Efnahagsmál - 

08. Júní 2012

Hagvöxtur drifinn af einkaneyslu

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagvöxtur drifinn af einkaneyslu

Kröftugur hagvöxtur á 1. ársfjórðungi 2012 er ánægjulegur, en landsframleiðsla (VLF) jókst um 4,5% að raunvirði frá sama fjórðungi 2011. Það telst einnig til ánægjulegra tíðinda að fjárfestingar í heild jukust um rúm 9% á þessu 12 mánaða tímabili og fjárfestingar atvinnuveganna um 13%. Fjárfestingar í heild námu 12,5% af VLF og fjárfestingar atvinnuveganna 8,7% og hækkuðu bæði hlutföllin um tæpt 1%.

Kröftugur hagvöxtur á 1. ársfjórðungi 2012 er ánægjulegur, en landsframleiðsla (VLF) jókst um 4,5% að raunvirði frá sama fjórðungi 2011. Það telst einnig til ánægjulegra tíðinda að fjárfestingar í heild jukust um rúm 9% á þessu 12 mánaða tímabili og fjárfestingar atvinnuveganna um 13%. Fjárfestingar í heild námu 12,5% af VLF og fjárfestingar atvinnuveganna 8,7% og hækkuðu bæði hlutföllin um tæpt 1%.

Að baki hagvextinum stendur hins vegar aukin einkaneysla að mestu leyti. Einkaneyslan jókst um 4,2% sl. 12 mánuði og skýrir, ásamt 1% aukningu samneyslu, tæpa tvo þriðju hluta hagvaxtarins á þessu tímabili. Auknar fjárfestingarnar standa að baki rúmum fjórðungi hagvaxtarins.

Áhyggjuefnin snúa sem fyrr að utanríkisviðskiptunum. Framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar var neikvætt á ársfjórðungnum og hefur verið óverulegt á undanförnum misserum.  Með öðrum orðum hefur raunaukning  útflutnings og innflutnings haldist í hendur á sl. 12 mánuðum. Þegar við bætist neikvæð þróun viðskiptakjara þá fer vöruskiptaafgangur minnkandi en hann nam 23 ma.kr. (8,7% af VLF) á 1. ársfjórðungi 2012 samanborið við 26 ma. kr. (10,2%) fyrir ári síðan. Tölur um þjónustujöfnuð valda vonbrigðum í ljósi mikillar aukningar ferðamanna en þjónustuútflutningur jókst töluvert minna  en þjónustuinnflutningur

Hagvöxturinn  er sem fyrr að mestu knúinn af aukningu einkaneyslu sem eykst nokkurn veginn í takt við kaupmáttarþróun en kaupmáttur launa skv. launavísitölu jókstu um 4,1%  á milli 1. ársfjórðungs 2011 og 2012. Neikvæð hlið þeirrar gerðar hagvaxtar sem á sér nú stað á Íslandi birtist í minnkandi vöruskiptaafgangi (og versnandi viðskiptajöfnuði) sem m.a. veikir undirstöður gengis krónunnar. Sjálfbær hagvöxtur til lengri tíma krefst annarra drifkrafta en aukinnar neyslu, þ.e. verulegra aukinna fjárfestinga, einkum í útflutningsstarfsemi.

Samtök atvinnulífsins