Vinnumarkaður - 

21. janúar 2003

Heimilt að skoða tölvupóst, ef farið er varlega

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Heimilt að skoða tölvupóst, ef farið er varlega

Í umfjöllun Morgunblaðsins um nýtt álit Persónuverndar, þar sem talið var að vinnuveitandi hafi brotið meðalhófsreglu þegar hann lagði fram 158 tölvupóstskeyti starfsmanns fyrir dómi, segir Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, niðurstöðuna fela í sér viss nýmæli. "Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum talið að atvinnurekandi hafa gengið of langt við skoðun og meðferð á tölvupósti starfsmanns," segir Sigrún.

Í umfjöllun Morgunblaðsins um nýtt álit Persónuverndar, þar sem talið var að vinnuveitandi hafi brotið meðalhófsreglu þegar hann lagði fram 158 tölvupóstskeyti starfsmanns fyrir dómi, segir Sigrún Jóhannesdóttir, forstjóri Persónuverndar, niðurstöðuna fela í sér viss nýmæli. "Þetta er í fyrsta sinn sem við höfum talið að atvinnurekandi hafa gengið of langt við skoðun og meðferð á tölvupósti starfsmanns," segir Sigrún.

Hægt að skerða friðhelgi
"Ég lít svo á að þessi niðurstaða feli ekki í sér neitt nýtt," segir Hrafnhildur Stefánsdóttir, yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins, í samtali við Morgunblaðið. "Hún þýðir ekki að vinnuveitendur geti ekki fylgst með tölvupóstsnotkun starfsmanna. Fyrirtækjum getur verið nauðsynlegt að gera það vegna ýmissa hluta." Hún segir að lögmætir hagsmunir geti heimilað fyrirtækjum að skoða tölvupóst starfsmanna. Hins vegar þurfi slík vöktun að vera gerð í skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki sé farið umfram það sem nauðsynlegt er.

Hrafnhildur segir að álit Persónuverndar sé svar í einu tilteknu máli, sem sent hafi verið Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Í því hafi komið fram að réttur til að njóta friðhelgis á vinnustað geti sætt skerðingu að því marki sem atvinnurekandi telji nauðsynlegt til að vernda lögmæta hagsmuni sína.

Reglur fullnægjandi
"Hins vegar er eindregið mælt með því að fyrirtæki setji sér skýrar reglur um persónulega netnotkun starfsmanna." SA hafi bent fyrirtækjum á leiðbeinandi reglur um eftirlit vinnuveitenda með tölvupósts- og netnotkun starfsmanna. Í þeim sé jafnvægi á milli hagsmuna starfsmanna og eðlilegra lögmætra hagsmuna vinnuveitandans. "Við erum með leiðbeiningar og komum til með að koma með fyllri ráðleggingar til okkar félagsmanna," segir Hrafnhildur aðspurð um hvort nauðsynlegt sé að breyta reglum eða bæta þær sem fyrir eru.

Hún segir að umræða hafi komið upp á vettvangi Evrópusambandsins hvort setja þurfi sérstakar viðbótarreglur hvað varðar persónuvernd starfsmanna án þess að það sé fyllilega rökstutt. "Samtök atvinnulífsins hafa hafnað að fara í þær samningaviðræður á þeim grundvelli að þær reglur sem við höfum tekið upp hér á landi séu fullnægjandi," segir Hrafnhildur Stefánsdóttir.

Hvað með húsleitir opinberra aðila?
Loks fjallar Morgunblaðið um það hvernig Samkeppnisstofnun hefur gert tölvupóst starfsmanna upptækan í þágu rannsóknar. Í samtali við blaðið segist forstöðumaður samkeppnissviðs stofnunarinnar ekki í fljótu bragði sjá að nýtt álit Persónuverndar kalli á breyttar starfsreglur Samkeppnisstofnunar varðandi meðferð persónuupplýsinga á borð við tölvupóst. Hann bendir m.a. á að hæstiréttur hafi komist að þeirri niðurstöðu að haldlagning tölvupósts hafi verið heimil þegar húsleit var gerð hjá olíufélögunum.

Samtök atvinnulífsins