Heilbrigðiskerfi í vanda
Ef skoðaðar eru samanburðartölur OECD yfir útgjöld til heilbrigðismála í aðildarlöndunum 30 blasir við að íslenska heilbrigðiskerfið er í vanda statt. Þótt hlutfall 65 ára og eldri sé það 5. lægsta hér á landi eru heildarútgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála 5. hæst hérlendis, mæld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu (VLF). Í þeim löndum þar sem hlutfall eldra fólks er lægra en hér eru útgjöld til heilbrigðismála miklum mun lægri en hérlendis. Þá eru útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála næst hæst hérlendis, mæld sem hlutfall af VLF, næst á eftir Þýskalandi, og hafa hækkað mest hér á undanförnum áratugum. Tekið skal fram að þessi samanburður tekur ekki til almannatryggingakerfisins.
Heildarútgjöldin 5. hæsta hlutfall VLF
Árið 2000 námu heildarútgjöld þjóðarinnar til heilbrigðismála 8,9%
af VLF. Þetta var 5. hæsta
hlutfallið innan OECD, á eftir Sviss (10,7%), Þýskalandi
(10,6%), Frakklandi (9,5%) og Kanada (9,1%). Meðaltalshlutfallið
innan OECD var 7,9%.
5. lægsta hlutfall 65 ára og eldri
Árið 2000 voru 11,7% íslensku þjóðarinnar 65 ára og eldri og var
þetta hlutfall það 5. lægsta
innan OECD. Í þeim löndum þar sem þetta hlutfall er lægra en
hérlendis - Írlandi, Tyrklandi, Kóreu og Mexíkó - eru
heildarútgjöld til heilbrigðismála mun lægra hlutfall af VLF en
hérlendis, eða á bilinu 4,8-6,7%.
Næst hæsta hlutfall opinberra útgjalda
Þegar heilbrigðisútgjöld hins opinbera eru mæld sem hlutfall af
VLF, miðað við árið 2000, er hlutfallið
næst hæst á Íslandi, 7,5%, en hæst í Þýskalandi, 8%. Meðaltalið
eru 5,6%.
Mest hækkun hérlendis
Ef áfram er skoðað hversu mikið þetta hlutfall hækkaði á árunum
1960-2000, þ.e. útgjöld hins opinbera til heilbrigðismála sem
hlutfall af VLF, kemur í ljós að þau hafa hækkað mest hérlendis, úr
2,5% í 7,5%, eða um 5%. Næst koma Þýskaland (4,8%) og Bandaríkin
(4,6%).
Kerfi í vanda
Þegar þessar tölur eru skoðaðar í samhengi blasir við að íslenska
heilbrigðiskerfið á við alvarlegan vanda að etja. Útgjöldin eru með
allra hæsta móti þótt meðalaldur þjóðarinnar sé einn sá lægsti
innan OECD. Þá hafa heilbrigðisútgjöld, sem hlutfall af
landsframleiðslu, vaxið hraðar hér en annars staðar undanfarna
áratugi. Umfang og vöxtur heilbrigðiskerfisins er þvílíkur að
leiðir til sparnaðar og hagræðingar í kerfinu hljóta að vera í
brennidepli, en stefnumótun stjórnvalda er ábótavant í þeim efnum.
Hægt er að nýta kosti samkeppni og einkarekstrar til lækkunar á
kostnaði, án þess að hlutfall hins opinbera í kostnaði við hvern
sjúkling minnki, né heldur gæði þjónustunnar. Um þetta er m.a.
fjallað í skýrslunni Bætum
lífskjörin!, sem Samtök atvinnulífsins gáfu út í apríl
sl.
Komið hafa fram ábendingar um ákveðin atriði sem OECD flokkar sem
heilbrigðisútgjöld hérlendis en ekki annars staðar, eða óvíða. Ekki
er tekin afstaða til slíkra atriða hér, enda eflaust hægt að setja
slíkar ábendingar fram um flest ef ekki öll aðildarríkin. Hér eru
eingöngu bornar saman tölur OECD.