Fréttir - 

06. janúar 2020

Hagsveifla kveður

Samtök atvinnulífsins

1 MIN

Hagsveifla kveður

Árið 2019 var markvert fyrir margar sakir. Þó veðrið hafi framan af ári leikið við landsmenn þá léku efnahagslegir hagvísar okkur heldur grátt. Í upphafi árs stefndi í hörð átök á vinnumarkaði og vaxandi áhyggjur voru af stöðu ferðaþjónustunnar - áhyggjur sem reyndust vera á rökum reistar. Snarpur viðsnúningur í komum ferðamanna samfara áföllum í flugrekstri breytti efnahagsforsendum til hins verra og í framhaldinu voru mun dekkri hagvaxtarspár dregnar fram. Efnahagslægð er nú yfir landinu og birtist m.a. í vaxandi atvinnuleysi og minnkandi fjárfestingum í atvinnulífinu.

Árið 2019 var markvert fyrir margar sakir. Þó veðrið hafi framan af ári leikið við landsmenn þá léku efnahagslegir hagvísar okkur heldur grátt. Í upphafi árs stefndi í hörð átök á vinnumarkaði og vaxandi áhyggjur voru af stöðu ferðaþjónustunnar - áhyggjur sem reyndust vera á rökum reistar. Snarpur viðsnúningur í komum ferðamanna samfara áföllum í flugrekstri breytti efnahagsforsendum til hins verra og í framhaldinu voru mun dekkri hagvaxtarspár dregnar fram. Efnahagslægð er nú yfir landinu og birtist m.a. í vaxandi atvinnuleysi og minnkandi fjárfestingum í atvinnulífinu.

Árið var þó ekki alslæmt í efnahagslegu tilliti. Innflæðishöftin voru endanlega afnumin og þar með var mikilvægum áfanga náð í íslenskri hagsögu sem einkennst hefur af meiri höftum en tíðkast meðal annarra þróaðra ríkja. Skynsamir kjarasamningar náðust milli stærstu viðsemjendanna á almennum vinnumarkaði og í framhaldinu hóf Seðlabankinn vaxtalækkunarferil. Gengi krónunnar hélst nokkuð stöðugt og verðbólga hélst við markmið.

Aðlögun að breyttum aðstæðum getur orðið mild ef rétt er að málum staðið. Aukinn sparnaður og varfærni heimila og fyrirtækja á undanförnum árum hefur styrkt stoðir efnahagslífsins. Stjórnvöld boða skattalækkanir og aukið fjármagn verður sett í opinberar framkvæmdir. Þá hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti um 150 punkta á árinu. Viðbrögð hagstjórnaraðila við breyttum efnahagsforsendum eru í senn eðlileg og jákvæð. Meira þarf þó að koma til. Á sama tíma og stýrivextir Seðlabankans eru í sögulegu lágmarki eru skammtíma raunvextir á skuldabréfamarkaði álíka og áður en vaxtalækkunarferlið hófst. Viðskiptabankarnir berjast nú við að skila ásættanlegri arðsemi við skilyrði íþyngjandi eiginfjárkvaða og séríslenskra bankaskatta. Hefur það skilað sér í hærri útlánavöxtum en ella. Á næstu misserum verða stjórnvöld og Seðlabankinn að tryggja heilbrigt rekstrarumhverfi. Það dugar þó ekki að endurskoða einungis sérálögur á fjármálafyrirtækin heldur einnig aðra skattstofna – tryggingagjald, tekjuskattur fyrirtækja, fjármagnstekjuskattur, veiðigjald, gistináttaskattur og kolefnisgjald eru dæmi um nýja skatta eða eldri sem hafa hækkað síðastliðin ár.

Ef hagvaxtarspár rætast verður árið 2020 sæmilegt en þær gera ráð fyrir að hagkerfið taki við sér á næsta ári eftir lítilsháttar samdrátt í ár. Verðbólga verði við markmið, krónan stöðug og áframhaldandi viðskiptaafgangur. Ekkert af þessu er þó fast í hendi og innbyggðar forsendur í þjóðhagslíkönum greiningaraðila líklega of bjartsýnar. Eftir sem áður getum við þó sammælst um að árið 2019 markaði endalok hefðbundinnar íslenskrar hagsveiflu sem undantekningalaust hefur endað með gengisfalli, verðbólguskoti og kaupmáttarrýrnun. Það er áfangi út af fyrir sig og ber að fagna.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs SA.

Greinin birtist í Markaði Fréttablaðsins 27. desember 2019. 

 

Samtök atvinnulífsins