Hagræðing í aflamarkskerfi

Í ræðu sinni á aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna sagði Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, það óþolandi að smábátaútgerðum skuli gert kleift að sexfalda afla sinn á meðan aðrir hafi þurft að skera niður þrjú ár í röð. Hann fjallaði m.a. um mikilvægi aukinna aflaheimilda  í þorski, ufsa, skarkola og sandkola, og um hagræðingu í útgerð. Kristján sagði ljóst að tilfærsla aflaheimilda, sem leitt hefði til fækkunar skipa í útgerð, hefði haft afgerandi áhrif til bættrar afkomu í greininni. Gríðarleg fjárfesting í hundruðum smábáta á liðnum árum væri hins vegar í fullkominni andstæðu við það hagræði sem náðst hefði í aflamarkskerfinu. Kristján tók dæmi um sameinað fyrirtæki á Suðurnesjum þar sem nú eru notuð ellefu skip til að nýta fiskveiðiheimildir, sem áður voru nýttar af 36 skipum. "Allt þetta hagræði hefur verið kostað af útgerðinni sjálfri og engir opinberir styrkir hafa  komið til, gagnstætt því sem gerst hefur í samkeppnislöndunum", sagði Kristján.

Stenst hlutaskiptakerfið til framtíðar?
Þá fjallaði Kristján m.a. um menntamál sjávarútvegsins, framsal veiðiheimilda, kvótaþak og auðlindagjald. Hann sagði það umhugsunarefni hvort hlutaskiptakerfið stæðist til framtíðar og sagði dæmi um að skipstjórahlutur gæti numið allt að 50 milljónum króna á ári. Loks sagði Kristján óbærilegar fórnir fylgja hugsanlegri aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Sjá ræðu Kristjáns Ragnarssonar á heimasíðu LÍÚ.