Fréttir - 

29. Desember 2014

Háir skattar hindra efnahagsbata

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Háir skattar hindra efnahagsbata

Launafólk hefur ekki notið aukinna umsvifa í hagkerfinu sem skyldi vegna þess að skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar á atvinnulífið, einkum hækkun tryggingagjalds, hafa ekki gengið til baka. Þetta er mat Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem bendir á í samtali við Morgunblaðið að vægi nýrra skatta í að vega upp tekjutap ríkisins eftir hrunið hafi verið 84% en vægi niðurskurðar aðeins 14%. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í kjölfar undirritunar stöðugleikasáttmálans í júní 2009 var því heitið að hlutdeild skattahækkana yrði ekki meiri en 45% af þeirri upphæð sem þyrfti að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálunum.

Launafólk hefur ekki notið aukinna umsvifa í hagkerfinu sem skyldi vegna þess að skattahækkanir síðustu ríkisstjórnar á atvinnulífið, einkum hækkun tryggingagjalds, hafa ekki gengið til baka. Þetta er mat Þorsteins Víglundssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins sem bendir á í samtali við Morgunblaðið að vægi nýrra skatta í að vega upp tekjutap ríkisins eftir hrunið hafi verið 84% en vægi niðurskurðar aðeins 14%. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í kjölfar undirritunar stöðugleikasáttmálans í júní 2009 var því heitið að hlutdeild skattahækkana yrði ekki meiri en 45% af þeirri upphæð sem þyrfti að tryggja jafnvægi í ríkisfjármálunum.

Þorsteinn segir byrðarnar hafa verið bornar af heimilum og atvinnulífi sem hafi þurft að þrengja enn frekar að sér en ella vegna þess að ríkið hækkaði skatta. Nú þegar farið er að ára betur dragi ríkið hvorki saman seglin né skili skattahækkunum til baka.

„Þegar upp er staðið er niðurskurðurinn nær enginn. Hann felst fyrst og fremst í niðurskurði á fjárfestingarliðum. Það hefur engin varanleg hagræðing orðið í ríkisrekstri sem heitið getur á þessu tímabili,“ segir Þorsteinn og bendir á að tekjur ríkissjóðs hafi vaxið umfram áætlanir í ár. Það sé meðal annars vegna mikillar aukningar í tekjuskattsgreiðslum fyrirtækja sem séu nú nærri 30 milljörðum hærri í ár en fyrir tveimur árum. Því til viðbótar sé tryggingagjald sem lagt sé á atvinnulífið „nærri 30 milljörðum hærra en það ætti að vera.“

„Auknar tekjuskattsgreiðslur fyrirtækjanna hefðu átt að skapa svigrúm til lækkunar á tryggingagjaldi en því svigrúmi var eytt í aukningu ríkisútgjalda. Ríkið þrengir í raun að svigrúmi til launahækkana samfara aukinni verðmætasköpun og auknum hagnaði í atvinnulífinu þar sem skattar hafa ekki verið lækkaðir sem nokkru nemur,“ segir Þorsteinn í Morgunblaðinu 24. desember og bendir á að skattalækkanir geti haft verulega þýðingu við styrkingu kaupmáttar við gerð kjarasamninga á næsta ári.

Morgunblaðið fjallar áfram um málið í dag og ræðir m.a. við Vigdísi Hauksdóttur formann fjárlaganefndar Alþingis og Guðlaug Þór Þórðarson varaformann nefndarinnar.

Vigdís Hauksdóttir segir Samtök atvinnulífsins hafa greint þróun ríkisfjármála rétt en ekkert hafi gengið í niðurskurði. Hún segir í samtali við Morgunblaðið að hægt hefði verið að fara í hraðari skattalækkanir ef hagrætt hefði verið í rekstri ríkisins.

Guðlaugur Þór Þórðarson, segir í samtali við blaðið að „ganga þurfi miklu lengra í því að hagræða og spara í ríkisrekstrinum, “ og óskar eftir stuðningi frá aðilum vinnumarkaðarins í því efni. „Hann er fyrst og fremst í orði en ekki á borði,“ segir Guðlaugur Þór.

Guðlaugur tekur undir greiningu Samtaka atvinnulífsins. „Við erum að horfa á  þrjá stóra útgjaldaflokka sem við þurfum að ná niður; vaxtagreiðslur ríkissjóðs, lífeyrisskuldbindingar og síðan þurfum við að forgangsraða vegna þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er að breytast. Það mun kalla á aukna eftirspurn eftir t.d. heilbrigðisþjónustu. Ég kalla eftir bandamönnum við þessa forgangsröðun.“

Guðlaugur Þór bendir á sem dæmi um leiðir til hagræðingar að Íbúðalánasjóður þurfi 5,3 milljarðaframlag frá ríkinu í ár vegna tapreksturs. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi bent á að hægt sé að hætta þeim útgjöldum með því að loka sjóðnum.

Annað dæmi sé að mikið sé rætt um nauðsyn þess að taka á vandanum í lífeyrismálum, jafna réttindi almennra og opinberra starfsmanna og hækka lífeyrisaldurinn, og annað slíkt, án þess að nokkuð gerist. „Þegar á hólminn er komið virðast menn ekki tilbúnir í það og það er mál sem ekki gerist án atbeina vinnumarkaðarins.“

Sjá ítarlegri umfjöllun í Morgunblaðinu 24. og 29. desember 2014.

Samtök atvinnulífsins