Efnahagsmál - 

28. Febrúar 2020

Hagvöxtur í kólnandi hagkerfi

Efnahagshorfur

Greining

Efnahagshorfur

Greining

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagvöxtur í kólnandi hagkerfi

Hagvöxtur var 1,9% árið 2019 og minnkaði um 0,3% á hvern íbúa samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Við fyrstu sýn virðist það bærilegur árangur miðað við aðstæður en við blasir dekkri mynd þegar horft er til þróunar undirliða. Þá blasir við hratt kólnandi hagkerfi þar sem fjárfesting dregst saman og þjóðarútgjöld standa í stað.

Hagvöxtur var 1,9% árið 2019 og minnkaði um 0,3% á hvern íbúa samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Við fyrstu sýn virðist það bærilegur árangur miðað við aðstæður en við blasir dekkri mynd þegar horft er til þróunar undirliða. Þá blasir við hratt kólnandi hagkerfi þar sem fjárfesting dregst saman og þjóðarútgjöld standa í stað.

Hagvöxtur ársins skýrist einkum af því að innflutningur minnkaði meira en útflutningur.Helstu drifkraftar hagvaxtar undangengin ár; fjárfesting og útflutningur, lýsa samdrætti í efnahagslífinu. Athygli vekur að þjónustuútflutningur óx á 4. ársfjórðungnum þrátt fyrir verulegan samdrátt í útfluttri ferðaþjónustu. Sveiflukenndir einsskiptisliðir, útflutt viðskiptaþjónusta og sala hugverkaréttar, vega þar þyngst.

Kallar á skjót viðbrögð hagstjórnaraðila
Útlit er fyrir að greiningaraðilar lækki hagvaxtarspár þessa árs enn frekar á næstunni. Seðlabankinn gerði í febrúarbyrjun ráð fyrir 0,8% hagvexti á árinu sem miðað við núverandi aðstæður telst nokkuð bjartsýn spá. Í fyrsta lagi vegna þess að hagvöxtur á árinu 2019 var heldur meiri en áður var talið, að hluta til vegna einsskiptisliða, og eru grunnáhrifin þau að vöxtur ársins 2020 verður minni. Í öðru lagi hefur óvissa vegna áhrifa kórónaveirunnar gerbreytt stöðunni til hins verra, bæði erlendis og hér á landi.

Að mati Samtaka atvinnulífsins staðfesta tölur Hagstofunnar að hagkerfið er í niðursveiflu. Vaxandi slaki í efnahagslífinu, minnkandi atvinnuvegafjárfesting, lakari horfur í heimsbúskapnum, aukið atvinnuleysi, loðnubrestur og ótti við heimsfaraldur af völdum kórónaveirunnar gefa tilefni til viðbragða hagstjórnaraðila. Nauðsynlegt er að Seðlabankinn haldi áfram að draga úr aðhaldi peningastefnunnar með áframhaldandi lækkun stýrivaxta og beitingu annarra stjórntækja til að styrkja efnahagsstarfsemina. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar skipta ekki síður máli. Á næstunni munu stjórnvöld kynna nýja fjármálaáætlun og eru vonir bundnar við að sú áætlun muni styðja við atvinnulífið og milda áhrif niðursveiflunnar.

 

Samtök atvinnulífsins