Hópar Kjararáðs hafa setið eftir á vinnumarkaði

Nýlegir úrskurðir Kjararáðs um kjör ráðuneytisstjóra og ýmissa yfirmanna opinberra stofnana hafa valdið miklum óróa á vinnumarkaði. Fjölmargir leiðtogar verkalýðshreyfingarinnar hafa lýst því yfir að þeir grafi undan sátt á vinnumarkaði og gangi þvert á SALEK samkomulagið frá því í október á síðasta ári. Forseti ASÍ hefur gengið svo langt að segja að allt fari í „bál og brand“ nema þing verði kallað saman til að ógilda ofangreinda úrskurði.

Endalausar deilur
Úrskurðir Kjararáðs og Kjaradóms þar á undan um kjör þeirra opinberu starfsmanna sem taka laun samkvæmt úrskurði ráðsins hafa ávallt verið þrætuepli á vinnumarkaði. Það virðist fremur regla en undantekning að úrskurðum ráðsins sé mætt með háværum mótmælum af hálfu verkalýðshreyfingarinnar. Af því mætti ætla að þessi hópur njóti launahækkana langt umfram almenna launaþróun. Sú er þó ekki raunin ef launaþróun þessa hóps er borin saman við launaþróun starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði.

Mun lakari launaþróun
Samkvæmt skýrslu þeirra heildarsamtaka sem standa að SALEK samkomulaginu hefur launaþróun helstu hópa á vinnumarkaði frá nóvember 2006 til nóvember 2015 verið mjög sambærileg. Hóparnir hafa notið rétt tæplega 80% launahækkana á tímabilinu. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er launaþróun þeirra hópa sem taka laun samkvæmt úrskurði Kjararáðs hins vegar öllu lakari. Þannig hafa alþingismenn hækkað um 41,5% á sama tímabili, ráðherrar um 39,3% og ráðuneytisstjórar um 35,9%. Með öðrum orðum hefur þessi hópur dregist aftur úr viðmiðunarhópum SALEK samkomulagsins sem nemur um 21-24% á þessu tímabili.

Mikilvægt er að hafa í huga að hlutverk Kjararáðs er skýrt í þessum efnum en í 8. grein laga um Kjararáð segir:

„Við úrlausn mála skal kjararáð gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra skv. 3. gr. Við ákvörðun launakjara skv. 4. gr. skal kjararáð sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs skv. 3. gr. hins vegar. Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Rétt er að horfa sérstaklega á niðurlag 1. mgr. 8. gr. en þar er Kjararáði sérstaklega uppálagt að gæta samræmis milli kjara sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana Kjararáðs hins vegar. Í þeim samanburði er rétt að halda til haga að kjarasamningsbundin kjör starfsmanna hjá ríkinu hafa hækkað um 78,3% frá nóvember 2006 til nóvember 2015 á sama tíma og laun samkvæmt úrskurðum Kjararáðs hafa hækkað um í kringum 40%.

Einnig má nefna að stjórnendur á almennum vinnumarkaði, annar hópur sem gjarnan er rót mikils óróleika innan verkalýðshreyfingarinnar, hafa á þessu tímabili hækkað um 58%. Nokkru meira en þeir hópar sem undir Kjararáð heyra, en um 11% minna en helstu viðmiðunarhópar SALEK samkomulagsins.

Sé launaþróun ráðuneytisstjóra eftir síðasta úrskurð Kjararáðs borin saman við launavísitölu frá nóvember 2006 sést að á sama tíma og launavísitala hefur hækkað um 90% hafa ráðuneytisstjórar hækkað um 61% að meðtalinni þeirri viðbót sem Kjararáð úrskurðaði í fastar yfirvinnugreiðslur.

undefined

Þá er einnig vert að hafa í huga að þær ákvarðanir Kjararáðs sem nú valda hvað mestu uppnámi er endurskoðun kjara einstakra embættismanna vegna breytinga á starfsskyldum þeirra eða álagi. Um slíkt er reglulega samið bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði enda ekkert athugavert við það að starfsfólki sé umbunað fyrir aukna ábyrgð og aukið vinnuálag. Slíkir samningar eru almennum kjarasamningum óviðkomandi og því ættu ákvarðanir Kjararáðs hvað slíka þætti varðar ekki að hafa nein áhrif á gildi almennra kjarasamninga fremur en sambærilegar ákvarðanir á almennum eða opinberum vinnumarkaði.

Endurskoðunar þörf
Þrátt fyrir það sem sagt hefur verið hér að framan er ljóst að taka verður þetta fyrirkomulag til gagngerrar endurskoðunar. Úrskurðir Kjararáðs hafa ekki haldið í við almenna launaþróun, þrátt fyrir skýr ákvæði laganna þar að lútandi. Slíkt kallar á leiðréttingar á borð við þær sem við erum að sjá núna, sem ávallt virðast valda uppnámi á vinnumarkaði óháð því hver launaþróun þessa hóps hefur verið í víðara samhengi.

Rétt er að hafa í huga að launaþróun á vinnumarkaði, bæði þeim almenna og þeim opinbera, ræðst ekki einvörðungu af kjarasamningsbundnum hækkunum heldur ekki síður af einstaklingsbundnum hækkunum vegna ábyrgðar, frammistöðu, starfsaldri, menntun og svo mætti áfram telja. Þessar hækkanir eru í daglegu tali nefndar launaskrið. Reynslan sýnir okkur að almennar launahækkanir skýra aðeins u.þ.b. 60% af launamyndun á vinnumarkaði. Það sem út af stendur er þá launaskrið. Ákvarðanir Kjararáðs verða ekki síður að taka tillit til þessarar launaþróunar en almennra hækkana.

Ekki ávísun á frekari hækkanir
Í ljósi þessa verður ekki með nokkrum hætti séð hvernig nýgengnir úrskurðir Kjararáðs eigi að stefna nýgerðu SALEK samkomulagi í uppnám. Samkomulagið snýst í hnotskurn um að binda enda á það höfrungahlaup sem hafið var á vinnumarkaði og tryggja þeim hópum sem að því stóðu sambærilega launaþróun til ársloka 2018. Myndin hér að ofan sýnir glögglega að sá hópur sem Kjararáð úrskurðar um er vel innan þessara marka og hefur raunar, þrátt fyrir síðustu úrskurði ráðsins, notið minni launahækkana en allir samanburðarhópar. Ekki verður því séð með hvaða hætti verkalýðshreyfingin ætlar að nýta þá þróun sem rökstuðning fyrir viðbótarhækknum til hópa sem þegar hafa notið mun meiri launahækkana en Kjararáð hefur úrskurðað til þessa.