Efnahagsmál - 

07. júlí 2011

Hagvaxtarhorfur næstu misseri: Vöxtur hvílir á sjávarútvegi og auknum fjárfestingum

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagvaxtarhorfur næstu misseri: Vöxtur hvílir á sjávarútvegi og auknum fjárfestingum

Miðað við horfur í einkaneyslu og fjárfestingu er líklegt að magn og verðmæti sjávarafurða muni gera útslagið um hvort og þá hversu mikill vöxtur verði í íslensku efnahagslífi á næstu misserum. Það skýtur því skökku við að á sama tíma gangi stjórnvöld fram fyrir skjöldu og leggi til breytingar á stjórn fiskveiða sem draga verulega úr rekstrarhagkvæmni fyrirtækja í sjávarútvegi og leiða til minnkandi verðmætis sjávarfangs. Slík stefna gengur þvert á markmið nýgerðra kjarasamninga um styrkingu gengis krónunnar, hjaðnandi verðbólgu og aukinn kaupmátt launa. Þetta kemur m.a. fram í umfjöllun hagdeildar SA um hagvaxtarhorfur.

Miðað við horfur í einkaneyslu og fjárfestingu er líklegt að magn og verðmæti sjávarafurða muni gera útslagið um hvort og þá hversu mikill vöxtur verði í íslensku efnahagslífi á næstu misserum. Það skýtur því skökku við að á sama tíma gangi stjórnvöld fram fyrir skjöldu og leggi til breytingar á stjórn fiskveiða sem draga verulega úr rekstrarhagkvæmni fyrirtækja í sjávarútvegi og leiða til minnkandi verðmætis sjávarfangs. Slík stefna gengur þvert á markmið nýgerðra kjarasamninga um styrkingu gengis krónunnar, hjaðnandi verðbólgu og aukinn kaupmátt launa. Þetta kemur m.a. fram í umfjöllun hagdeildar SA um hagvaxtarhorfur.

Samdráttur í fjárfestingu og einkaneyslu
Samkvæmt nýlegri mælingu Hagstofu Íslands jókst landsframleiðsla um 2,0% að raungildi milli 4. ársfjórðungs 2010 og 1. ársfjórðungs 2011, eftir 1,5% samdrátt ársfjórðunginn á undan. Þjóðarútgjöld jukust um 5,1% sem skýrist að mestu af mikilli aukningu birgða. Einkaneysla dróst saman um 1,6% og fjárfesting um 6,8%. Samneysla jókst hins vegar um 0,1% í kjölfar  samfellds samdráttar frá miðju árin 2009. Útflutningur dróst saman um 8,2% og innflutningur um 4,1% á sama tímabili.

Stjórnvöld hafa túlkað þessar tölur sem teikn um að botni efnahagslægðarinnar hafi verið náð og að framundan sé vöxtur í efnahagslífinu. Það er þó ekki útséð með það í ljósi þess að væntingar um betri tíð á grundvelli ársfjórðungslegra talna Hagstofunnar um þjóðarbúskapinn hafa á undangengnum misserum ekki gengið eftir. Því er ástæða til að skoða nánar þá efnahagsþætti sem landsframleiðslan byggir á.

Þróun landsframleiðslu - smelltu til að stækka

Verðbólga vex án fjárfestinga í atvinnulífinu
Einkaneyslan dregst saman um 1,6% milli ársfjórðunga svo ekki er hún að leggja hagvexti lið. Forsendur nýgerðra kjarasamninga byggja á aukinni fjárfestingu strax á þessu ári og enn frekari aukningu á næstu árum. Fjárfesting dróst saman um 6,8% milli ársfjórðunga og þær fjárfestingar sem spár fyrir þetta ár byggðu á hafa ýmist tafist eða orðið minni en væntingar stóðu til í upphafi ársins. Horfur um fjárfestingar orkufyrirtækja og í orkufrekum iðnaði á næstu árum hafa daprast á síðustu misserum og því er veruleg hætta á að umsamdar kauphækkanir leiði til verðbólgu í stað batnandi kjara launafólks.

Áfram kreppa á vinnumarkaði
Ný reglubundin könnun Capacent meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins gefur engar vísbendingar um batnandi horfur í atvinnulífinu og áfram er gert ráð fyrir mun fleiri uppsögnum en nýráðningum. Tölur um fjölda atvinnulausra eru ekki uppörvandi og ef ekki verður breyting á blasir við að mikið atvinnuleysi verði viðvarandi. Úttekt á séreignasparnaði mun tæplega halda uppi einkaneyslu í ár líkt og síðustu tvö ár. Það er því fátt sem bendir til að einkaneysla muni aukast svo nokkru nemi á næstu ársfjórðungum.

Ljósið í myrkrinu
Þó svo að útflutningur hafi dregist saman um 8,2% milli 4. ársfjórðungs 2010 og 1. ársfjórðungs 2011 þá vógu auknar birgðir sjávarafurða og stóriðju upp þann samdrátt og varð til þess að mæld landsframleiðsla jókst um 2% á milli ársfjórðunga. Aukning birgða sjávarafurða skýrðist af miklum loðnuafla á 1. ársfjórðungi. Ljósið í myrkrinu kom því frá sjávarútvegi  á þessu tímabili. Því verður ekki trúað að stjórnvöld muni grafa undan hagkvæmni greinarinnar með vanhugsuðum lagabreytingum á þessum brothættu tímum í efnahagslífi þjóðarinnar. SA krefjast þess að ríkisstjórnin standi við eigin yfirlýsingar um raunverulega sátt um hagkvæman sjávarútveg.

Leiðin út úr vandanum
Samtök atvinnulífsins telja að atvinnuleiðin, með auknum fjárfestingum og umsvifum í öllum greinum atvinnulífsins, sé eina færa leiðin fyrir þjóðina út úr kreppunni þannig að hægt sé að bæta lífskjör fólks og minnka atvinnuleysi. Enn hefur ríkisstjórnin ekki lagt fram fjárfestingar- og hagvaxtaráætlun, sem liggja átti fyrir í lok maí, en fjárfestingar eru lykilforsenda þess að hér náist 4-5% hagvöxtur á árunum 2012 og 2013. Aðeins þannig getur atvinnulífið risið undir nýjum kjarasamningunum og kaupmáttur launa aukist á næstu árum.

Samtök atvinnulífsins