Vinnumarkaður - 

10. Oktober 2008

Háskólar opni dyrnar

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Háskólar opni dyrnar

Samtök atvinnulífsins hafa farið þess á leit við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst að opnað verði fyrir fleiri námsleiðir í ljósi aðstæðna í efnahagslífi og á vinnumarkaðnum framundan. Þór Sigfússon, formaður SA, hefur rætt við Svöfu Grönfeldt, rektor HR, og Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, og hyggst einnig ræða við Háskóla Íslands.

Samtök atvinnulífsins hafa farið þess á leit við Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Bifröst að opnað verði fyrir fleiri námsleiðir í ljósi aðstæðna í efnahagslífi og á vinnumarkaðnum framundan. Þór Sigfússon, formaður SA, hefur rætt við Svöfu Grönfeldt, rektor HR, og Ágúst Einarsson, rektor á Bifröst, og hyggst einnig ræða við Háskóla Íslands.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Í frétt blaðsins segir:

"Ég hef haft áhuga á því að háskólarnir opni frekar ákveðin svið fyrir fólk sem kann að verða fyrir atvinnumissi. Forystumenn skólanna hafa tekið mjög vel í þessa málaleitan," segir Þór.

Svafa Grönfeldt segir HR hafa nokkrar leiðir til að bregðast við þessu. Í fyrsta lagi nefnir hún Opna háskólann, þar sem kennd eru ýmis námskeið úr kjarnafögum skólans, eins og tæknifræði, verkfræði, viðskiptafræði og lögfræði. Hægt er að taka þessi námskeið í fjarnámi en þau eru einingabær til háskólaprófs, bæði hér á landi og erlendis. Í öðru lagi muni háskólinn taka inn nýja nemendur um áramót.

"Síðan erum við með nýja braut er nefnist Fyrirtækjasmiðja, sem hefur verið í undirbúningi á vegum Klaks, frumkvöðlaseturs innan skólans. Fólk sem hefur gengið með fyrirtæki í maganum í mörg ár getur nú komið og unnið með öðru fólk í sömu erindagjörðum og fengið um leið fræðslu í mismunandi námsgreinum."

Núna eru nemendur HR um 3.000 talsins. Svafa segir að tryggja verði að hámarksfjöldi í hverjum bekk fari ekki umfram þau viðmið sem skólinn setji sér. Á sama tíma verði hundruðum nemenda gert kleift að hefja nám í Opna háskólanum nú þegar og öðrum námskeiðum strax um áramót.

Samtök atvinnulífsins