Efnahagsmál - 

13. Júní 2013

Heimili og fyrirtæki þurfa stöðugleika

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Heimili og fyrirtæki þurfa stöðugleika

Undirbúningur fyrir kjaraviðræður haustsins er hafinn en flestir samningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember og samningar opinberra aðila skömmu síðar. Verkefnið er umfangsmikið þar sem hundruð kjarasamninga koma til endurnýjunar. Miklu skiptir að samningarnir leggi grunn að efnahagslegum stöðugleika með lágri verðbólgu, stöðugu gengi og vaxandi kaupmætti. Fólk þarf stöðugleika til að lífskjör þess batni og fyrirtækin þurfa stöðugleika til að geta sótt fram og dafnað.

Undirbúningur fyrir kjaraviðræður haustsins er hafinn en flestir samningar á almennum vinnumarkaði renna út í lok nóvember og samningar opinberra aðila skömmu síðar. Verkefnið er umfangsmikið þar sem hundruð kjarasamninga koma til endurnýjunar. Miklu skiptir að samningarnir leggi grunn að efnahagslegum stöðugleika með lágri verðbólgu, stöðugu gengi og vaxandi kaupmætti. Fólk þarf stöðugleika til að lífskjör þess batni og fyrirtækin þurfa stöðugleika til að geta sótt fram og dafnað.

Áratugum saman hefur verðbólga leikið landsmenn grátt og tímabært að kveða þann draug niður svo aðstæður verði sambærilegar og í nágrannaríkjunum. Mikil verðbólga er ekki náttúrulögmál heldur gjald fyrir heimatilbúnar efnahagssveiflur og slaka efnahagsstjórn. Afdrifaríkur fylgikvilli er mun hærri vextir en í helstu viðskiptalöndunum, en þeir hamla fjárfestingum og framförum og rýra lífskjör almennings.

Forsendur aukinnar hagsældar er samkeppnishæft atvinnulíf sem byggir á stöðugu og hagstæðu rekstrarumhverfi. Þar skipta launaþróun, vextir og skattlagning atvinnulífsins mestu. Háir vextir stafa af efnahagslegum óstöðugleika sem birtist í viðvarandi verðbólgu og gengissveiflum. Mun meiri launahækkanir en tíðkast í nágrannalöndunum hafa kynt undir óstöðugleikann. Hækkun launavísitölunnar um 85% og vísitölu neysluverðs um 80% undanfarinn áratug ber þessu órækt vitni því á Norðurlöndum hækkuðu laun um 35% og verðlag um 18% á sama tíma.

Innistæðulausar launahækkanir leiða óhjákvæmilega til verðbólgu og verri lífskjara en ella. Í launakapphlaupinu sigrar enginn, allir tapa. Því þarf raunsæi og agi að ríkja í stað óskhyggju og sundrungar. Með lágri verðbólgu og vöxtum batnar samkeppnishæfni landsins. Aðeins þannig getur störfum fjölgað og lífskjör batnað. Allir vinna.

Í vikunni undirrituðu heildarsamtök launafólks og vinnuveitenda á almennum og opinberum vinnumarkaði samkomulag um bætt vinnubrögð við undirbúning kjarasamninga og aukna skilvirkni við gerð þeirra. Það er vitnisburður um almennan og ríkan vilja samningsaðila til betrumbóta á samningakerfinu og atferli við samningsgerðina. Ný samstarfsnefnd samningsaðila mun taka saman upplýsingar um launaþróun og efnahagsforsendur til undirbúnings kjarasamninga árin 2013 og 2014. Markmiðið er að móta sameiginlega sýn aðila vinnumarkaðarins um getu atvinnulífsins og samfélagsins til aukins kostnaðar og bættra lífskjara næstu árin.

Aukinn stöðugleiki í efnahagslífinu er brýnt hagsmunamál fyrir íslensk heimili. Ábyrg efnahagsstefna sem stuðlar að lágri verðbólgu og vöxtum er besta framlagið til lausnar á skuldavanda heimila. Verðtrygging íbúðalána er ekki rót vanda heimilanna. Vandinn liggur í óstöðugu efnahagslífi og afleiðingum þess. Nýleg greining SA sýnir ótvírætt að sambærileg heimili sem hefðu tekið jafn há verðtryggð og óverðtryggð lán fyrir áratug að þau síðarnefndu hefðu allan tímann síðan verið mun líklegri til að lenda í vanskilum. Engu að síður er æskilegt að minnka vægi verðtryggingar og stefna að notkun hennar í undantekningartilvikum, t.d. á löngum ríkisskuldabréfum. Það markmið næst þó ekki nema almennt traust ríki á að efnahagslegur stöðugleiki verði varanlegur.

Stöðugleiki næst ekki nema með breyttum vinnubrögðum á vinnumarkaði og við stjórn fjármála hins opinbera. Seðlabankinn getur ekki tryggt verðstöðugleika einn og óstuddur. Stjórnvöld og hagsmunaaðilar geta ekki í senn unnið gegn verðbólgumarkmiði Seðlabankans með ákvörðunum sínum og jafnframt lýst furðu á háu vaxtastigi og árangursleysi í baráttunni við verðbólguna. Allir verða að líta í eigin barm og hugleiða ábyrgð sína.

Þorsteinn Víglundsson

Af vettvangi í júní 2013

Samtök atvinnulífsins