Efnahagsmál - 

04. desember 2003

Hóflegar hækkanir skila meiri kaupmætti

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hóflegar hækkanir skila meiri kaupmætti

Launahækkanir hafa lengi verið miklar hér á landi í samanburði við viðskiptalöndin. Síðastliðið ár hafa laun að meðaltali hækkað um 3% í viðskiptalöndunum en um 5,4% hér á landi. Launahækkanir umfram framleiðni-aukningu valda hins vegar verðbólgu og versnandi samkeppnisstöðu atvinnulífsins og leiðréttast því með lækkun gengis krónunnar, sem síðan veldur frekari verðbólgu. Á yfirstandandi samningstímabili hafa umframhækkanir launa hér á landi verið "leiðréttar" með lækkun gengis krónunnar og niðurstaðan er sú að launahækkanir hér á landi og erlendis hafa verið sambærilegar þegar samanburður er gerður í sameiginlegum gjaldmiðli. Íslendingar þekkja vel miklar launahækkanir sem litlu skiluðu í kaupmætti. Á árunum 1980-1990 hækkuðu laun þannig um 1.450% en kaupmáttur minnkaði um 14%. Óhætt er að draga þá ályktun af þeirri reynslu að hóflegar launahækkanir séu líklegri til að skila sér í auknum kaupmætti launa.

Launahækkanir hafa lengi verið miklar hér á landi í samanburði við viðskiptalöndin. Síðastliðið ár hafa laun að meðaltali hækkað um 3% í viðskiptalöndunum en um 5,4% hér á landi. Launahækkanir umfram framleiðni-aukningu valda hins vegar verðbólgu og versnandi samkeppnisstöðu atvinnulífsins og leiðréttast því með lækkun gengis krónunnar, sem síðan veldur frekari verðbólgu. Á yfirstandandi samningstímabili hafa umframhækkanir launa hér á landi verið "leiðréttar" með lækkun gengis krónunnar og niðurstaðan er sú að launahækkanir hér á landi og erlendis hafa verið sambærilegar þegar samanburður er gerður í sameiginlegum gjaldmiðli. Íslendingar þekkja vel miklar launahækkanir sem litlu skiluðu í kaupmætti. Á árunum 1980-1990 hækkuðu laun þannig um 1.450% en kaupmáttur minnkaði  um 14%. Óhætt er að draga þá ályktun af þeirri reynslu að hóflegar launahækkanir séu líklegri til að skila sér í auknum kaupmætti launa.

Á því samningstímabili sem senn lýkur hafa allmiklar sviptingar orðið á launum, gengi krónunnar og verðbólgu. Sveiflurnar á tímabilinu hafa verið svo miklar að það er nánast öfugmæli að kenna það við stöðugleika. Kjarasamningarnir í ársbyrjun 2000 voru gerðir við aðstæður mikillar verðbólgu, sem var þá um 6%, og leiddi þessi mikla verðbólga annars vegar og endurgjald fyrir langan samningstíma hins vegar til þess að kauphækkanir urðu umtalsverðar á fyrsta ári samningstímans. Á síðari hluta samningstímans hefur stöðugleikinn verið endurheimtur, bæði hvað varðar verðbólgu og gengi krónunnar, en launahækkanir hafa verið miklar, eða á bilinu 5-6% á ári eftir að áhrif upphafshækkana kjarasamninga gengu yfir.

5,4% hækkun launa milli ára
Nýverið birti Kjararannsóknarnefnd niðurstöður launakönnunar sinnar fyrir 3. ársfjórðung 2003. Niðurstaðan fyrir almenna vinnumarkaðinn í heild var sú að laun hefðu hækkað um 5,4% frá sama fjórðungi árið áður. Hækkunin var nokkuð misjöfn eftir starfsstéttum en algengt var að helstu starfsstéttir hækkuðu um 4,5%. Í ljósi þess að laun hækkuðu víða þann 1. janúar sl. um 3,4% þá var launaskrið u.þ.b. 1%. Áhrifa sérákvæða kjarasamninga gagnvart lægstu launum gætti í niðurstöðum fyrir verkafólk, en í kjarasamningum þess hækkuðu lægstu launataxtar um allt að 6% um síðustu áramót.  Hjá verslunarmönnum hafði kjarasamningur fyrir stórmarkaði mikil áhrif á dagvinnulaun en þau hækkuðu sérstaklega mikið um síðustu áramótum gegn því að yfirvinnuálag var lækkað.


Miklar launahækkanir hérlendis
Einhverjum kann að virðast þetta vera litlar launahækkanir, öðrum að þær séu hæfilegar og enn öðrum að þær séu miklar, en slíkt mat fer eftir því frá hvaða sjónarhóli horft er og við hvað er miðað. Samanburður við launahækkanir í viðskiptalöndum Íslendinga leiðir í ljós að launahækkanir eru miklar á Íslandi og hafa verið það um langt árabil. Laun hafa hækkað um 3% að meðaltali í viðskiptalöndunum síðastliðið ár og það gerðu þau einnig í fyrra og hitteðfyrra. Hækkanir eru vissulega mismunandi eftir löndum og svo vill til að hækkanirnar eru mestar á Norðurlöndunum og búa Íslendingar við mestar launahækkanir um þessar mundir, ásamt Norðmönnum. Einungis tvö önnur lönd í þessum samanburði búa við meira en 4% árlegar launahækkanir. Ástæða er til þess að taka fram að þær launahækkanir sem hér er fjallað um eru mældar launahækkanir á markaði óháð því hvernig þær verða til, hvort sem það er í kjarasamningum, með launaskriði umfram samninga eða frjálsri launamyndun á markaði.

