt að hafa í huga að öll fyrirtæki og stofnanir og jafnvel öll ríki hafa í gegnum söguna verið forgengileg þrátt fyrir að okkur fyndist mikið koma til veldis þeirra. Ein stofnun, kaþólska kirkjan, hefur samt lifað allt af frá því hún var stofnuð fyrir um 2000 árum. Eitthvað hefur hún hlotið að gera rétt í  aldanna rás þrátt fyrir mistök og erfiðleika. En það sem hefur kannski skipt mestu máli er að málstaður hennar hefur verið góður og að nægilega margt fólk hefur verið tilbúið til að setja  málstað hennar ofar eigin hagsmunum.

Þetta er sá lærdómur sem við þurfum öll að tileinka okkur til þess að komast sem fyrst út úr erfiðleikunum. Málstaður okkar Íslendinga er góður og framtíð okkar sem þjóðar er björt. Við verðum öll að láta þennan málstað ganga fyrir. Með það að leiðarljósi verður verkefni okkar léttara og líklegra til þess að skila okkur þeim árangri sem metnaður okkar stendur til.   

Vilhjálmur Egilsson

Samtök atvinnulífsins