Efnahagsmál - 

06. október 2008

Hjól atvinnulífsins snúist áfram

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hjól atvinnulífsins snúist áfram

Miklu skiptir að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast, að fyrirtæki haldi velli og heimilin fari ekki í þrot. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við fréttastofu Útvarps. Koma verði í ljós hvort aðgerðir ríkisstjórnar sem kynntar voru í dag dugi til.

Miklu skiptir að hjól atvinnulífsins haldi áfram að snúast, að fyrirtæki haldi velli og heimilin fari ekki í þrot. Þetta segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í samtali við fréttastofu Útvarps. Koma verði í ljós hvort aðgerðir ríkisstjórnar sem kynntar voru í dag dugi til.

Vilhjálmur segir að leiðin verði brött; lífskjörin hafi versnað til muna og fyrirtækin séu að sligast undan háum vöxtum. Erfitt sé að fá lán í bönkum. En nú virðist stjórnvöld ætla að slá skjaldborg um atvinnulífið og heimilin í landinu þannig að rekstur stöðvist ekki og heimili lendi í greiðsluþrotum.

Nú liggur leiðin upp

Í samtali við mbl.is segir Vilhjálmur að nú liggi leiðin upp. "Það sem ég held að skipti mestu máli núna er að horfa til framtíðarinnar og komast í gegnum þá erfiðleika sem blasa við. Við getum tekist á við þá og við getum komist upp úr þessu." Hann segir að Íslendingar muni komast í gegnum þetta með því að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.

"Ég hef trú á því, og veit það, að við svona aðstæður þá eru til leiðir til að halda hlutunum gangandi," segir Vilhjálmur, en bendir á að um áfall sé að ræða sem snerti allar fjölskyldur og öll fyrirtæki á landinu. "Við höfum orðið fyrir áfalli áður, og með alla okkar þekkingu og allt okkar góða fólk, allar okkar auðlindir og möguleika, þá munum við komast upp úr þessu."

Sjá nánar:

Frétt RÚV

Frétt mbl.is

Rætt við Vilhjálm og Ingibjörgu Guðmundsdóttur, varaforseta ASÍ í Speglinum

Samtök atvinnulífsins