Menntamál - 

14. febrúar 2019

Höldur og Friðheimar hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2019

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Höldur og Friðheimar hljóta Menntaverðlaun atvinnulífsins 2019

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála. Höldur á Akureyri er Menntafyrirtæki ársins og Friðheimar í Bláskógabyggð er Menntasproti ársins.

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála. Höldur á Akureyri er Menntafyrirtæki ársins og Friðheimar í Bláskógabyggð er Menntasproti ársins.

Mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, afhenti verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu. Meðal þeirra sem ávörpuðu gesti var forseti Íslands sem óskaði verðlaunahöfunum innilega til hamingju.

Menntafyrirtæki ársins 2019

Höldur er öflugt og rótgróið ferðaþjónustufyrirtæki sem starfar um land allt. Höldur rekur Bílaleigu Akureyrar sem er stærsta bílaleiga landsins með tuttugu og þrjú útibú. Flotinn telur um 4.500 bíla og fyrirtækið er einn stærsti bílakaupandi landsins auk þess að veita fjölbreytta þjónustu. Um 240 starfsmenn eru hjá Höldi allt árið og á fjórða hundrað þegar mest er að gera yfir sumartímann. Störfin eru af ýmsum toga en fræðsla og markviss þjálfun er lykillinn að góðum rekstri.

Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, tók við verðlaununum og sagði þau mikla hvatningu og að hann tæki við þeim af þakklæti og stolti fyrir hönd starfsfólks Hölds.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Þórdís Bjarnadóttir, bókanastjóri og fyrsti skólastjóri Mannauðsskóla Hölds, Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds, Geir Kristinn Aðalsteinsson, mannauðsstjóri Hölds, Sigrún Árnadóttir verkefnastjóri hjá Höldi og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

„Við hjá Höldi lítum á að það sé fjárfesting til framtíðar að mennta og styðja starfsfólk okkar til náms og gera það þannig hæfara til að sinna sínu, bæði í leik og starfi. Það styrkir viðkomandi einstaklinga og eykur almenna ánægju sem skilar sér í betri þjónustu til viðskiptavina okkar,“ sagði Steingrímur og bætti við.

„Án virks mannauðs eru fyrirtækin lítið annað en innantóm orð, í raun bara umbúðir og það er okkar, stjórnendanna að búa svo um hnútana að innihaldið geti vaxið og dafnað, öllum til hagsbóta.“

Sjáðu svipmynd af Höldi:

Menntasproti ársins 2019

Friðheimar er blómlegt fjölskyldufyrirtæki í Bláskógabyggð á Suðurlandi. Árið 1995 keyptu ung hjón úr Reykjavík, Knútur Ármann og Helena Hermundardóttir, yfirgefna gróðrarstöð þar sem þau hafa látið drauma sína rætast og upplifað ævintýri sem þau sáu ekki fyrir. Fyrir 10 árum síðan opnuðu þau Friðheima fyrir ferðamönnum og á síðasta ári heimsóttu þau um 180 þúsund gestir. Ferðaþjónusta er veigamesti þátturinn í rekstri Friðheima í dag ásamt framleiðslu tómata, hrossarækt og fræðslu um íslenska hestinn og ylrækt á Íslandi. Friðheimar eru opnir allt árið. Heilsársstörf eru um 50 og 10 starfsmenn bætast við yfir sumarið.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Rakel Theodórsdóttir, markaðs-og gæðastjóri Friðheima, Janis Schwenke veitinga-og móttökustjóri Friðheima, Helena Hermundardóttir og Knútur Ármanna eigendur Friðheima og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Knútur tók við verðlaunum og sagði við það tilefni að það væri bæði mikill heiður og ánægja að taka við þeim. Hann sagði tækifærin í ferðaþjónustu vera mikil út um allt land.

„Að flétta saman landbúnað og ferðaþjónustu sem margir hafa áhuga á en það er hægt að gera það á svo margvíslega vegu. Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan. Það er að hægja á fjölgun ferðamanna og þá gefst tími til að anda. Byggja innviði enn frekar upp, bæta þekkingu, kennslu og fræðslu í ferðaþjónustu. Eftir fáein ár höfum við aukið gæði innan greinarinnar enn frekar og verðum með áhugaverðari stað til að heimsækja, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn.“  

Hjá Friðheimum hefur verið unnið markvisst að þvi að efla fræðslu og menntun starfsmanna. Fræðslustarfið er vel skipulagt. Í samstarfi við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Fræðslunetið – símenntun á Suðurlandi - var búin til tveggja ára áætlun þar sem markmiðin voru að bæta gæði þjónustu, auka framlegð og ánægju starfsmanna.

Sjáðu svipmynd af Friðheimum:

Menntadagurinn er árlegur viðburður en að þessu sinni var fjallað um læsi í ýmsum myndum. Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu. Rúmlega 300 manns úr atvinnulífinu og skólasamfélaginu tóku þátt í deginum. Takk fyrir komuna og sjáumst að ári! 

Tengt efni:

Menntadagur atvinnulífsins 2019 - upptökur

Samtök atvinnulífsins