Efnahagsmál - 

09. Janúar 2002

Hagvöxtur með fríverslun

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagvöxtur með fríverslun

Á aðalfundi NHO, norsku samtaka atvinnulífsins, var hnattvæðingin til umfjöllunar og þau tækifæri sem í henni felast. Á fundinum var einkum lögð áhersla á mikilvægi fríverslunar. Í erindi sínu sagði Jens Ulltveit-Moe, formaður NHO, suma hagnast á hnattvæðingunni, en aðra tapa. Þeir sem hagnast eru samkvæmt honum fyrirtæki og lönd með ríka aðlögunarhæfni, sem og fátækt fólk um heim allan. Þeir sem tapa á hnattvæðingunni eru hins vegar fyrirtæki og lönd sem halda að sér höndum, sýna ekki næga aðlögunarhæfni eða hamla gegn erlendum samskiptum.

Á aðalfundi NHO, norsku samtaka atvinnulífsins, var hnattvæðingin til umfjöllunar og þau tækifæri sem í henni felast. Á fundinum var einkum lögð áhersla á mikilvægi fríverslunar. Í erindi sínu sagði Jens Ulltveit-Moe, formaður NHO, suma hagnast á hnattvæðingunni, en aðra tapa. Þeir sem hagnast eru samkvæmt honum fyrirtæki og lönd með ríka aðlögunarhæfni, sem og fátækt fólk um heim allan. Þeir sem tapa á hnattvæðingunni eru hins vegar fyrirtæki og lönd sem halda að sér höndum, sýna ekki næga aðlögunarhæfni eða hamla gegn erlendum samskiptum.

Atvinnulífið driffjöðurin
Hnattvæðingin er af mörgum talin vera orsök ýmissa heimsins vandamála, en hún er að mati NHO mikilvægur þáttur til lausnar slíkum vandamálum. Ulltveit-Moe segir hnattvæðinguna fela í sér ótrúlega möguleika og að atvinnulífið hafi öðrum fremur verið driffjöður hennar. Hann segir ótrúlega þróun hafa átt sér stað í heiminum síðustu áratugi. Þannig hafi hlutfall vannærðra í þróunarríkjum minnkað úr 35% árið 1970 í 15% nú, ólæsi fari minnkandi og fleiri búi nú við lýðræðislegt stjórnarfar en nokkru sinni fyrr. Í riti NHO um hnattvæðinguna kemur einnig fram að hlutur þróunarríkja í heimsversluninni hefur aukist úr um 20% árið 1970 í um 33% árið 2001, að mati WTO.  Hins vegar segir Ulltveit-Moe jafnframt blasa við alvarleg vandamál, og nefnir hann m.a. fátækt, eyðni og mengun í því sambandi.

Hagvöxtur með fríverslun
Lausnin er hins vegar ekki fólgin í að sporna gegn hnattvæðingunni, þvert á móti. Aukin alþjóðaviðskipti hafa þannig haft mikil áhrif til að efla velferð og draga úr fátækt. Þau lönd sem hafa verið fremst í fríverslun hafa einnig notið mests hagvaxtar. Ulltveit-Moe vísaði í rannsókn Harvard-háskóla sem sýnir að "opin" lönd nutu 3-6 sinnum meiri hagvaxtar en þau "lokuðu" á árunum 1970-1990. Hann lagði því mikla áherslu á mikilvægi fríverslunar og sagði niðurstöðu ráðherrafundar WTO í Doha gefa vonir um áframhaldandi þróun í þá átt, sem og um aukna möguleika þróunarríkja á sviði fríverslunar. Loks sagði hann stofnanir á borð við WTO ekki síst mikilvægar fyrir smærri ríki, líkt og Noreg.

Þversagnir í mótmælum
Í riti sem NHO gáfu út um hnattvæðinguna furða þau sig einmitt á því að ýmis samtök sem að sögn berjast gegn ókostum hnattvæðingarinnar beini spjótum sínum gegn stofnunum sem ætlað er að takast á við slíka ókosti, t.d. með því að setja reglur um milliríkjaverslun og fylgjast með framkvæmd þeirra, sem er meðal helstu hlutverka WTO.

Sjá erindi formanns NHO á aðalfundi samtakanna.

Sjá rit NHO um hnattvæðinguna sem út kom í tengslum við aðalfund samtakanna (pdf-skjal).

Samtök atvinnulífsins