Efnahagsmál - 

03. maí 2005

Halda ber áfram að laga skattaumhverfið

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Halda ber áfram að laga skattaumhverfið

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fjallaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra m.a. um þann mikla árangur sem náðst hefur í íslenskum efnahagsmálum á undanförnum áratug. Halldór fagnaði nýju riti SA, Áherslum atvinnulífsins. Sagðist hann geta tekið undir margt sem þar kemur fram og sagði þessa skýru framsetningu stefnumörkunar SA myndu gagnast stjórnvöldum í þeirri vinnu sem framundan er.

Í ræðu sinni á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fjallaði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra m.a. um þann mikla árangur sem náðst hefur í íslenskum efnahagsmálum á undanförnum áratug. Halldór fagnaði nýju riti SA, Áherslum atvinnulífsins. Sagðist hann geta tekið undir margt sem þar kemur fram og sagði þessa skýru framsetningu stefnumörkunar SA myndu gagnast stjórnvöldum í þeirri vinnu sem framundan er.

Frekari uppbygging stóriðju til alvarlegrar skoðunar
Halldór sagði efnahagslegan stöðugleika algjört grundvallaratriði fyrir áframhaldandi velmegun í landinu en lagði jafnframt áherslu á mikilvægi þess að huga að frekari erlendri fjárfestingu hér á landi til að halda uppi hagvexti og auka útflutningstekjur. Sagði hann mikinn áhuga erlendra aðila fyrir frekari uppbyggingu stóriðju í landinu og að þau mál væru til alvarlegrar skoðunar.

Halda ber áfram að laga skattaumhverfið
Þá tók hann undir það meginsjónarmið að halda bæri áfram að laga skattaumhverfið með það í huga að styrkja samkeppnisstöðu atvinnulífsins og bæta lífskjör almennings. Sagði hann t.d. gjöld á borð við stimpilgjöld og ýmis vörugjöld í reynd leifar frá fyrri tímum en tók einnig fram að efnahagslegt svigrúm til skattalækkana væri takmarkað. Nauðsynlegt væri að forgangsraða og sagði Halldór nauðsynlegt að gæta vel að alþjóðlegri skattasamkeppni og vera tilbúin að bregðast við þeim breytingum sem þar kynnu að verða á næstunni.

Einfaldara eftirlitskerfi
Þá fjallaði Halldór um skýrslu SA um eftirlit með atvinnustarfsemi frá síðasta aðalfundi samtakanna og sagði tillögur SA í veigamestum atriðum í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar. Sagðist Halldór taka heils hugar undir mikilvægi þess að samræma veitingu skyldra leyfa, færa hana á færri hendur, og að koma í veg fyrir að eftirlit sé ólíkt á milli eftirlitsumdæma. Áfram bæri að vinna í þeim anda að færa eftirlit til faggiltra skoðunarstofa.

Örorkubyrði lífeyrissjóða
Ennfremur fjallaði Halldór um sterka stöðu lífeyriskerfisins hér á landi í samanburði við önnur lönd, en jafnframt um vaxandi örorkubyrði sjóðanna. Sagði hann nauðsynlegt að skoða hvernig örorkuréttur stofnast sem og mögulega endurhæfingu og að þessi atriði yrðu væntanlega rædd á fundi sínum og fjármálaráðherra með fulltrúum SA og ASÍ síðar í mánuðinum.

Vantar meira traust
Þá beindi Halldór sjónum sínum að átökum um yfirráð í fyrirtækjum sem hann sagði ljóð á viðskiptalífinu. Sagði Halldór vanta meira traust í samfélagið, jafnt í stjórnmálin sem viðskiptalífið. Á báðum sviðum væri þörf á málefnalegu og sanngjörnu aðhaldi.

Loks fjallaði Halldór um nauðsyn þess að efla verulega þátt vísinda og rannsókna í landinu og um nauðsyn þess að bæta skilyrði lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Sjá ræðu Halldórs Ásgrímssonar á vef forsætisráðuneytisins.

Samtök atvinnulífsins