Efnahagsmál - 

19. Maí 2009

Horft til framtíðar á fjármálamarkaði

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Horft til framtíðar á fjármálamarkaði

Ársrit Samtaka fjármálafyrirtækja 2009 er komið út. Yfirskrift þess er Horft til framtíðar en þar er að finna yfirgripsmikið yfirlit yfir þróun á fjármálamörkuðum og framtíðarhorfur. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF, segir m.a. í formála að framtíð íslenska hagkerfisins velti að miklu leyti á því að vel takist til við að endurreisa fjármálakerfið. Öflug fjármálafyrirtæki séu forsenda sterks atvinnulífs. Til skemmri tíma sé mjög brýnt að ná stýrivöxtum verulega niður og skapa aðstæður til að afnema gjaldeyrishöft.

Ársrit Samtaka fjármálafyrirtækja 2009 er komið út. Yfirskrift þess er Horft til framtíðar en þar er að finna yfirgripsmikið yfirlit yfir þróun á fjármálamörkuðum og framtíðarhorfur. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri SFF, segir m.a. í formála að framtíð íslenska hagkerfisins velti að miklu leyti á því að vel takist til við að endurreisa fjármálakerfið. Öflug fjármálafyrirtæki séu forsenda sterks atvinnulífs. Til skemmri tíma sé mjög brýnt að ná stýrivöxtum verulega niður og skapa aðstæður til að afnema gjaldeyrishöft.

Ritið kom út á SFF-deginum: Það má nálgast hér af vef SFF

Nánari umfjöllun um SFF-daginn: Á vef SFF

Formáli Guðjóns í heild sinni er hér að neðan:

Horft til framtíðar

Liðið starfsár hefur verið örlagaríkt fyrir íslenskan fjármálamarkað og samfélag. Eftir langvarandi lausafjárkreppu á alþjóðlegum mörkuðum féllu allir stærstu bankar landsins á einni viku í haust og þrjú fjármálafyrirtæki til viðbótar fylgdu í kjölfarið á vormánuðum. Í kjölfar bankahrunsins gengu stjórnvöld til samstarfs við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurreisn íslenska hagkerfisins og sett voru á gjaldeyrishöft til að stöðva fjármagnsflótta úr landinu. Stjórnvöld settu á stofn þrjá nýja banka sem tóku við innlendum eignum og skuldum gömlu bankanna. Miðað við áætlanir um stærð nýju bankanna má gera ráð fyrir að heildarumfang fjármálageirans verði innan við fimmtungur af því sem var fyrir bankahrun.

Ein allra mikilvægasta aðgerðin í tengslum við bankahrunið fólst í að tryggja að greiðslukerfi virkuðu og viðskiptavinir banka og sparisjóða gætu notað greiðslukortin sín, netbankann og þjónustu útibúa vandkvæðalaust. Seðlabankinn, í samstarfi við Fjármálaeftirlitið og sérhæft starfsfólk fjármálafyrirtækjanna, lyfti grettistaki í þessum efnum. Þá hefur viðskiptum við útlönd verið komið í betra horf og mikilvæg skref hafa verið stigin til að mæta greiðsluerfiðleikum heimilanna. Verið er að vinna að úrlausn skuldavanda fyrirtækja og efnahagsreikningar nýju bankanna í sjónmáli. Bankar sem stóðu af sér ágjöf hrunsins hafa nýtt tækifærið til frekari vaxtar.

Öflug fjármálafyrirtæki skapa mörg eftirsóknarverð störf og eru forsenda sterks atvinnulífs. Ljóst er að framtíð íslenska hagkerfisins veltur að miklu leyti á að vel takist til við að endurreisa fjármálakerfið og vinna á ný traust þannig að íslensk fjármálafyrirtæki geti fjármagnað sig á alþjóðafjármálamörkuðum.

Gagnrýnin umræða um það sem aflaga fór er mikilvæg en hún má ekki verða til þess að hefta fjármálafyrirtækin í að sinna sínu eðlilega hlutverki, sem drifkraftur heilbrigðs efnahagslífs. Gagnsæi í störfum fjármálafyrirtækja er mikilvægt, án þess þó að rutt sé úr vegi eðlilegum trúnaði um málefni viðskiptamanna. Þá skiptir miklu að hið almenna starfsumhverfi hér á landi verði þannig að þau ómældu verðmæti sem felast í vel menntuðu starfsfólki fjármálafyrirtækjanna nýtist áfram íslensku samfélagi.

Í ítarlegri úttekt finnska sérfræðingsins Kaarlo Jännäri á orsökum bankahrunsins bendir hann á séríslenska þætti sem draga úr áhuga erlendra banka á að hefja starfsemi hér á landi. Nefnir hann m.a. verðtrygginguna, smæð gjaldmiðilsins, hlutverk Íbúðalánasjóðs á húsnæðislánamarkaði og sveiflukennt hagkerfi. Jafnframt er rakið hvaða breytingar er brýnt að gera á reglu- og eftirlitsumgjörð íslensks fjármálamarkaðar.

Þegar horft er til framtíðar er mikilvægt fyrir fjármálafyrirtækin að Ísland verði hluti af stærra myntsvæði. Til skemmri tíma litið er hins vegar mjög brýnt að ná stýrivöxtum verulega niður og skapa forsendur til að getað afnumið gjaldeyrishöft. SFF og aðildarfélög samtakanna, ásamt atvinnulífinu í landinu, þurfa að styðja Seðlabankann af heilum hug í því stóra verkefni.

Guðjón Rúnarsson

Samtök atvinnulífsins