Efnahagsmál - 

22. nóvember 2004

Hlutverk Íbúðalánasjóðs verði endurskilgreint

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hlutverk Íbúðalánasjóðs verði endurskilgreint

Meginefni frumvarps til laga um húsnæðismál er að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs vegna almennra íbúðalána í allt að 90% af verðgildi eigna að ákveðnu hámarki.

Meginefni frumvarps til laga um húsnæðismál er að hækka lánshlutfall Íbúðalánasjóðs vegna almennra íbúðalána í allt að 90% af verðgildi eigna að ákveðnu hámarki.

Gjörbreyttar aðstæður á markaði

Undanfarna mánuði hafa aðstæður gjörbreyst á íbúðalána-markaðnum. Viðskiptabankar og sparisjóðir hafa hafið samkeppni við Íbúðalánasjóð og sín í milli um íbúðalánin og geta nú boðið sambærileg kjör og sjóðurinn býður. Það að fjármálafyrirtækin geti nú boðið sambærileg vaxtakjör og sjóður með ríkisábyrgð er að þakka gríðarlegri stækkun og útrás íslensku bankanna á undanförnum misserum. Sú staða að ríkið er komið í beina samkeppni við einkafyrirtæki á frjálsum markaði sem eru fær um að sinna þörfum lang flestra þeirra sem hyggjast fjárfesta í íbúðarhúsnæði hlýtur að stuðla að því að hlutverk Íbúðalánasjóðs verði endurskilgreint og að ríkið dragi úr lánveitingum til íbúðakaupenda.

Mótsagnakennd hlutverk

Í umsögn SA um frumvarpið er m.a. fjallað um verðhækkanir á fasteignamarkaði og vaxtahækkanir Seðlabankans, en mótsagnakennt er að ríkið sé með annarri hendinni að keppa á lánamarkaði og stuðla að aukinni útlánaþenslu í gegnum Íbúðalánasjóð, en með hinni hendinni að sporna gegn áhrifum útlánaþenslu með aðhaldsaðgerðum Seðlabanka.

SA leggjast gegn því að viðmiðunarmörk Íbúðalánasjóðs til almennra lánveitinga verði rýmkuð, við þær aðstæður sem hér hafa skapast. Þess í stað telja SA að endurskoða beri hlutverk sjóðsins og afmarka það við lánveitingar til félagslegra húsnæðiskaupa og byggingar leiguíbúða til afmarkaðra hópa.

Sjá umsögn SA um frumvarpið.

Samtök atvinnulífsins