Efnahagsmál - 

16. október 2006

Háir tollar ígildi innflutningsbanns

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Háir tollar ígildi innflutningsbanns

Árið 2005 var innanlandsframleiðslan kjöts 24.105 tonn og heildarsala 22.728 tonn.[1] Neysla lambakjöts var 7.300 tonn, alifugla 6.000 tonn, svínakjöts 5.300, nautgripa 3.600 tonn og hrossakjöts 500 tonn. Á því ári voru flutt inn 195 tonn af kjöti, þannig að hlutur innflutnings í heildarneyslu kjöts var innan við 1%.

Árið 2005 var innanlandsframleiðslan kjöts 24.105 tonn og heildarsala 22.728 tonn.[1] Neysla lambakjöts var 7.300 tonn, alifugla 6.000 tonn, svínakjöts 5.300, nautgripa 3.600 tonn og hrossakjöts 500 tonn. Á því ári voru flutt inn 195 tonn af kjöti, þannig að hlutur innflutnings í heildarneyslu kjöts var innan við 1%.

Af kjötvörum var mest flutt inn af nauta- og hreindýrakjöti og nam innflutningur afurða af þessum dýrum rúmum helmingi innflutningsins. Flutt voru inn tæp 30 tonn af kjúklingum sem nam 0,5% af heildarneyslu þeirra og 12 tonn voru flutt inn af svínakjöti sem nam 0,2% af svínakjötsneyslunni. Enginn innflutningur lambakjöts átti sér stað.

Innflutt kjöt 1

Ígildi innflutningsbanns og tæknileg viðskiptahindrun

Ástæðan fyrir því hve lítið er flutt inn af kjöti liggur vitaskuld í þeim afar háu tollum sem lagðir eru á innflutninginn til verndar framleiðslunni innanlands. Þá er í gildi tæknileg viðskiptahindrun í því formi að óheimilt að flytja inn ferskar kjötvörur og verður innflutt kjöt að hafa verið frosið í 30 daga. Tollarnir sem teknir voru upp á tíunda áratugnum í stað innflutningsbanns í tengslum við samning WTO eru það háir að þeir koma í raun í veg fyrir innflutning. Heimildir eru til innflutnings takmarkaðs magns á lægri tollum og eru þeir boðnir út til hæstbjóðenda, en það kerfi hefur svipuð áhrif og tollarnir þegar upp er staðið, enda eru þessar heimildir til innflutnings á lægri tollum ekki nýttar nema að litlu leyti.

Tvenns konar tollar eru lagðir á kjötvörur, þ.e. verðmætatollur sem er 30% á allar kjöttegundir og magntollur sem er ákveðin krónutala á hvert kíló. Magntollurinn var að meðaltali 118% af tollverði miðað við innflutning kjöts árið 2005 og var því meðaltollurinn samtals 148% það ár. Hæstur var tollurinn á nautahakk, 266%, en bæði kjúklingar og kalkúnar eru með yfir 200% vernd. 

Innflutt kjöt 2b

Smellið til að sjá stærri mynd.

Áhrif 40% lækkunar á tollum

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 9. október segir að almennir tollar á innfluttum kjötvörum úr 2. kafla tollskrár verði lækkaðir um allt að 40% frá 1. mars 2007. Í því felst að hvorki er fyrirhugað að lækka tolla á mjólkurvörum né unnum kjötvörum í 16. kafla tollskrárinnar, t.d. pylsum og kæfum. Í kynningu málsins hefur komið fram að tollalækkuninni er ætlað að hafa raunveruleg og marktæk áhrif á verðlag þannig að ganga verður út frá því að 40% lækkun verði á tollum í þeim vöruflokkum sem eru í einhverri samkeppni við innlendar kjötvörur, t.d. nautakjöt, kjúklinga og svínakjöt. Í mati forsætisráðuneytisins á áhrifum skatta- og tollalækkananna var gengið úr frá 2,3% lækkun verðlags en í því felst að áhrif tollalækkananna eru metin til 0,3-0,4% lækkunar verðlags. Sú verðlækkun getur ekki orðið nema af völdum lækkunar innlendra kjötvara því markaðshlutdeild innfluttra kjötvara verður óhjákvæmilega afar lítil áfram þrátt fyrir tollalækkunina, þar sem tollarnir verða eftir sem áður afar háir. 


[1] Bændasamtök Íslands | 17.01.2006, Framleiðsla og sala búvara árið 2005

Samtök atvinnulífsins