1 MIN
Hagvöxtur vel umfram væntingar á fyrri helmingi ársins
Landsframleiðslan á fyrri helmingi ársins mældist 5,2% meiri en á sama tíma í fyrra. Hagvöxturinn er mun meiri en í fyrra, þegar hann mældist 0,6% á fyrri helmingi ársins og töluvert umfram hagvaxtarspá Seðlabankans upp á 4,2% fyrir árið í heild. Innlend eftirspurn er helsti drifkraftur hagvaxtarins en bæði fjárfesting og einkaneysla uxu mikið á fyrri helmingi ársins. Kemur það ekki á óvart þar sem að kaupmáttur hefur aukist um 5,9% á síðastliðnum 12 mánuðum. Framlag utanríkisviðskipta var neikvætt en vöxtur þjóðarútgjalda var 7,3%.
Landsframleiðslan á fyrri helmingi ársins mældist 5,2% meiri en á sama tíma í fyrra. Hagvöxturinn er mun meiri en í fyrra, þegar hann mældist 0,6% á fyrri helmingi ársins og töluvert umfram hagvaxtarspá Seðlabankans upp á 4,2% fyrir árið í heild. Innlend eftirspurn er helsti drifkraftur hagvaxtarins en bæði fjárfesting og einkaneysla uxu mikið á fyrri helmingi ársins. Kemur það ekki á óvart þar sem að kaupmáttur hefur aukist um 5,9% á síðastliðnum 12 mánuðum. Framlag utanríkisviðskipta var neikvætt en vöxtur þjóðarútgjalda var 7,3%.
Mikil aukning atvinnuvegafjárfestingar
Fjárfesting jókst um 21,2% á fyrri helmingi ársins. Það er gleðiefni að hún vaxi eins mikið og raun ber vitni þar sem fjárfestingar skapa grundvöll hagvaxtar til lengri tíma. Fjárfestingastigið er nú komið í 18% af landsframleiðslu og hefur hækkað um 2% milli ára, en er þó enn lægra en sögulegt meðaltal. Vöxtinn má alfarið rekja til vaxtar atvinnuvegafjárfestinga sem uxu um 38% á fyrri helmingi ársins en aðrir undirliðir fjárfestinga drógust saman. Atvinnuvegafjárfesting án skipa og flugvéla jókst um 20,3% á sama tíma og fjárfesting alls án skipa og flugvéla um 9%.
Ferðaþjónustan dregur útflutningsvagninn ...
Útflutningur jókst um 9% á fyrri helmingi ársins en líkt og undanfarin ár er vöxturinn einkum tilkominn vegna þjónustuútflutnings. Þjónustuútflutningur jókst um 15,5% á fyrstu sex mánuðum ársins en vöruútflutningur um aðeins 3,9%. Á fyrri helmingi þessa árs voru met slegin bæði í fjölda erlendra ferðamanna og í afgangi af þjónustuviðskiptum. Afgangur þjónustuviðskipta nam 74,5 ma.kr. eða 7,1% af landsframleiðslu en á sama tíma var halli á vöruskiptum um 0,8% af landsframleiðslu.
... en innflutningur vex einnig mikið
Aukin einkaneysla og fjárfesting helst að jafnaði í hendur við aukinn innflutning fjárfestingavara og neysluvara. Vöruinnflutningur jókst um 19,6% og þjónustuinnflutningur um 4,4% á fyrri hluta ársins. Á heildina litið var framlag utanríkisviðskipta því neikvætt.