Harðari viðurlög en í nágrannalöndunum

Á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins og Samtaka fjármálafyrirtækja, sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík, var rætt um frumvörp til laga um breytingu á samkeppnislögum annars vegar og um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði hins vegar. Frumvörpin eru nú til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis. Fulltrúar viðskiptaráðuneytis Jónína S. Lárusdóttir skrifstofustjóri og Áslaug Árnadóttir lögfræðingur, kynntu fyrirhugaðar lagabreytingar og fulltrúar atvinnulífsins, Guðrún Björk Bjarnadóttir lögmaður hjá SA og Gunnar Viðar, forstöðumaður lögfræðiráðgjafar Landsbanka Íslands, lýstu viðhorfum sínum til þeirra.

    

Til hvers?

Í máli Guðrúnar Bjarkar um frumvarp til laga um breytingu á samkeppnislögum kom fram að  frumvarpið hefur að geyma strangari refsiheimildir gagnvart einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum fyrirtækja en áður og strangari en tíðkast í nágrannalöndum Íslands. Guðrún benti á að samkvæmt frumvarpinu geti starfsmenn og stjórnarmenn fyrirtækja sem og starfsmenn samtaka fyrirtækja sætt sektum eða fangelsi allt að sex árum og spurði hvort eðlilegt væri að refsa einstaklingum fyrir brot fyrirtækja. Guðrún sagði að samkvæmt Rómarsáttmálanum og EES samningnum væri einstaklingum ekki refsað og vísaði til löggjafar í nálægum löndum, s.s. Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs og Finnlands en fyrirhugaðar breytingar á Íslandi ganga mun lengra en dæmi eru um í nágrannalöndunum. T.d. mun einfalt gáleysi nægja til refsingar einstaklinga vegna brota á samkeppnislögum. Í dönskum og norskum lögum er hins vegar gerð krafa um ásetning eða stórkostlegt gáleysi.

Guðrún Björk tók skýrt fram að bannákvæði samkeppnislaga væru mikilvæg og þau beri að virða. Þó verði að gæta meðalhófs við ákvörðun refsiramma vegna brota á lögunum og því hafi ekki verið svarað hvers vegna Íslendingar eigi að ganga lengra en önnur ríki í þessum efnum.

Heimildir til stjórnvaldssekta rýmkaðar

Í máli Áslaugar Árnadóttir kom fram að samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði þá verða heimildir Fjármálaeftirlitsins til að leggja á stjórnvaldssektir rýmkaðar og muni gilda bæði um einstaklinga og fyrirtæki. Hefur frumvarpið áhrif á alla helstu lagabálka á sviði fjármálaviðskipta og vátrygginga. Fjármálaeftirlitið fær samkvæmt frumvarpinu heimild til að leggja á stjórnvaldssektir og fjárhæðarmörk sekta nema hjá einstaklingum frá 10 þúsund krónum til 20 milljóna og hjá fyrirtækjum frá  50 þúsund krónum til 50 milljóna.

Yfir og allt um kring?

Gunnar Viðar fjallaði um frumvarp um viðurlög við brotum á fjármálamarkaði. Hann tók það skýrt fram að mikilvægasta eign fjármálafyrirtækja væri orðstír þeirra og það væri forgangsverkefni hjá þeim að starfa í samræmi við lög og reglur og góða viðskiptahætti. Frumvarpið væri byggt á þeirri ranghugmynd að aðeins sektir hefðu varnaðaráhrif gegn brotum á fjármálamarkaði. Margt í frumvarpinu liti betur út nú en þegar það var kynnt með skömmum fyrirvara í nóvember 2006 en það væri hins vegar umhugsunarvert að horfa til þeirra heimilda sem veita á Fjármálaeftirlitinu. Það taki þátt í samningu laga og reglurgerða, semji reglur og tilmæli, hafi eftirlit með framkvæmd laga, reglugerða og reglna, Fjármálaeftirlitinu sé ætlað að rannsaka meint brot og loks að fella dóma.Gunnar sagði að í ljósi aukinna valdheimilda eftirlitsins ætti að endurvekja í einhverju horfi kærunefnd vegna ákvarðana Fjármálaeftirlitsins þar sem hún hafi reynst góður farvegur til að útkljá álitamál. Nú þurfi að fara fyrir dómstóla komi álitamál upp og það geti bæði tekið langan tíma og verið kostnaðarsamt.

Erindi ræðumanna má nálgast hér að neðan og umrædd frumvörp:

Erindi:

Jónína S. Lárusdóttir

Áslaug Árnadóttir

Guðrún Björk Bjarnadóttir

Gunnar Viðar

Frumvörp:

Frumvarp til laga um  breytingu á samkeppnislögum

Frumvarp til laga um breytingar á viðurlögum við brotum á fjármálamarkaði