Efnahagsmál - 

18. september 2013

Hóflegar launahækkanir, lág verðbólga og stöðugt gengi haldast í hendur

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hóflegar launahækkanir, lág verðbólga og stöðugt gengi haldast í hendur

Hver prósenta verðbólgunnar leggur 20 milljarða króna byrði á heimilin í formi vaxta og verðbóta en 1% kauphækkun skilar almenningi 5 milljörðum króna í launaumslögin á ári eftir greiðslu tekjuskatts. Ávinningur heimilanna af 1% hjöðnun verðbólgu er því að minnsta kosti fjórfalt meiri en af 1% launahækkun.

Hver prósenta verðbólgunnar leggur 20 milljarða króna byrði á heimilin í formi vaxta og verðbóta en 1% kauphækkun skilar almenningi 5 milljörðum króna í launaumslögin á ári eftir greiðslu tekjuskatts. Ávinningur heimilanna af 1% hjöðnun verðbólgu er því að minnsta kosti fjórfalt meiri en af 1% launahækkun.

Í grein sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands birti á vef Pressunnar sýnir hann mynd þar sem skýrt kemur fram að á Íslandi hafa laun hækkað meira, verðbólga verið meiri og verðgildi krónunnar rýrnað meira en í samanburðarlöndum.

Samtök atvinnulífsins eru fullkomlega sammála ASÍ um að stjórnvöld verði að ná tökum á gengissveiflum og leggja grunn að stöðugleika til lengri tíma. Stöðugt gengi krónunnar leggur grunn að verðstöðugleika og eykur líkur á því að þær launahækkanir sem um er samið skili sér í auknum kaupmætti launafólks og heimila í landinu. SA eru líka sammála ASÍ um að ljúka beri aðildarviðræðum við Evrópusambandið og bera aðildarsamning undir atkvæði þjóðarinnar.

Leiðin til þess að tryggja stöðugleika er að stjórnvöld og aðilar á vinnumarkaði vinni þétt saman, hafi sameiginlega sýn og markmið sem að er stefnt í efnahagsmálum. Það er mikilvægara en að eltast við verðbólgu liðins tíma með kauphækkunum sem ekki eiga sér efnahagslegar forsendur.  Sama á við um þá sem hækka gjaldskrár eða verð vöru og þjónustu til að ná inn síðustu verðbólgutölum eða gengislækkun.

Í kjarasamningunum 2011 var m.a. byggt á ákveðnum forsendum um hagvöxt, fjárfestingar, gengisþróun, verðbólgu og lækkun tryggingagjalds.  Þær forsendur gengu ekki eftir eins og kunnugt er heldur fylgdi í kjölfar samninganna vaxandi verðbólga, minni hagvöxtur og lægra atvinnustig en ella. Á þetta samhengi sýndi aðalhagfræðingur Seðlabankans nýlega fram á í erindi hjá Samiðn - sambandi iðnfélaga. Háir og hækkandi vextir Seðlabankans frá miðju ári 2011 spornuðu einnig gegn markmiðum samninganna um auknar fjárfestingar og hagvöxt.

Samtök atvinnulífsins hyggjast ekki endurtaka þá aðferð sem samningarnir 2011 byggðu á sem var að ráðstafa svigrúmi sem ekki var til en átti að skapa á samningstímanum með ýmsum aðgerðum stjórnvalda. Í stað þess verði kjarasamningar byggðir á raunverulegri stöðu þjóðarbúskaparins. SA vilja að samið verði 12-18 mánaða og að sá tími verði nýttur til að skýra efnahagsstefnu stjórnvalda til lengri tíma, eyða ýmissi óvissu og mynda víðtæka samstöðu um markmið. Undir lok árs 2014 verði unnt að horfa til lengri tíma og gera kjarasamninga sem samrýmist verðstöðugleika og stöðugu gengi krónunnar. Þannig geta vextir lækkað, fjárfestingar aukist og þar með hagvöxtur. Það er besta leiðin til að stuðla að viðvarandi aukinni atvinnu og kaupmætti heimilanna.

   

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Greinin birtist á Pressunni 17. september.

Samtök atvinnulífsins