Efnahagsmál - 

22. Janúar 2009

Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna SA

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna SA

Samtök atvinnulífsins hafa markað hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu sem innlegg í umræðu um hvernig hægt er að snúa vörn í sókn. Í núverandi ástandi verður að bregðast rétt við þegar í stað, lágmarka skaðann og auðvelda nýja uppbyggingu. Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana og taka ákvarðanir sem skapa grunn að nýrri framfarasókn.

Samtök atvinnulífsins hafa markað hagsýna, framsýna og áræðna atvinnustefnu sem innlegg í umræðu um hvernig hægt er að snúa vörn í sókn. Í núverandi ástandi verður að bregðast rétt við þegar í stað, lágmarka skaðann og auðvelda nýja uppbyggingu. Nauðsynlegt er að grípa til ráðstafana og taka ákvarðanir sem skapa grunn að nýrri framfarasókn.

Hagsýn

Tillögur Samtaka atvinnulífsins um hagsýna atvinnustefnu taka mið af því að nýta þá víðtæku þekkingu og reynslu sem íslenskt atvinnulíf byggir á. Leggja þarf sérstaka rækt við framtak, nýsköpun og menntun og setja fram metnaðarfull áform um uppbyggingu atvinnulífsins, sköpun nýrra starfa og endurheimt þeirra sem hafa glatast.

Leggja þarf áherslu á arðsemi þess rekstrar sem byggður er upp og því sem hann getur skilað til eigenda sinna, starfsmanna og lánadrottna og hverju hann skilar til að efla skattstofna fyrir sameiginlegar þarfir samfélagsins.

Framsýn

Samtök atvinnulífsins leggja áherslu á framsýna atvinnustefnu því að horfa verður til langs tíma og byggja upp atvinnulíf sem er vel í stakk búið til að mæta utanaðkomandi áföllum. Atvinnulíf þjóða heims verður sífellt nátengdara þar sem uppgangur einnar þjóðar skapar markað fyrir aðrar og vandamál í atvinnulífi einnar þjóðar dreifast um alla heimsbyggðina.

Atvinnulífið verður að fá aðgang að alþjóðlegum mörkuðum til þess að vaxa og dafna en jafnframt þarf að gæta að áhættudreifingu og grundvelli stöðugleika til lengri tíma. Hagvöxtur og bætt lífskjör í náinni framtíð verða að byggja á góðri samkeppnisstöðu atvinnulífsins og auknum útflutningi vöru og þjónustu.

Áræðin

Samtök atvinnulífsins vilja áræðna atvinnustefnu sem felst í því að áfram verði tekin áhætta í atvinnulífinu. Forráðamenn fyrirtækja verða að þora að leggja út í nýjungar, fjárfesta og ráða fólk í vinnu. Fjárfestar verða að halda áfram að þora að leggja eigið fé í rekstur fyrirtækja og bankar og aðrar fjármálastofnanir verða að þora að lána fyrirtækjum fé til nýrra verkefna.

Gagnrýni á rétt á sér - réttar ákvarðanir nauðsynlegar

Í kjölfar þeirra áfalla sem dunið hafa yfir þjóðina og atvinnulífið er það gagnrýnt að uppgangurinn á síðustu árum hafi um of byggst á græðgi og óhófi og að forráðamenn atvinnulífs og fjárfestar hafi ekki sést fyrir í fjárfestingum og öðrum fjármálalegum ráðstöfunum. Slík gagnrýni á vissulega rétt á sér eins þótt ástæður áfallanna séu af margvíslegum toga, og atvinnulífið þarf að endurmeta sína stöðu. Íslenska þjóðin og atvinnulífið hafa áður orðið fyrir áföllum þótt samdrátturinn nú geti orðið sá illvígasti sem dunið hefur á þjóðinni á síðari tímum. Því ríður enn meira á en nokkru sinni fyrr að taka réttar ákvarðanir í atvinnumálum.

Gagnrýni á græðgi og óhóf má ekki verða til þess að drepa niður heilbrigðan metnað til þess að skipa Íslandi örugglega í fremstu röð meðal þjóða heims. Samtök atvinnulífsins leggja til leiðir í atvinnumálum sem byggja á hagsýni, framsýni og áræðni. Slíkar leiðir eru best fallnar til að skila þjóðinni og atvinnulífinu fram á veg og helst í fremstu röð. En til þess að það verði að veruleika þarf skýr markmið og réttar og tímabærar ákvarðanir sem fylgt er eftir af festu.

Sjá nánar:

Atvinnustefna SA

Hagsýn, framsýn og áræðin atvinnustefna (PDF)

Samtök atvinnulífsins