Efnahagsmál - 

11. Júní 2009

Heimskreppa til ársins 2015?

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Heimskreppa til ársins 2015?

Á ársþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf sem nú stendur yfir er m.a. fjallað um það hvort efnahagur heimsins fari að rétta úr kútnum eða hvort áframhaldandi þrengingar séu í spilunum. Í umræðum í nefnd um viðbrögð við kreppunni hefur komið fram það álit að hægur viðsnúningur hefjist á árinu 2010 sem þó sé háður því að fjármálakerfi heimsins fari að virka sem skyldi og fjármagnsflutningar verði með eðlilegum hætti. Svartsýnustu spár gera ráð fyrir því að störfum fari ekki að fjölga að ráði fyrr en í fyrsta lagi árið 2015.

Á ársþingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) í Genf sem nú stendur yfir er m.a. fjallað um það hvort efnahagur heimsins fari að rétta úr kútnum eða hvort áframhaldandi þrengingar séu í spilunum. Í umræðum í nefnd um viðbrögð við kreppunni hefur komið fram það álit að hægur viðsnúningur hefjist á árinu 2010 sem þó sé háður því að fjármálakerfi heimsins fari að virka sem skyldi og fjármagnsflutningar verði með eðlilegum hætti. Svartsýnustu spár gera ráð fyrir því að störfum fari ekki að fjölga að ráði fyrr en í fyrsta lagi árið 2015.

Kreppan knúði dyra nokkru síðar í þróunarlöndunum en afleiðingar hennar birtast þar nú með auknum krafti. Atvinnuleysi er mikið víða um heim en samkvæmt nýjasta mati ILO eru allt að 239 milljónir manna án atvinnu í heiminum sem jafngildir 7,4% atvinnuleysi. Frá árinu 2007 hafa allt að 59 milljónir misst vinnuna. Ungt fólk er í sérstaklega mikilli hættu á að missa atvinnu en búist er við að allt að 17 milljónir ungs fólks bætist í hóp atvinnulausra í heiminum milli 2008 og 2009.

Aldrei hefur heimsbyggðinni tekist jafn illa upp við að skapa ný störf eins og á árinu 2009. Í áliti nefndarinnar segir að skuldsett lönd geti ekki brugðist við kreppunni með viðeigandi hætti, þ.e. að auka útgjöld og lækka skatta - það sé hreinlega ekki í boði. ILO hefur sett upp mismunandi dæmi þar sem reynt er að sjá fyrir fjölgun starfa á næstu árum m.v. ólíkar forsendur. Bjartsýnustu spár gera ráð fyrir að atvinnustigi ársins 2007 verði náð 2013 en þær svartsýnustu spá 6 erfiðum árum framundan á vinnumarkaði eða jafnvel lengur.

Sjá nánar á vef ILO (PDF) 

Samtök atvinnulífsins