(smellið á myndina)

Þar sem launahækkanir umfram framleiðniaukningu valda verðbólgu og versnandi samkeppnisstöðu atvinnulífsins þá "leiðréttast" of miklar launahækkanir með lækkun gengis krónunnar. Lækkun gengis veldur síðan frekari verðbólgu og ef launahækkanir eru of miklar í kjarasamningum og þeir tryggðir með einhvers konar verðlagsviðmiðunum er komin uppskrift að stöðugum verðlagshækkunum, þ.e. vítahring launahækkana, gengislækkana og verðbólgu.

Mun minni launahækkanir í erlendri mynt
Á yfirstandandi samningstímabili, þ.e. frá 1. ársfjórðungi 2000 til 3. ársfjórðungs 2003, hækkuðu laun á almennum markaði um 25% að meðaltali skv. launavísitölu Hagstofunnar. Vegna þess að gengi krónunnar er nú lægra en í upphafi samningstímans (gengisvísitalan var 109 á 1. ársfj. 2000 en 126 á 3. ársfj. 2003) þá hafa laun hér á landi umreiknuð í erlenda mynt ekki hækkað nálægt því eins mikið og launin í íslenskum krónum. 

(smellið á myndina)

Umframhækkanir "leiðréttar" með lægra gengi
Það er afar athyglisvert að bera saman launaþróun á almennum markaði hérlendis og í viðskiptalöndunum í sameiginlegum gjaldmiðli á yfirstandandi samningstímabili. Sá samanburður leiðir í ljós að eftir upphafshækkun samninganna tóku launin að lækka í erlendum gjaldmiðli og hélt sú þróun áfram til ársloka 2001, og voru þá orðin 14% lægri en í upphafi samningalotunnar. Þau tóku síðan að hækka á ný, með sameiginlegu tilstilli hækkandi launa og gengis krónunnar, og voru á 3. ársfjórðungi þessa árs orðin 9% hærri en í upphafi samningstímans. Til samanburðar hafa laun í viðskiptalöndunum hækkað um 12% á sama tímabili.

Þegar upp er staðið hafa umframhækkanir launa hér á landi á samningstímabilinu verið "leiðréttar" með lækkun gengis krónunnar og niðurstaðan er sú að launahækkanir hér á landi og erlendis hafa verið sambærilegar þegar samanburður er gerður í sameiginlegum gjaldmiðli. Þessi niðurstaða er vísbending um að í þeirri stöðu sem íslenskt efnahagslíf er í um þessar mundir, og hefur verið undanfarin ár, muni innlendar hækkanir umfram launabreytingar viðskiptalandanna vera ávísun á lækkun gengis krónunnar og verðbólgu umfram verðbólgu erlendis. Hafa verður í huga í þessu sambandi að laun hér á landi hækkuðu um 27% í erlendri mynt á þarsíðasta samningstímabili, 1997-1999, samanborið við 9% í viðskiptalöndunum, líkt og fjallað var um í nýlegu fréttabréfi SA. Sá kostnaðarauki íslensks atvinnulífs hefur í raun haldist sé litið til stöðunnar nú.

1.450% hækkun launa, 14% lækkun kaupmáttar
Íslendingar þekkja þjóða best hve náið samhengi getur verið á milli launahækkana, gengislækkana og verðbólgu, enda mun það hagkerfi vandfundið þar sem jafn miklar tilraunir til breytinga á þessum stærðum hafa verið gerðar. Þótt sambandið milli þessara stærða sé ekki jafn sterkt og fyrir rúmum áratug síðan þá er lærdómurinn sem draga má af reynslunni ótvíræður.  Á tímabilinu 1980-2000 hækkuðu laun um 2500% en kaupmáttur launa 10%, skv. launavísitölum Hagstofunnar. Þróunin var hins vegar verulega frábrugðin á níunda og tíunda áratugnum.

Á tímabilinu 1980-1990 hækkuðu laun um 1450% en kaupmáttur launa minnkaði um 14%.  Á síðasta áratug, þegar verðbólga komst niður á sama stig og í nálægum löndum, og launahækkanir kjarasamninga urðu hóflegar, hækkuðu laun um 67% skv. launavísitölu og kaupmáttur launa jókst um 27%. Að jafnaði voru launahækkanir rúm 5% á síðasta áratug og kaupmáttaraukning 2,5%. Óhætt er að draga þá ályktun af þessari reynslu að hóflegar launahækkanir séu líklegri til að skila sér í auknum kaupmætti launa. 

Samtök atvinnulífsins