Efnahagsmál - 

05. desember 2002

Heildarsamtökum mismunað

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Heildarsamtökum mismunað

Heildarsamtök á vinnumarkaði hafa allt frá því á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar notið framlaga úr ríkissjóði sem hafa verið ætluð til hagdeilda samtakanna og til starfa að hagræðingar- og framleiðnimálum. Auk Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins (áður VSÍ og VMS) hefur BSRB notið slíkra framlaga. Á þessu ári námu þessi framlög 7,6 m.kr. og skiptust þannig að ASÍ fékk 4,3 m.kr., SA 2,3 m.kr. og BSRB eina m.kr. Auk þess hefur ASÍ notið framlaga úr ríkissjóði til verðlagseftirlits.

Heildarsamtök á vinnumarkaði hafa allt frá því á fyrri hluta sjöunda áratugar síðustu aldar notið framlaga úr ríkissjóði sem hafa verið ætluð til hagdeilda samtakanna og til starfa að hagræðingar- og framleiðnimálum. Auk Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins (áður VSÍ og VMS) hefur BSRB notið slíkra framlaga. Á þessu ári námu þessi framlög 7,6 m.kr. og skiptust þannig að ASÍ fékk 4,3 m.kr., SA 2,3 m.kr. og BSRB eina m.kr. Auk þess hefur ASÍ notið framlaga úr ríkissjóði til verðlagseftirlits. 

Tekjur verkalýðshreyfingar margfaldar á við atvinnurekendasamtökin
Samtök atvinnurekenda hafa haft þá stefnu í gegnum árin að halda ekki uppi kröfu um framlög af opinberu fé til starfsemi sinnar, en gera um leið þá sjálfsögðu grundvallarkröfu, að á meðan launþegahreyfingin er studd með þeim hætti þá hljóti samskonar stuðningur að koma til starfsemi samtaka atvinnurekenda, þannig að jafnræðis sé gætt í samskiptum ríkisins og samtaka á vinnumarkaði. Engin rök eru fyrir mismunun í þeim efnum, m.a. í ljósi þess að tekjur verkalýðshreyfingarinnar í heild eru margfaldar á við tekjur allra atvinnurekendasamtaka, innan og utan SA.

Verkalýðshreyfingin þarf hvorki að hafa mikið fyrir innheimtu félagsgjalda né að afla félagsmanna eða halda þeim, enda er atvinnurekendum skylt að halda eftir stéttarfélagsiðgjaldi af launum. Reglan er síðan sú að lífeyrissjóðirnir sjái um innheimtuna fyrir verkalýðsfélögin. Þessi gjöld hafa ekkert lækkað við sameiningu verkalýðsfélaga. Í heild má ætla að iðgjöld til verkalýðsfélaga innan ASÍ nemi um 2 milljörðum króna árlega, en félagsgjöld í stéttarfélögum alls (þ.m.t. opinberum) eru áætluð um 3,5 milljarðar króna. Auk þess er haldið eftir af launum sjúkrasjóðsgjaldi, um 3 milljörðum króna árlega, og orlofsheimilasjóðsgjaldi, um 740 m.kr. Öndvert við verkalýðshreyfinguna þurfa félög atvinnurekenda að laða að sér félagsmenn og innheimta hjá þeim félagsgjöldin. Félagsgjöld til atvinnurekenda-félaga í heild eru áætluð um 700 m.kr. árlega.

Alvarlegt brot á jafnræði milli aðila vinnumarkaðarins
Þrátt fyrir að það feli í raun í sér óeðlilega íhlutun um starfsaðstöðu og styrkleikahlutföll á vinnumarkaði hafa stjórnvöld löngum haft tilhneigingu til að misskipta opinberum fjárframlögum á þessu sviði. Hafa þessi hlutföll oft verið í kringum 70 af hundraði til verkalýðs-hreyfingarinnar á móti 30 af hundraði til atvinnurekanda. Steininn tekur þó úr í fjárlagafrumvarpi næsta árs, sem nú er til lokameðferðar á Alþingi. Þar er gert ráð fyrir að framlag til ASÍ verði hækkað í 30 m.kr. og hefur sú ákvörðun verið rökstudd með vísan til niðurlagningar Þjóðhagsstofnunar. Varla er þó gert ráð fyrir því að atvinnurekendur geti nú leitað til ASÍ um upplýsingar við undirbúning kjarasamninga, t.d. um svigrúm til launabreytinga. Sumir virðast halda að samtök atvinnurekenda hafi greiðari aðgang að upplýsingum um fyrirtækjarekstur og þjóðarhag en verkalýðshreyfingin, en sú skoðun á ekki við nein rök að styðjast. Sú mismunun á opinberum framlögum sem hér er á ferðinni er alvarlegt brot á þeirri grundvallarreglu að jafnræði eigi að ríkja milli aðila vinnumarkaðarins. Við svo búið má ekki standa.

Ari Edwald

Samtök atvinnulífsins