Fréttir - 

07. Febrúar 2017

Hljóð og mynd verða að fara saman hjá Seðlabankanum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hljóð og mynd verða að fara saman hjá Seðlabankanum

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir vaxtaákvörðun sína í fyrramálið, þá fyrstu á árinu 2017. Verðbólga hefur haldist undir markmiði bankans í samfleytt þrjú ár. Vaxtastigið er samt á svipuðum slóðum og í febrúar 2014, þegar verðbólgan fór fyrst undir markmið bankans. Nú er mál að linni og forsendur vaxtalækkunar gætu ekki verið skýrari.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir vaxtaákvörðun sína í fyrramálið, þá fyrstu á árinu 2017. Verðbólga hefur haldist undir markmiði bankans í samfleytt þrjú ár. Vaxtastigið er samt á svipuðum slóðum og í febrúar 2014, þegar verðbólgan fór fyrst undir markmið bankans. Nú er mál að linni og forsendur vaxtalækkunar gætu ekki verið skýrari.

Seðlabankinn spáir of hárri verðbólgu
Frá ársbyrjun 2014 hefur verðbólga reynst ríflega einu prósentustigi lægri en spálíkan Seðlabankans gerði ráð fyrir. Með öðrum orðum hafa vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar byggst á forsendum um meiri verðbólgu en raunin varð. Afleiðingin hefur verið meira aðhald peningastefnunnar og hærri raunvextir á tímabilinu.

Verðbólguvæntingar í kjölfestu
Verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja eru í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans og fimm ára verðbólguvæntingar á skuldabréfamarkaði hafa haldist undir markmiði frá því síðastliðið sumar. Væntingarnar gefa því ekkert tilefni til vaxtahækkana. Í yfirlýsingu peningastefnunefndar við síðustu vaxtaákvörðun segir orðrétt „…aðhaldssöm peningastefna sem hefur skapað verðbólguvæntingum kjölfestu.“ Lítið hefur breyst frá því það var ritað, annað en að fimm ára verðbólguvæntingar hafa lækkað enn frekar, og því gefur auga leið að allt hnígur að frekari lækkun vaxta.

Útlánavöxtur enn hægur
Ólíkt því sem var í síðustu uppsveiflu þá vaxa útlán mjög hægt.  Í stað þess að taka ný lán hafa heimili og fyrirtæki greitt niður skuldir. Útlán innlánsstofnana og ÍLS til fyrirtækja og heimila hafa nær ekkert aukist undanfarin misseri. Það er frekar að lífeyrissjóðirnir hafi aukið útlán sín lítillega. Það má líklega frekar rekja til skorts á fjárfestingarkostum í lokuðu hagkerfi. Ólíklegt er að útlánatölur haldi vöku fyrir nefndarmönnum peningastefnunefndar.

Engin ofhitnun á húsnæðismarkaði
Þrátt fyrir að fasteignaverð hafi hækkað síðustu misserin eru enn engar vísbendingar um ofhitnun á fasteignamarkaði. Það dugar skammt að horfa aðeins til fasteignaverðs því aðrir þættir hafa einnig áhrif. Launaþróun, vextir og aðgengi að lánsfé hefur mikil áhrif á fasteignaverð en ef leiðrétt er fyrir þessum þáttum er ekki að sjá að húsnæðisverð sé of hátt. Í raun er það töluvert undir sögulegu meðaltali.

Of hátt vaxtastig
Þrátt fyrir að flest allir mælikvarðar styðji við vaxtalækkun á Seðlabankinn óþekka samstarfsmenn í íslenskri hagstjórn. Það er ekki bara Seðlabankans að tryggja verðstöðugleika við lágt vaxtastig heldur bera aðilar vinnumarkaðar og stjórnvöld þar mikla ábyrgð. Að því sögðu er áleitin spurning hvort vaxtastigið sé einfaldlega of hátt þrátt fyrir að hagkerfið sé í uppsveiflu?

Í fyrsta lagi skapar mikill vaxtamunur við útlönd vanda. Seðlabankinn brást við miklum áhuga erlendra aðila til að fjárfesta á íslenskum vöxtum með því að setja á innflæðishöft. Heillavænlegra væri að ráðast að rót vandans fremur en að plástra með nýjum höftum. Öll höft eru vond, í hvaða formi sem er.

Í öðru lagi hefur tilkoma efling ferðaþjónustunnar víðtæk áhrif á íslenskt hagkerfi, gjaldeyristekjur hafa aukist til muna og gengi krónunnar styrkst. Þrátt fyrir að uppsveiflan hafi nú varað í sex ár er hagvöxtur enn heilbrigður, drifinn áfram af útflutningsgreinum. Þá hefur erlent starfsfólk, einkum í greinum tengdri ferðaþjónustu, dregið úr spennu í hagkerfinu. Því er eðlilegt að staldra við og velta fyrir sér hvort vextir séu einfaldlega of háir í gjörbreyttu hagkerfi?

Oft var þörf en nú er nauðsyn. Atvinnulífið bíður spennt eftir tilkynningu frá Seðlabanka Íslands. Til lengri tíma verða hljóð og mynd að fara saman – líka hjá Seðlabanka Íslands.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Samtök atvinnulífsins