07. maí 2024

Hallarekstur er ekki ókeypis

Efnahagsmál

Efnahagsmál

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hallarekstur er ekki ókeypis

Umsögn um fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029

Samtök atvinnulífsins hafa skilað inn umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029.

Hraður vöxtur hefur einkennt íslenska hagkerfið frá heimsfaraldri. Þótt enn sé nokkuð bjart yfir þá eru blikur á lofti og útlit fyrir að senn hægi á. Enn er þó spáð meiri hagvexti hér á landi en í okkar helstu viðskiptalöndum. Samhliða mikilli þenslu í hagkerfinu á síðustu árum jókst verðbólga til muna, en er nú á undanhaldi.

Hið opinbera, ekki síst ríkissjóður, hefur notið góðs af þessum mikla vexti – hagvexti sem reglulega reyndist meiri en spár höfðu gert ráð fyrir. Í ljósi þess að tekjur hins opinbera eru að mestu leyti háðar umsvifum í hagkerfinu hefur tekjuvöxtur þannig ítrekað reynst umfram væntingar á umliðnum árum. Sú þróun hefur þrátt fyrir allt ekki orðið til þess að loka því gati sem skapaðist í rekstri hins opinbera á árum heimsfaraldurs. Þvert á móti var ekkert gefið eftir á útgjaldahliðinni og enn er útlit fyrir áframhaldandi hallarekstur þótt farið sé að sjást til lands.

Óvæntum tekjum sífellt ráðstafað í aukin útgjöld

Ákjósanlegt hefði verið ef ríkissjóður hefði stutt við peningastefnuna í baráttunni við verðbólguna með því að halda að sér höndum þegar kom að útgjaldaaukningu, snúa hallarekstrinum við fyrr en ella og greiða hraðar niður skuldir. Þess í stað var óvæntum tekjum sífellt ráðstafað til aukinna útgjalda og ráðist í skattahækkanir sem hæglega hefði mátt komast hjá.

SA leggja til þrjár leiðir til að bæta afkomu ríkissjóðs:

1.Hagræðing samhliða sameiningu stofnana
Samhliða bættri þjónustu við fólk og fyrirtæki er mikilvægt að sameiningar stofnana ríkisins skili sér í áþreifanlegu aðhaldi á útgjaldahlið. Launakostnaður er einn stærsti útgjaldaliður ríkissjóðs og því eðlilegt að vænta þess að sameiningar skili jafnframt fækkun starfsfólks

2.Sala ríkiseigna og aukinn einkarekstur
SA fagna viðleitni til þess að losa um eignarhlut ríkisins í fyrirtækjum en yfir 900 ma.kr. eru bundnir í félögum í eigu ríkisins í dag. Jafnframt að horft sé til aukins samstarfs hins opinbera og einkaaðila, sbr. áform um nýtt fyrirkomulag um fasteignamál hjúkrunarheimila. Mikilvægt er að hafa í huga að í flestum tilvikum má einu gilda fyrir hið opinbera eða þann sem nýtur þjónustunnar hvort það sé opinber aðili eða einkaaðili sem veitir hana svo fremi sem gæði og verð séu sambærileg.

3.Forgangsröðun og aukin festa með árangurstengingu og endurmati útgjalda
SA sakna þess að ekki sé minnst á endurmat útgjalda og árangurstengda fjárlagagerð í framlagðri fjármálaáætlun. Slíkt kæmi vafalaust að góðum notum nú þegar hægir á. Með því að tryggja að fjármunum sé veitt í forgangsverkefni með skynsamlegum hætti má draga úr sífelldri aukningu útgjalda, halda skattheimtu í lágmarki og ná betri árangri með þeim fjármunum sem til skiptanna eru

Aðgerðir yfirvalda mótist af yfirlýstri stefnu

Aðkoma ríkisins að kjarasamningum hefur sitt að segja. SA árétta að kjarasamningagerð á að snúa að kjörum launafólks á vinnumarkaði þar sem samningsaðilar eru stéttarfélög og vinnuveitendur. Réttast er að aðgerðir yfirvalda mótist af yfirlýstri stefnu þeirra í tengslum við það umboð sem þeim er falið í lýðræðislegum kosningum. Hins vegar hefur aðkoma stjórnvalda að kjarasamningum í gegnum tíðina að miklu leyti til verið í formi aðgerða sem hafa krafist fjárútláta af hálfu ríkissjóðs. Farsælla væri ef aðkoma þeirra einskorðaðist við umgjörð kjarasamningaumhverfisins, þ.m.t. með uppfærðri vinnulöggjöf sem stuðlar að skilvirkari kjarasamningagerð en nú er raunin. Að mati samtakanna er ótækt að útgjaldaaukningin leiði til aukinnar skattlagningar á atvinnulífið enda er ekki gert ráð fyrir henni við kostnaðarmat þeirra kjarasamninga sem nú hafa verið undirritaðir.

SA hafa á umliðnum árum margoft bent á að hallarekstur er ekki ókeypis. Í fyrsta lagi þarf að fjármagna hann með lántöku sem hefur í för með sér að greiða þarf vaxtagjöld en þau þarf aftur að fjármagna með skattheimtu, lækkun annarra útgjalda eða frekari lántöku. Á meðan sitja þarfari verkefni á hakanum þegar fjármagnskostnaður tekur til sín stóran skerf af takmörkuðum fjármunum hins opinbera. Þegar vel árar, líkt og gert hefur undanfarin ár, þarf að nýta þann meðbyr sem fæst til að rétta af reksturinn og skapa svigrúm til viðbragða þegar í harðbakkann slær. Enn á ný eru boðaðar fyrirætlanir hins opinbera í þeim efnum vonbrigði.

Stöðugleiki krefst festu og samstöðu

Samtök atvinnulífsins lögðu mikið kapp á það með viðsemjendum sínum í vetur að gera langtímakjarasamning sem gæti byggt undir efnahagslegan stöðugleika. Það er hins vegar ekki þannig að stöðugleiki komi af sjálfu sér. Hann krefst mikillar festu og samstöðu. Horfa þarf fram á veginn og tryggja að kjarasamningarnir verði til þess að draga úr verðbólguþrýstingi. Atvinnulíf og stjórnvöld þurfa að rísa undir sinni ábyrgð. Þannig náum við tökum á verðbólgunni og sköpum aðstæður fyrir lækkun vaxta. Betur færi á því að marka stærri skref í áttina að jafnvægi í framlagðri fjármálaáætlun.

Hér má lesa umsögnina í heild.

Samtök atvinnulífsins