Hagsmunir Íslands í loftslagsmálum verði tryggðir

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin var á Balí í desember var ákveðið að hefja tveggja ára ferli viðræðna um aðgerðir í loftslagsmálum. Ætlunin er að þessu ferli ljúki  meðnýju alþjóðlegu samkomulagi á ráðstefnu í Kaupmannahöfn í desember 2009.

Erfitt að draga úr útstreymi fram til 2020

Viðræðurnar munu einkum fara fram eftir tveimur samhliða leiðum. Annars vegar verður fjallað um frekari skuldbindingar um samdrátt í útstreymi þeirra ríkja sem þegar hafa gengist undir slíkar skuldbindingar fyrir tímabilið 2008 til 2012.  Hins vegar verður fjallað um langtímamarkmið um samdrátt í útstreymi gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu og einnig um samdrátt einstakra iðnríkja sem tekur mið af aðstæðum í hverju þeirra. Eins verður fjallað um samdrátt í útstreymi þróunarríkja sem féllust á það í fyrsta sinn að gangast fyrir aðgerðum sem eru mælanlegar og sannanlegar.

Íslensk stjórnvöld munu taka þátt í viðræðum eftir báðum leiðum. Búast má við að kynnt verði langtímamarkmið ríkisstjórnarinnar um 50 - 75% samdrátt í nettóútstreymi árið 2050 en með því er átt við samdrátt í heildarútstreymi að frádregnu því sem bundið verður með skógrækt, landgræðslu og verkefnum í öðrum ríkjum. Þegar kemur að því að gangast undir 25 - 40% samdrátt í útstreymi til ársins 2020 er staðan hins vegar mun erfiðari.

Endurnýjanleg orka nær allsráðandi á Íslandi

Heildarútstreymi ársins 1990 hér á landi sem er grunnár í öllum samanburði var rúm 3,4 milljón tonn og má vera um 10% meiri að meðaltali 2008 - 12 eða um 3,8 milljón tonn. Útstreymi þarf því að dragast saman um 1 - 1,5 milljón tonna á ári til að fullnægja þeim forsendum sem gengið er út frá í viðræðum um framhald Kyoto-bókunarinnar. Það er hins vegar mjög erfitt að sjá fyrir sér hvernig það á að geta gerst. Uppsprettur eru hér af allt öðrum toga en í flestum öðrum ríkjum þar sem unnt er að ráðast í breytingar á orkuframleiðslu og bæta orkunýtingu en hér á landi er nánast öll orkuframleiðslan úr endurnýjanlegum orkulindum.

Auk fjögurra fyrirtækja í orkufrekum iðnaði eru það samgöngutæki, vinnuvélar, fiskiskipaflotinn auk landbúnaðar og úrgangs sem valda útstreyminu. Þau tæki og tól sem verið er að kaupa til landsins nú og á næstunni munu að stórum hluta verða hér alveg fram undir 2020 og mörg hafa mun lengri endingartíma. Engar stórfelldar tæknibreytingar eru á döfinni sem breyta þessu útstreymismynstri á næstunni. Vissulega er hægt að ná árangri á mörgum sviðum og sjálfsagt að grípa til allra hagkvæmra aðgerða til að draga úr útstreyminu en þess verður að gæta að skaða ekki samkeppnisstöðu fyrirtækja með frekari kröfum en almennt eru gerðar í nálægum löndum.

Íslenska ákvæðinu beitt gegn gróðurhúsaáhrifum

Eins og kunnugt er var ein meginforsenda þess að Ísland gat gerst aðili að Kyoto-bókuninni sú að til varð alþjóðlegur pottur útstreymisheimilda upp á 1,6 milljónir tonna þar sem unnt er að sækja heimildir til uppbyggingu orkufreks iðnaðar sem nýtir endurnýjanlega orkugjafa til framleiðslu sinnar. Þessar heimildir teljast ekki til útstreymis einstakra ríkja og eru í raun viðurkenning á mikilvægi þess að auka nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Í daglegu tali er í þessu sambandi rætt um "íslenska ákvæðið". Nú er ljóst að þessi pottur verður fullnýttur í lok Kyoto-tímabilsins. Íslenska ákvæðið er einn liður í baráttu alþjóðasamfélagsins við gróðurhúsaáhrif og hlýnun lofthjúps jarðar sem tengist fyrst og fremst orkukerfi heimsins þ.e. brennslu olíu, kola og jarðgass, skógareyðingu og landbúnaði.

Ísland kolefnisjafnað að fullu?

Á komandi áratugum verður lögð gríðarleg áhersla á nýtingu orkugjafa sem ekki valda útstreymi gróðurhúsalofttegunda og færa má rök að því að Ísland sé þegar kolefnisjafnað að fullu því að kolaorkuver sem framleiðir eins mikla orku og Kárahnjúkavirkjun gæti losað um 4,6 milljón tonn af koldíoxíði út í andrúmsloftið á ári sem er meira en heildarútstreymi gróðurhúsalofttegunda er hér á landi um þessar mundir. Auk þess eru gerðar  strangar kröfur í umhverfismálum til þeirra fyrirtækja sem hér á landi starfa og hyggjast starfa.

Ein af grunnforsendum Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna er að ríki eigi

"...óskoraðan rétt til að hagnýta sér sínar eigin auðlindir í samræmi við eigin stefnumið í umhverfis- og þróunarmálum og bera þá ábyrgð að tryggja að starfsemi innan lögsögu þeirra eða undir þeirra stjórn valdi ekki tjóni á umhverfi annarra ríkja eða svæða utan lögsögumarka einhvers ríkis."

Það er engan veginn ásættanlegt að meðan önnur ríki geta nýtt auðlindir sínar óhindrað (til dæmis olíu, kol og jarðgas) verði alþjóðlegt samkomulag til þess að takmarkanir verði lagðar á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda hér á landi vegna þess að flytja verður orkuna út í formi unninna afurða.

Skuldbindingar byggi á raunhæfu mati

Íslensk stjórnvöld hljóta því við komandi samningagerð á sama hátt og þegar unnið var að gerð Kyoto-bókunarinnar að leggja áherslu á sérstöðu Íslands og þann árangur sem náðst hefur í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Skuldbindingar um almennt útstreymi verða á byggja á raunhæfu mati á þeim aðgerðum sem unnt er að ráðast í og hagkvæmni þeirra. Það er alger nauðsyn að áfram verði unnt að byggja upp orkufrekan iðnað hér á landi eftir því sem það samræmist markmiðum í efnahagsmálum og umhverfismálum. Í nýjum alþjóðlegum samningi verður endurnýjað íslenskt ákvæði að duga til þeirrar starfsemi sem þegar eru áætlanir um og til að unnt sé að halda áfram uppbyggingu hér á landi á þeim tíma sem nýju samkomulagi er ætlað að vara.

Samtök atvinnulífsins vænta þess að í því samningaferli sem nú fer í hönd tryggi stjórnvöld hagsmuni atvinnulífsins og þar með þjóðarinnar í bráð og lengd.