Helmingur stærri fyrirtækja gerir jafnréttisáætlanir

SA gerðið nýlega könnun meðal aðildarfyrirtækja samtakanna til að fá yfirlit yfir að hvaða marki fyrirtæki eru að gera skriflegar jafnréttisáætlanir eða setja sér jafnréttismarkmið. Jafnréttislög skylda öll fyrirtæki með 25 starfsmenn eða fleiri til að gera slíkar áætlanir. 

Mörg fyrirtæki eru að setja sér jafnréttisáætlanir
Niðurstaðan var að mörg fyrirtæki eru að vinna að því að setja sér jafnréttisáætlanir og er þá ýmist um að ræða jafnréttismarkmið í starfsmannastefnu eða sérstakar jafnréttisáætlanir.  Mjög fá fyrirtæki hafa þó þegar lokið þeim áfanga.

Stór munur milli stærri og minni fyrirtækja
Mikill munur kom fram í svörum þeirra fyrirtækja sem eru með 25-50 starfsmenn og þeirra sem hafa 50 starfsmenn og fleiri.  Tæpur helmingur stærri fyrirtækjanna hafði hafið undirbúning að gerð jafnréttisáætlunar eða jafnréttismarkmiða en aðeins 4% minni fyrirtækjanna. Sú niðurstaða kemur ekki á óvart.  Samskiptamynstur og stefnumótun í starfsmannamálum eru yfirleitt óformlegri í minni fyrirtækjum þar sem styttra er milli manna. Þau hafa líka minna skrifstofuhald og eru því verr í stakk búin að takast á við viðbótar pappírsvinnu. Menn hafa nóg með að sinna eiginlegri starfsemi sinni.   

Rekstrarsjónarmið frekar en pappírsstýring
Í athugasemd sem fylgdi svari fyrirtækis sem hafði ráðið allmargar konur til hefðbundinna og mjög vel launaðra karlastarfa kom eftirfarandi fram:  "...það var ekki gert vegna jafnréttis kynja, heldur vegna gæða þessara starfsmanna. Stefna þessa fyrirtækis er að ráða hæfa starfsmenn án tillits til kyns og jafnréttislaga. Það er hið eina og sanna jafnrétti." Nokkur fyrirtæki tóku líka sérstaklega fram að hjá þeim væri ekki kynjamunur, hvorki í starfi eða launum.  Það sjónarmið kom líka fram að svona reglusetning og miðstýringarpakkar séu dæmigerðir fyrir hnignandi samkeppnisstöðu  Vestur-Evrópu.

Leiðbeiningar SA
Á vef SA er þegar að finna leiðbeiningar um það hvernig standa beri að gerð jafnréttisáætlana. Um helmingur svarenda taldi þó að þörf væri á frekari  leiðbeiningum og dæmum. Á vinnumarkaðsvef SA, sem opnaður verður fyrir aðildarfyrirtæki samtakanna innan skamms, verður því að finna ítarlegri umfjöllun og fleiri dæmi.  Jafnréttishópur SA mun einnig taka málið til umfjöllunar á fundi sínum nú í október.