Samkeppnishæfni - 

10. Oktober 2006

Heilbrigðiseftirlitið verði fært frá sveitarfélögum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Heilbrigðiseftirlitið verði fært frá sveitarfélögum

Ný stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem fjallar um Umhverfisstofnun er afar fróðleg fyrir margra hluta sakir. Fjallað er um rekstur og stjórnsýslu stofnunarinnar frá ýmsum hliðum og m.a. bent á að vanda stofnunarinnar megi skipta í fernt, þ.e. fjárhagsvanda, skipulagsvanda, stjórnunarvanda og vanda sem tengist samskiptum ráðuneytis og stofnunarinnar.

Ný stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem fjallar um Umhverfisstofnun er afar fróðleg fyrir margra hluta sakir. Fjallað er um rekstur og stjórnsýslu stofnunarinnar frá ýmsum hliðum og m.a. bent á að vanda stofnunarinnar megi skipta í fernt, þ.e. fjárhagsvanda, skipulagsvanda, stjórnunarvanda og vanda sem tengist samskiptum ráðuneytis og stofnunarinnar.

Tillögur Ríkisendurskoðunar eru í nokkrum liðum. Bent er á að sérstaklega þurfi að huga að verkefnum sem felast í heilbrigðiseftirliti en í skýrslunni segir: "Það virðist há Umhverfisstofnun að hún hefur ekki boðvald í eftirliti sínu með því hvernig sveitarfélög standa að heilbrigðiseftirliti heldur einungis leiðbeinandi hlutverk. Fyrir vikið er erfitt að samræma þetta eftirlit. Rétt kann að vera að breyta núverandi fyrirkomulagi á þessu eftirliti og þá eftir atvikum færa framkvæmdina frá sveitarfélögum til ríkisins. Sú leið kynni að leiða til samræmdara og skilvirkara eftirlits og aukinnar hagkvæmni." Einnig er bent á að regluverk það sem stofnunin starfar eftir sé óþarflega flókið og sundurlaust og segir svo um verkefni Umhverfisstofnunar: "Æskilegt og eðlilegt er að löggjöf um verkefni hennar verði endurskoðuð og eftir atvikum sett í ein lög. Slíkt væri bæði til þess fallið að auka samþættingu innan stofnunarinnar og einfalda viðmót gagnvart viðskiptavinum hennar."

Þessar ábendingar Ríkisendurskoðunar eru mjög í samræmi við þær tillögur og ábendingar sem Samtök atvinnulífsins hafa flutt á undanförnum árum. Bent hefur verið á að óeðlilegt sé að í landinu séu rekin 10 heilbrigðiseftirlit sem ekki lúta samræmdri yfirstjórn heldur séu undir stjórn sveitarfélaga á viðkomandi svæðum. Það er einnig óeðlilegt að sveitarfélögin fari með eftirlit með atvinnurekstri þar sem þau verða m.a. að hafa eftirlit með eigin atvinnurekstri, sem býður heim hættu á mismunun. Bent hefur verið á að heilbrigðiseftirlit snúist fyrst og fremst um gjaldskrár og innheimtu tekna en taki ekkert mið af því hvernig fyrirtækin standi sig við rekstur innra gæðakerfis og eftirlits. Fyrirtæki sem starfa á mörgum stöðum á landinu geta lent í því að fá mismunandi kröfur eftir því hvar þau eru stað sett á landinu. Samtök atvinnulífsins hafa sett fram ítarlegar tillögur um að ábyrgð á eftirlitinu verði flutt til ríkisins. Svo má fela einkareknum faggiltum skoðunarstofum framkvæmd eftirlitsins og þær geta rekið starfsemi vítt og breitt um landið. Raunar virðist af lestri stjórnsýsluendurskoðunar á Umhverfisstofnun að unnt sé að koma við útboðum og einkarekstri á ýmsum sviðum sem stofnunin annast nú sjálf. Af hverju geta til dæmis einkaaðilar ekki rekið þjóðgarða?

Sjá nánar um stjórnsýsluúttektina á vef Ríkisendurskoðunar.

 

Sjá nánar um tillögur SA í skýrslunni Eftirlit með atvinnustarfsemi - tillögur til úrbóta.

Samtök atvinnulífsins