Efnahagsmál - 

02. Ágúst 2001

Hömlulaust eftirlit og gjaldtaka

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hömlulaust eftirlit og gjaldtaka

Gjaldtaka án lagaheimildar á heilsugæslustöðvum, löggjöf um nýtt opinbert eftirlit afgreidd í trássi við samnefnd lög, gríðarlegur verðmunur á tóbakssöluleyfum milli sveitarfélaga. Allt eru þetta fréttir úr þessu tölublaði fréttabréfs SA. Í fréttabréfi SA í júní sl. var m.a. fjallað um innheimtu RÚV á sérstökum útvarpsgjöldum vegna fyrirtækjabíla, en þar er á ferðinni innheimta án lagastoðar. Í síðast talda málinu hafa SA einbeitt sér að mismunum milli fyrirtækjabíla og einkabíla en í raun blasir við að innheimta "afnotagjalds" í heild, mætir í dag hvergi nærri þeim lagakröfum sem gera verður til skattheimtu.

Gjaldtaka án lagaheimildar á heilsugæslustöðvum, löggjöf um nýtt opinbert eftirlit afgreidd í trássi við samnefnd lög, gríðarlegur verðmunur á tóbakssöluleyfum milli sveitarfélaga. Allt eru þetta fréttir úr þessu tölublaði fréttabréfs SA. Í fréttabréfi SA í júní sl. var m.a. fjallað um innheimtu RÚV á sérstökum útvarpsgjöldum vegna fyrirtækjabíla, en þar er á ferðinni innheimta án lagastoðar. Í síðast talda málinu hafa SA einbeitt sér að mismunum milli fyrirtækjabíla og einkabíla en í raun blasir við að innheimta "afnotagjalds" í heild, mætir í dag hvergi nærri þeim lagakröfum sem gera verður til skattheimtu.

Atvinnulífið á kröfu til þess að löggjafinn leggi jafnan mat á áhrif lagafrumvarpa á atvinnulífið, m.a. með það að leiðarljósi að sporna gegn tilgangslausu og kostnaðarsömu opinberu eftirliti. Það er einmitt markmið laganna um opinberar eftirlitsreglur sem því miður virðist a.m.k. ekki alltaf vera farið eftir.

Það hlýtur jafnframt að teljast eðlileg krafa að innheimta opinberra aðila eigi sér skýlausa lagastoð. Allt annað er óviðunandi. Þegar stærsta sveitarfélag landsins hyggst innheimta allt að þrefalt hærra gjald fyrir enn eitt leyfið hlýtur að vera eðlileg krafa að skýringar fylgi á svo miklum mun, að ógleymdri kröfunni um gildan rökstuðning fyrir gjalddtökunni yfirleitt sem snýr að öllum sveitarfélögum.

Í skýrslu skattahóps SA frá því í maí sl. er að finna ítarlega úttekt á ýmsum óbeinum sköttum og smærri gjöldum sem lögð eru á rekstraraðila eða innheimt af vissum starfsstéttum og renna í ríkissjóð eða til stofnana ríkisins. Alls er þar að finna 73 mismunandi gjöld, en listinn er eflaust ekki tæmandi. Þá tekur hann ekki til gjalda sem innheimt eru af sveitarfélögum.

Atvinnulífið þarfnast ekki enn meiri aragrúa af opinberum gjöldum og skriffinsku. Mun nærtækara væri að grisja eitthvað af þeim gríðarlega fjölda smærri gjalda og óbeinna skatta sem atvinnulífið þarf nú þegar að greiða, og einfalda og sameina ýmsar leyfisveitingar. Vafalaust er að gegnsærra fyrirkomulag á gjaldtöku er líka til þess fallið að skapa aðhald um meðferð fjárins.

Í skattamálum almennt er þó mikilvægast af öllu að stjórnvöld haldi sínu striki og láti fyrirætlanir um skattalækkanir fyrirtækja verða að veruleika strax í haust.

Samtök atvinnulífsins