Hóflegar launahækkanir eru almannagæði

Steinar Holden, prófessor við Oslóarháskóla var fenginn til þess af heildarsamtökum á vinnumarkaði að semja tillögur að nýju ferli við gerð kjarasamninga hér á landi. Hann skilaði nýlega bráðabirgðaskýrslu þar sem hann fjallar um reynsluna af núverandi ferli og hvaða úrbætur geti komið til greina.

Almenn varnaðarorð Steinars eiga brýnt erindi til Íslendinga. Íslendingar hafa ekki dregið lærdóm af dýrkeyptri og síendurtekinni reynslu af ýktum hagsveiflum þar sem á skiptast ofþensluskeið og langvarandi kreppur með viðeigandi umbótum. Að mati Steinars geta launahækkanir sem ekki samrýmast verðbólgumarkmiði Seðlabankans og meðfylgjandi of hröð kaupmáttaraukning leitt til harkalegrar niðursveiflu. Af þeirri ástæðu sé afar brýnt að koma í veg fyrir of miklar launahækkanir.

Hætta á harkalegri niðursveiflu
Steinar bendir á að miklar launahækkanir leiði til þess að verð innlendrar vöru hækki og til þess að það brjótist ekki út í aukinni verðbólgu þurfi gengi krónunnar að styrkjast. Afleiðingin verði skert samkeppnisstaða íslenskrar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Hætta sé á ofþenslu og aukinni skuldsetningu heimila. Á endanum eigi sér stað leiðrétting á ósjálfbæru ástandi með gengisfalli og kaupmáttarrýrnun almennings, þ.e. harkalegri niðursveiflu.

Hann bendir á að rannsóknir og gögn víðs vegar að styðji að hóflegar launahækkanir leiði af sér betri samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði beint og óbeint, með lægri vöxtum og veikara gengi. Þetta tryggi aukna atvinnuþátttöku og minna atvinnuleysi.

Hér á landi eru stéttarfélögin, sem fara með réttinn til gerðar kjarasamninga, gjarnan smá, oft svæðisbundin og ná til tiltölulega fárra starfsgreina. Þessu er öfugt farið á öðrum Norðurlöndum þar sem stéttarfélögin, sem fara með samningsréttinn, eru hlutfallslega mun færri, ná til alls landsins og hafa félagsmenn úr fjölmörgum starfsgreinum. Að mati Steinars valda þessar aðstæður því að íslensku stéttarfélögin hafi sterka samningsstöðu sem, ásamt forgangsréttarákvæði til starfa fyrir félagsmenn, leiði til mikils þrýstings á launahækkanir. Traust á milli helstu aðila á vinnumarkaði skorti og birtist í höfrungahlaupi þar sem sá sem síðast semur beri yfirleitt mest úr býtum.

Nýtt líkan getur borið ríkulegan ávöxt
Nýtt samningslíkan fyrir Ísland getur borið ríkulegan ávöxt og það ætti að vera nægilegur hvati til þess að stuðla að breytingum, en afleiðingar þess að gera engar breytingar á skipulagi kjarasamninga verða að líkindum þær að Ísland situr áfram fast í þenslu-kreppu vítahring með þekktum afleiðingum, mikilli verðbólgu og háum vöxtum.

Að mati Steinars verður nýtt samningslíkan í fyrsta lagi að byggja á sameiginlegum skilningi aðila á vinnumarkaði á nauðsyn þess að launaþróunin sé sjálfbær. Skilningur verði að ríkja á að „hóflegar launahækkanir eru almannagæði sem koma öllum vel“. Sátt þurfi að ríkja um að niðurstaðan sé sanngjörn og að ekki ríki tilfinning um að ákveðnir hópar fái óeðlilega stóran skerf í sinn hlut. Aukinn hagnaður fyrirtækja þurfi að skila sér í aukinni fjárfestingu en ekki einungis í hærri arðgreiðslum og launum æðstu stjórnenda.

Í öðru lagi þurfi að ákveða hver geri fyrsta kjarasamninginn og setji þannig viðmið um launaþróunina í kjölfarið. Á Norðurlöndum sé framleiðsluiðnaðurinn í þessu hlutverki sem fulltrúi útflutningsgreina. Þar sé nauðsynlegt að launaþróunin tryggi viðunandi og sjálfbæra þróun hagkerfisins án þess að verðbólga fari umfram markmið. Á Íslandi þyrfti að gera kjarasamninga á grundvelli atvinnugreina í stað starfsgreina. Ekki sé augljóst hvaða atvinnugrein geti gegnt þessu hlutverki á Íslandi en hugsanlegt sé að samningsfordæmið verði á sviði fiskvinnslu, orkufreks iðnaðar ásamt annari framleiðslu. Eins er bent á að gera megi miðlægan samning með afmörkuðu svigrúmi í fyrirtækjasamningum.

Í þriðja lagi þurfi að tryggja að viðmiði fyrsta samningsins verði fylgt á öllum vinnumarkaðnum. Það þurfi að koma í veg fyrir að hópar með sterka samningsstöðu fái meira í sinn hlut en samkvæmt viðmiðinu sem verði til þess að aðrir komi á eftir í sömu erindagjörðum. Því sé best að tryggja stöðuga hlutfallslega launaþróun sem sé jöfn í öllum atvinnugreinum en með rými fyrir ákveðinn sveigjanleika.

Veik staða heildarsamtaka á Íslandi samanborið við Norðurlönd
Holden bendir á að á Norðurlöndum séu heildarsamtök atvinnurekenda og alþýðusamböndin með sterka stöðu gagnvart einstökum samningum og hafi jafnvel neitunarvald. Á Íslandi sé þessu öðru vísi farið þar sem samningsrétturinn sé hjá litlum stéttarfélögum sem auki verulega þrýsting á launahækkanir. Það að umsamin laun séu lágmarkslaun og að félagsmenn stéttarfélaga hafi forgang til starfa skapi vinnumarkaðnum á Íslandi algera sérstöðu meðal iðnríkja heimsins. Það sé undir aðilum á vinnumarkaði komið að breyta þessu.

Á Norðurlöndum hafi ríkissáttasemjarar víðtækari heimildir til að grípa í taumana og hafa áhrif en hér á landi. Sáttatillögur séu jafnan lagðar fram á grundvelli samningsramma sem ákveðinn er í fyrsta samningnum. Í Danmörku sameini sáttasemjari atkvæðagreiðslur um nánast alla kjarasamninga á almenna vinnumarkaðnum og auk þess geti heildarsamtök atvinnurekenda fellt kjarasamninga sem aðildarfélög þeirra gera, til dæmis ef þeir feli í sér launaþróun umfram það sem ákveðið hefur verið. Einnig geti gerðardómar komið til um einstök mál.

Allir aðilar vinnumarkaðarins hugi að breytingum
Nauðsynlegt er að samtök á vinnumarkaði, bæði samtök atvinnurekenda, verkalýðsfélög og heildarsamtök þeirra, hugi að breytingum á skipulagi sínu til að kjarasamningar geti leitt til langvarandi stöðugleika og launa- og atvinnuþróunar sem best samræmist markmiðum um sjálfbæran vöxt hagkerfisins. 

Hannes. G. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í september 2016.

Tengt efni: 

Skýrsla Steinar Holden (PDF)