Heilbrigðar fjárfestingar

Fyrir tveimur vikum samþykkti Alþingi þingsályktun um stefnu um nýfjárfestingar. Stefnan beinist jafnt að innlendri fjárfestingu sem erlendri auk þess sem lögð er áhersla á aukna fjölbreytni og afleidda innlenda starfsemi. Tillagan hlaut mikinn stuðning þingmanna bæði stjórnar og stjórnarandstöðu og því ber að fagna.

Umræða um erlendar fjárfestingar á Íslandi og í sumum tilfellum innlendar fjárfestingar líka er oft á tíðum heldur neikvæð. Gjarnan gleymast þau víðtæku og jákvæðu áhrif sem slíkar fjárfestingar hafa á innlent efnahagslíf. Fjölmörg dæmi um fjárfestingar má rekja um fyrirtæki að hluta eða öllu leyti í eigu útlendinga hér á landi. Þeir hafa fjárfest í iðnaði, fiskeldi, ferðaþjónustu, gagnaverum, fjölmörgum sprotafyrirtækjum,  ýmsum þjónustufyrirtækjum og einnig verðbréfum á markaði. Jafnan er töluverður fjöldi erlendra fyrirtækja að skoða þá möguleika sem hér bjóðast.

Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) felur í sér frjálst flæði fjármagns þar sem erlendir aðilar geta fjárfest hér á landi eftir þeim lögum og reglum sem hér gilda.  Á sama hátt geta Íslendingar fjárfest erlendis þótt það hafi verið miklum takmörkunum háð frá því sett voru höft á fjármagnsflutninga sem vonandi verða afnumin sem fyrst. Við megum aldrei falla í þá gryfju að ræða um gjaldeyrishöft sem hluta af eðlilegu fjárfestingarumhverfi á Íslandi til framtíðar. Fjölmörg fyrirtæki hafa byggt upp mikil umsvif erlendis þar sem þau nýta styrkleika sína og geta náð fótfestu vegna þeirra. Einstaklingar gátu einnig fjárfest erlendis hvort sem var í verðbréfum eða tilteknum rekstri þar sem þeir hafa komið auga á möguleika til að auka verðmæti fjárfestingarinnar.

Umfangsmiklum fjárfestingum fylgja gjarnan mikil umsvif, þau skapa störf og verðmæti. Afleidd áhrif geta verið mikil eins og Íslendingar þekkja vel af þjónustu innlendra fyrirtækja við erlend fyrirtæki hér á landi. Ríki og sveitarfélög njóta góðs vegna skattgreiðslna starfsmanna, viðskiptavina auk beinna tekna af skattgreiðslum fyrirtækisins sjálfs.

Fjárfestingar ráðast menn í til að njóta hagnaðar þegar vel gengur en bera sjálfir áhættuna þegar verr gengur. Arðgreiðslur til eigenda eru sjálfsagðar og eðlilegar þegar vel árar en þurfa að vera innan skynsamlegra marka til að rýra ekki um of viðkomandi rekstur.

Það eru hagsmunir íslensks samfélags að hér ríki heilbrigt fjárfestingarumhverfi þar sem innlendir og erlendir fjárfestar búa við samkeppnishæf rekstrarskilyrði án gjaldeyrishafta. Þeim ber að sjálfsögðu að fara að lögum og reglum bæði í heimalandinu og eins þar sem fjárfest er.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.

Leiðari fréttabréfsins Af vettvangi í mars 2016.